Sumar og sól á Siglufirði
Það var ótrúleg veðurblíða á Siglufirði nú á sunnudag þegar Icelandic Times átti leið um bæinn í yfir 20°C / 68°F hita og glapandi sól. Siglufjörður sem stendur í mynni Eyjafjarðar að vestan, fyrir miðju norðurlandi á sér merkilega sögu. Í byrjun síðustu aldar fóru Norðmenn að veiða síld fyrir norðurlandi, og á skömmum tíma varð Siglufjörður, þá 20 manna þorp, einn helsti síldarbær landsins. Árið 1950 var Siglufjörður orðin fimmti stærsti bær landsins, með hátt í 4000 íbúa og annan eins fjölda af farandverkafólki þegar sumarvertíðin stóð sem hæst. Síldin hvarf síðan vegna ofveiði árið 1968, og íbúum fækkaði hratt, nú búa í þessum fallega sögufræga bæ 1165 manns, en fer nú fjölgandi. Meðal annars vegna bættra samgangna, en Héðinsfjarðargöngin sem voru opnum árið 2010, hafa gjörbreytt samgöngum til Siglufjarðar til hins betra, til hagsbóta fyrir bæði íbúa og ferðaþjónustu. Síldarminjasafnið á Siglufirði er eitt virtasta safn landsins og eina safnið á Íslandi sem hefur hlotið evrópsku safnaverðlaunin.
Siglufjörður 18/07/2021 16:58 35mm
Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson