Fyrir sjö árum, árið 2016, samþykkti Borgarráð Reykjavíkur nýtt deiliskipulag fyrir Kirkjusand á Laugarnesi. Nýtt hverfi með 300 íbúðum og fjölbreyttri þjónustu og atvinnustarfsemi. Af þessum 300 íbúðum verður helmingnum ráðstafað af Reykjavíkurborg. Þetta nýja hverfi sem nú er að rísa er á besta stað í borginni, stutt frá miðbænum, og stutt í fjöruna hinum megin við Sæbraut. Þrátt fyrir að hverfið sé bara hálfbyggt, það á enn eftir að rífa gamla frystihúsið sem síðan hýsti höfuðstöðvar Glitnis / Íslandsbanka, þá er strax komin atvinnustarfsemi í hverfið. Búið að opna leikskóla, apótek, víetnamskan veitingastað, tískuvöruverslun og fótaaðgerðarstofu. Heildarkostnaður við að byggja þetta hverfi, á fyrrum lóð Strætó, og Íslandsbanka er ekki undir 30 milljörðum.

Kirkjusandur kemur fyrst fram í Oddgeirsmáldaga frá 1379, þar kemur fram að Jónskirkja í Vík (Reykjavík) eigi allan reka við Kirkjusand, sandströndina frá Fúlalæk (Þar sem Kringlumýrarbraut mætir Sæbraut, en lækurinn var settur í stokk rétt fyrir 1960) að Laugarnesi, þar sem safn Sigurjóns Ólafssonar er. Kirkjusandur var í byrjun síðustu aldar, miðstöð fiskverkunnar í Reykjavík, eftir að Þorsteinn Þorsteinsson kom þar upp fiskverkunarstöð árið 1899. Ári síðar setti Jes Zimsen þar upp fiskverkun, síðan komu margir fleiri með fiskverkunarhús á Kirkjusandi. Árið 1946, flutti Strætó á Kirkjusand og var þar með sína aðstöðu í meira en hálfa öld. Akkúrat á þeim stað þar sem nú nýtt hverfi er að taka á sig mynd í höfuðborginni.

Saltfiskverkun Þorsteins Þorsteinssonar á Kirkjusandi árið 1900

Hér verður þjónusta… og er komin þjónusta í nokkur bil

Margir stílar einkenna hverfið

Höfuðstöðvar Íslandsbanka bíða niðurrifs

Framkvæmdir við Hallgerðargötu á fullu

Nýtt og gamalt, fötluð stæði við fyrrum höfuðstöðvar Íslandsbanka

Hér er verið að byggja byggingu á horni Hallgerðargötu og Borgartúns, þar sem áður var athafnasvæði Strætó

Hluti Hallgerðargötu er fullkláraður

Ljósmyndir & text : Páll Stefánsson
Reykjavík 06/11/2023 – A7C : FE 1.8/20mm G, FE 2.0/28mm