Skarfabakki, ný farþegamiðstöð og fjölnotahús
Samstarfskeppni á vegum Faxaflóahafnar vegna hönnunar og byggingar á fjölnota farþegamiðstöð á Skarfabakka í Sundahöfn fór fram á dögunum. Er nýju farþegamiðstöðinni ætlað að þjóna öllum gerðum farþegaskipa, þeim farþegum sem eru hefja eða ljúka sinni heimsókn til Íslands og einnig þeim sem eingöngu eru í dagsheimsókn.
Þátttaka í samkeppninni var opin öllum alverktökum sem samanstanda af arkitektum, verkfræðingum og verktökum. Verkefnið var að hanna farþegamiðstöð með góðu flæði og fjölnota möguleikum í byggingu sem væri aðlaðandi jafnt að utan sem innan.Þrjú teymi tóku þátt í samkeppninni:
- ÍAV, VSÓ Ráðgjöf ehf. og Brokkr studio
- Ístak hf. THG arkitektar, Exa nordic, Teknik, Lota, Brekke & Strand, Örugg og Landslag
- Sigurðsson ehf. Arkþing-Nordic og Efla
Valið á vinningstillögunni var í höndum tveggja dómnefnda. Önnur þeirra sá um að meta heildarlausn, innra skipulag og kostnaðarmarkmið tillagna en hin sá um að meta hæfni teyma til þess að taka þátt í samstarfi við Faxaflóahafnir um fullnaðarhönnun og byggingu mannvirkisins. Dómnefndirnar störfuðu óháðar hvor annarri þar sem gætt var nafnleyndar þátttakenda gagnvart nefndinni sem lagði mat á tillögurnar á meðan hin nefndin tók viðtöl við þátttakendur og lagði mat á hæfni teyma eftir svörum þeirra.
Tillaga teymis ÍAV, VSÓ og BROKKR STUDIO bar sigur úr býtum.Umsögn dómnefndar um vinningstillöguna:
Tillöguhöfundar nálgast verkefnið á ferskan en um leið hagkvæman hátt með mjög skýrum og einföldum kassa, sem höfundar kalla „black box“ . Þar er öll praktík leyst þannig að flæði farþega og farangurs verði sem best auk þess sem hönnuðir lögðu mikla áherslu á sveigjanleika. Utan á þann kassa gárast byggingin út og myndar formfagran glerhjúp sem gefur henni einkennandi útlit. Inngangurinn tekur vel á móti farþegum með fallegri efniskennd og skírskotun í íslenska náttúru. Vel hannað útisvæði endurspeglar formin í byggingunni með sannfærandi íveru- og gróðursvæðum með íslenskum gróðri.
Öll stoðrými eru í hjúpnum og trufla þannig ekki flæði farþega sem dómnefndinni þótti einstaklega góð lausn. Farþegar eru leiddir í gegnum bygginguna með einföldum hætti en um leið er upplifun þeirra af húsinu og nærumhverfi þess hámörkuð, með útsýni yfir eyjarnar og á Esjuna. Svalir á annarri hæð gefa farþegum möguleika á því að virða fyrir sér útsýnið undir beru lofti. Innra skipulag byggingarinnar er hannað þannig að það er mjög hentugt með tilliti til fjölnota notkunar. Á neðri hæð tengist forrými og salerni vel við rýmið sem á sumrin verður nýtt fyrir farangur, en getur nýst til að mynda sem stærðar sýningar- eða veislusalur fyrir árshátíðir og aðra viðburði yfir vetrarmánuðina. Efri hæðin skartar rými með góðri lofthæð og burðarvirki sem er að mestu súlulaust og eykur það mjög á möguleika til alls kyns viðburða og jafnvel fyrir tónleikahald á veturna. Veituhús sem fyrir er á lóðinni er fellt inn í hjúpinn á byggingunni á snjallan hátt.
Tillagan er framsækinn hvað hönnun varðar, með afbragðs fyrirkomulagi þegar kemur að flæði farþega og farangurs og er um leið mjög formfögur. Heildarásýnd þess og fyrirkomulag telur dómnefndin vera framúrskarandi. Algjör einhugur ríkti hjá dómnefnd hvað þessi atriði varðar og varð hún sammála um að tillagan væri hönnunarlega séð sú besta, m.t.t. innra skipulags og útlits.
Við hönnun byggingarinnar er gert ráð fyrir landgangi af 2. hæð í framtíðinni og skipulag byggingarinnar styður við þá framtíðarsýn. Í greinargerð kemur fram að hönnunarteymið telji að byggingin geti uppfyllt BREEAM „excellent“ í stað „very good“ sem rýmar vel við metnað Faxaflóahafna í umhverfismálum.
Þrátt fyrir að lóðin næst byggingunni væri vel hönnuð þá þótti dómnefnd að rútustæðin og biðstöðvar farþega mætti leysa betur og gera hlýlegra. Áhugavert væri að hanna það í takt við útisvæðin næst byggingunni án þess þó að skerða fjölda stæða of mikið.
Viðtalsnefndin hafði þetta um vinningstillöguna að segja:
Reynslumikill verktaki. Flest kom fram sem óskað var eftir, skýrt með hvaða hætti samstarf við verkkaupa væri háttað og haldið utan um gögn. Þetta teymi bar af hvað varðar nýtingu upplýsingatæknilausna á verktíma.