Þar sem ég lá á hnjánum og var að taka þessa mynd í Hljómskálagarðinum við Tjörnina í gær, heyrði ég nokkra vegfarandur kalla til mín í góða veðrinu, falleg blóm. Það er óvenjulegt að íslendingar gefi náunganum gaum, hvað þá að yrða á ókunnan mann með myndavélina inn í blómabeði. Á Íslandi vaxa um 5.500 viltar tegundir plantna, þar af 452 blómplöntur. Fjöldi plöntutegunda á Íslandi er lágur miðað við sambærileg svæði með svipuð veðurskilyrði. Skýring er auðvitað einangrun landsins míns úti í Norður Atlantshafinu, og hve stutt er síðan ísöld lauk hér. En falleg eru þau þessi blóm sem Garðyrkjustöð Reykjavíkurborgar sem stofnuð var 1961, hefur sáð í Hljómskálagarðinum, til að gleðja gesti og gangandi.
Reykjavík 08/08/2021 12:54 100mm
Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson