Þjóðvegur 85 hlykkjast um Norður-Þingeyjarsýslu, hér Skinnastaður í Öxarfirði, en kirkjan var byggð 1854

Norður í norðursýslunni

Ef ég ætti að velja eina sýslu, eitt landsvæði sem er fallegast á Íslandi, myndi ég auðvitað velja Norður-Þingeyjarsýslu, á norðausturhorninu. Hún hefur allt, nema mannlíf. Sýslan er stór og strjálbyggð. Frá Tjörnesi, eftir vegi 85, eru um 150km / 90mi, í Bakkafjörð, íbúatalan nær ekki 750 manns. Þarna býr í dag semsagt um 0,2% þjóðarinnar við ysta haf. Hraunhafnartangi á Melrakkasléttu er nyrsti oddi landsins, tangi sem kyssir Norðurheimskautsbauginn, rétt norðan við Raufarhöfn, nyrsta þorp landsins. En það eru óteljandi náttúruperlur í Norður-Þingeyjarsýslu. Þarna er Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum, kraftmesti foss Evrópu. Ásbyrgi einstök náttúruperla, en báðir þessir staðir eru í Vatnajökulsþjóðgarði, stærsta þjóðgarði landsins. Síðan er það Melrakkasléttan, nyrsti hluti landsins, einstaklega sérstakt svæði, eins og Langanes, sem eins og Melrakkasléttan, er að mestu komin í eyði, en í staðin eru þarna hundruð þúsunda fugla sem verpa þarna í miðnætursólinni sem hvergi er fegurri en einmitt þarna. Á veturnar eru það norðurljósin sem lýsa upp himininn, en vegna fámennisins er þarna nær engin ljósmengun. Tekið skal fram að þetta er ekki hlutlaus grein, greinarhöfundur / ljósmyndarinn er fæddur í Öxarfjarðarhreppi í Norður-Þingeyjarsýslu. Samt er þetta allt saman satt og rétt.

Tveir regnbogar norður á Melrakkasléttu í miðnæturbirtu
Súlubyggðin á klettinum Karli, um miðnætti á Langanesi
Dettifoss aflmesti foss Evrópu
Ásbyrgi er einstakur staður á heimsvísu
Vellir í Viðarvík í Þistilfirði
Costa del Valþjófsstaðir norður á Melrakkasléttu

Norður-Þingeyjarsýsla 08/08/2024 : RX1R II,  A7R IV, A7R III – 2.0/35mm Z, FE 1.2/50mm GM, FE 2.8/100m GM, FE 1.8/20mm G, FE 1.8/135mm GM, FE 1.4/24mm GM  – Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0