Vistbyggðarráð – Vistvænn byggingariðnaður

Hús Náttúrufræðistofnunnar Íslands í Urriðaholt er umlukið glerhjúp sem eykur gæði náttúrulegrar loftræsingar auk þess að vera eitt helsta sérkenni byggingarinnar. Byggingin er hönnuð af ARKÍS arkitektum og er í BREEAM vottunarferli.

Snemma á þessu ári (2010) var hér á landi stofnað Vistbyggðarráð sem er samráðsvettvangur fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana í mannvirkjageiranum sem eiga það sameiginlegt að stefna að aukinni útbreiðslu á vistvænum byggingaðferðum og skipulagi. Megintilgangur Vistbyggðarráðs er því að vera leiðandi vettvangur á sviði sjálfbærrar þróunar við skipulag, hönnun, byggingu, rekstur og viðhald mannvirkja á Íslandi.

Sigríður Björk Jónsdóttir,framkvæmdastýra Vistbyggðarráðs, segir að stofnun ráðsins hafi verið tímabær, enda sé markaðurinn í raun kominn skrefinu lengra í vottun vistvænna bygginga. „Við höfum séð að þróunin á alþjóðavettvangi hefur verið að stefna í þessa átt og er stofnun Vistbyggðarráðs í samræmi við þá þróun. Eins og staðan er nú hafa ýmis fyrirtæki tekið að sér formlega umhverfisvottun bygginga og hafa t.d. þær fjórar byggingar sem eru nú þegar hafa fengið eða eru í formlegu vottunarferli, sótt um vottun til rekstraraðila erlendra vottunarkerfa eins og BREEAM, þótt eftirlit og umsjón með vinnunni fari að mestu fram fram á vegum innlendra eftirlitsaðila. Eitt af stærstu verkefnunum sem framundan eru hjá Vistbyggðarráði er einmitt að taka afstöðu til þeirra fjölmörgu vottunarkerfa sem eru í gangi í heiminum í dag,“ segir Sigríður.

0_street_view_LIGHTÞjóðgarðsmiðstöð Hellissandi. Hönnuð af Arkís arkitektum.

Vistbyggðarráð hefur það á verkefnaskránni að ræða hvort skilgreina ætti sérstakt íslenskt matskerfi og hvert hlutverk VBR væri í því sambandi. „Við erum núna að skoða hvaða lausnir kæmu best út hvort VBR yrði þá formlegur vottunaraðili og hefði þarafleiðandi umsjón með vottunarkerfun, menntun vottunaraðila og fleira slíkt, eða þá hvort okkar hlutverk væri einfaldlega að mæla með einhverju einu kerfi umfram önnur. Við metum það sem svo að það sé ekki æskilegt að hafa of mörg kerfi í gangi í einu, en þá er hætt við að samanburður geti orðið erfiður. Við gerum okkur þó ekki vonir um að við getum alfarið komið í veg fyrir fjölbreytni á markaðnum, enda er markmið okkar að vinna að auknum umhverfisáherslum og vistvænni byggð og eru vottunarkerfi bara leið að því markmiði.“

Sigríður segir að mikilvægt sé fyrir litla þjóð á borð við Ísland að sameinast um framfarir á sviði vistvænna áherslna í byggingariðnaðinum öllum. Því sé nauðsynlegt að nýta þá þekkingu sem til er víða um heim og einnig að aðlaga aðferðir og tækni frá öðrum löndum að þeim aðstæðum sem við búum við hér á landi. „Það hefur þegar verið stofnaður vinnuhópur sem mun taka fyrir þessi vottunarkerfi með íslenskar aðstæður í huga. Við höfum séð að það gilda ekki endilega sömu forsendur fyrir slíkar vottanir hér á landi og annars staðar. Algengur matsþáttur á meginlandi Evrópu er til dæmis samgöngur og sérstaklega nálægð við almenningssamgöngur, en við sjáum að til dæmis að Snæfellsstofa sem staðsett er í Vatnajökulsþjóðgarði stendur ekki vel í þeim þætti, en Snæfellsstofa er fyrsta íslenska byggingin sem frá upphafi var hönnuð út frá BREEAM vottunarkerfinu. Því höfum við verið að horfa til samstarfs við Norðurlöndin, en á þar hafa vistbyggðarráð verið að taka á sig formlega mynd og hafa flest norrænu vistbyggðarráðin verið stofnuð á síðastliðinum tveimur árum. Vistbyggðarráð á Íslandi hefur verið í sambandi við norrænu ráðin þar sem einkum er verið að horfa til samvinnu varðandi rannsóknir og þróun ýmissa vottunarkerfa fyrir byggingar og skipulag. Þetta er iðnaður sem breytist hratt og þurfum við sífellt að vera á tánum til að fylgja þessari hröðu þróun,“ segir Sigríður.

P1070858-breytt-extraVistvæn vottun bygginga tekur á miklum fjölda atriða við smíði og viðhald bygginga,m.a. byggingarefnis, samgagna, orkunotkunar o.fl., en Sigríður segir að reynslan hafi sýnt að það þýði alls ekki endilega aukinn kostnað við bygginguna. „Stofnkostnaður getur vissulega verið meiri í einhverjum tilfellum, en hann þarf þó alls ekki að vera það. Það hefur hins vegar sýnt sig að rekstrarkostnaður umhverfisvottaðra bygginga er lægri þegar til langs tíma er litið og höfum við séð frá fasteignafélögum á Norðurlöndum að leiguverð í slíkum byggingum er í mörgum tilfellum hærra sem setja má í samband við bæði aukin gæði húsnæðis og almennar áherslur á umhverfismál. Það er því talsverð hagræðing sem fylgir þessu og er það mikill hvati fyrir hið opinbera að fara út í umhverfisvottaðar byggingar. Framkvæmdasýsla ríkisins hefur einmitt verið framarlega í þessu ferli og haft forgöngu með að koma þessu á legg. Fasteignafélög eru að sama skapi að átta sig á því að það er jákvætt skref að fara þessa leið, því þá eru þau búin að skapa sér ákveðna sérstöðu á markaði, en umræðan um umhverfismál hefur auðvitað aukist gífurlega á síðustu árum Sigridur Bjork Jonsdottirog eftirspurn eftir umhverfisvænum vörum og þjónustu að aukast að sama skapi,“ segir Sigríður.

Kjarni starfsemi Vistbyggðarráðs fer fram í nokkrum vinnuhópum sem hver og einn fjalla um ákveðið afmarkað málefni. Einum hópnum er til að mynda ætlað að fjalla sérstaklega um og meta áhrif nýrrar byggingarreglugerðar á sjálfbæra þróun og hafa hliðsjón af nýju frumvarpi um mannvirkjalög við endurskoðunina. „Við munum í því samhengi leita svara við spurningum eins og þeirri hvernig byggingarreglugerðin getur tekið á umhverfismálum með það að markmiði að styðja m.a. við vistvæna samgöngumáta og skapa aðstæður til flokkunar sorps, en byggingarreglugerðinni er ætlað að standast samanburð við það sem best gerist hvað varðar sjálfbæra þróun þar sem opin stjórnsýsla, gegnsæi og lýðræðisumbætur eru höfð að leiðarljósi.“ Eitt af markmiðum Vistbyggðarráðs er að stuðla að fræðslu almennings og hagsmunaaðila á Íslandi um vistvænt skipulag og mannvirki. „Fram að þessu hefur umræðan um vistvæna vottun bygginga einskorðast fremur við aðila sem starfa í byggingargeiranum, en áhuginn hefur verið að aukast og höfum við verið að mæta þeim áhuga með fyrirlestrum, opnum fundum og námskeiðahaldi. Þetta eru auðvitað hagsmunir okkar allra og því afar áhugavert verkefni að takast á við.“

Snæfellsstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs að Skriðuklaustri er langt komin í BREEAM vottunarferli. ARKÍS eru arkitektar byggingarinnar.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0