„Höldum rætur okkar í heiðri hjá Ræktó“

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða hóf starfsemi fyrir tæpum 80 árum og er enn að þó verkefnin séu talsvert af öðrum toga en áður fyrr. Það sem seint mun breytast er samvinnuhugsjónin sem varð hvatinn að stofnun sambandsins, hin ramma taug til heimahaganna og hið kjarnyrta nafn – þó starfsemin hafi gjörbreyst með tímanum.

„Fáum mun þykja fagurt í Flóanum. Það vantar flest er fegurst þykir. Þar eru engin fjöll, engir skógar, engir hálsar nje hnjúkar, engir fosser nje fríðar hlíðar, en móar eru þar og moldarbörð, fen og forarmýrar.“ Þannig komst maður að nafni Sæm. Eyjólfsson að orði í greinarkorninu „Flói og Skeið“ sem birtist í dagblaðinu Ísafold þann 17. nóvember 1894. Umræddur hluti undirlendis á Suðurlandi þótti nefnilega á mörkum þess að vera byggilegur vegna bleytu, ekki síst þegar þiðnaði á vorin. Var sagt að tæplega væri hestfært á milli bæja og gefur auga leið að þaðan af síður var landið vænlegt til ræktunar. Þegar leið á 20. öldina kom að því að duglegt og framtakssamt fólk í Árnessýslunni gerði eitthvað í málunum. Bændur í sjö hreppum – á svæðinu sem í daglegu tali kallast Flóinn og Skeiðin – tóku höndum saman og stofnuðu samvinnufélag utan um þá framkvæmd að vinna að stórfelldri þurrkun lands.

Eitt elsta verktakafyrirtæki landsins

Þann 22. janúar 1946 var Ræktunar-samband Flóa og Skeiða stofnað í Selfossbíói og hefur starfað síðan. Fyrirtækið telst því í dag vera eitt elsta verktakafyrirtæki á landinu, eins og Guðmundur Ármann Böðvarsson, núverandi framkvæmdastjóri bendir á. „Þarna eru bændur og búalið við stjórnvölinn í upphafi, fólk sem var að glíma við erfiðar aðstæður í sinni heimasveit. Enda var þröngt í búi hjá sambandinu framan af en alltaf gekk það þó, líklega af því aðstandendur þess létu það ganga fyrir eigin handafli og dugnaði.“

Þó ekki hafi sambandið verið fjársterkt fyrstu tuttugu árin eða svo hafði það duglegt og úrræðagott fólk innanborðs sem kom auga á tækifæri þegar þau buðust. Þegar upphaflegum markmiðum Ræktunarsambandsins var að mestu leyti náð um miðjan sjöunda áratuginn var því félagið ekki lagt niður; þvert á móti óx verktakastarfseminni stöðugt fiskur um hrygg næstu árin og meðal annarra stórra verkefna má nefna lagningu rafmagnslínu fyrir Landsvirkjun frá Kambabrún að Þjórsá. 1975 fékk svo Ræktunarsambandið stærsta verkefni sitt fram að því, lagningu vatnsveitu um Flóann. Næstu árin óx starfsemin enn með sífellt betri tækjakosti og 1981 fékk Ræktunarsambandið sannkallað risaverk, sem var lögn á hitaveitulögnum frá Selfossi að Eyrarbakkavegamótum.
Stöðugt meiri umsvif Ræktunarsambandsins

Á þeim tíma er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða orðið 35 ára gamalt og þó starfsemin hafi í fáu snúist lengur um að gera land ræktanlegt, og verkefnin farin að ná út fyrir Flóann og Skeiðin, hélt sambandið nafni sínu enda tengt heimamönnum sterkum tilfinningaböndum. „Á 10. áratug síðustu aldar aukast umsvifin enn þegar bordeildin kemur inn í starfsemina, bara með eitt tæki í byrjun,“ útskýrir Guðmundur. Mjór er mikils vísir er máltæki sem þar á vel við því jafnt og þétt jókst þar við verkefnin og tækjakostinn. Næstu árin varð reksturinn sífellt viðameiri og sambandið stækkaði mjög hratt. Efnahagshrunið síðla árs 2008 varð sambandinu aftur á móti býsna erfitt og árin í kjölfarið urðu þung.

„Það er í raun ekki fyrr en árið 2014 sem endurskipulagningu á rekstrinum lýkur þannig að jarðvinnudeildin var seld frá og starfar hún núna undir merkjum Borgarverks. Í staðinn var afráðið að áhersla Ræktunarsambandsins yrði þaðan í frá jarðboranir og þannig hefur það verið síðan,“ útskýrir Guðmundur. Jarðboranir keyptu svo allt hlutafé í Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða fyrripart ársins 2015 en þar sameinaðist mikil þekking á þessu sérsviði.

Guðmundur segir að ekki verði litið hjá þætti Ólafs B. Snorrasonar á þessum miklu umbreytingarárum Ræktunarsambandsins. Hann var framkvæmdastjóri félagsins og aðaleigandi lengst af á fyrsta áratug þessarar aldar og leiddi Ræktó gegnum erfiða tíma áleiðis til farsælla umbreytinga. Ólafur féll svo frá vegna veikinda, langt fyrir aldur, fram árið 2012.

Starfsemin gjöful fyrir viðskiptavinina

Guðmundur bendir á að í gegnum tíðina hafi fólk oft unnið hjá Ræktunarsambandinu áratugum saman og í þeim efnum hafi ekkert breyst, þó flest annað í rekstri þess hafi tekið stakkaskiptum og það oftar en einu sinni. Enn séu starfsmenn á mála hjá sambandinu með 30-35 ára starfsaldur. „Nú til dags erum við í mjög sérhæfðri starfsemi, það er að segja við borholuvinnuna þar sem til þarf færni og kunnáttu sem getur tekið tíma að öðlast til fulls. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að starfsmenn fari ekki með þekkinguna á brott eftir nokkur ár þannig að við reynum að halda hjá okkur góðu starfsfólki eins lengi og við getum.“

Starfsemi Ræktó við boranir hefur líka verið farsæl undanfarin misseri og verkefnin gjöful fyrir viðskiptavini þess. „Í sumar komum við niður á heitt vatn á Ísafirði og gæti það gjörbreytt stöðunni hjá þeim. Þá höfum við nýlega borað 3 holur hér á Selfossi sem allar hafa skilað heitu vatni í vinnanlegu magni sem er verður til þess að uppbygging hér á Selfossi getur haldið áfram.“ Í sumar boraði Ræktó ennfremur þrjár holur á Reykjanesi fyrir Almannavarnir vegna eldumbrotana á Reykjanesi. „Þær holur gera það að verkum að hægt verður að halda bæjarfélögunum þar frostfríum ef Svartsengi dettur út vegna hraunflæðis,“ bætir Guðmundur við. Í síðasta mánuði kláraði Ræktó svo mjög góða holu á Sauðárkróki. „Hún verður vonandi þess valdandi að ekki þarf að skerða þar heitt vatn eins og undanfarin ár.“

Nafnið veitir sérstöðu í dag

Enn þann dag í dag ber sambandið upprunalegt heiti sitt, Ræktun arsamband Flóa og Skeiða, þó starfsvettvangur og verkefnaval hafi breyst rækilega og það oftar en einu sinni. Guðmundur kímir við þegar nafnið er borið undir hann. „Já, rétt áðan var einn starfsmaður að hafa orð á því að hann hefði lent í einhverjum misskilningi með þetta nafn. Það hefur alveg komið til tals hjá núverandi eigendum og stjórnendum að breyta nafninu en núorðið er alltaf talað um Ræktó í daglegu tali og það er orðið mjög þekkt nafn á okkar sérhæfða starfsvettvangi. Þar af leiðandi hefur ekki orðið af því,“ bætir Guðmundur við.

 

Sömu sögu er að segja af myndmerki sambandsins, sem sýnir mann sem beitt hefur uxa fyrir plóg. „Einmitt, það hefur lítið með það að gera sem við erum að fást við í dag“, samsinnir Guðmundur og hlær við. „En við munum okkar rætur og okkar uppruna, og höldum það í heiðri. Það er ekki að há okkur mikið, þetta nafn og lógóið. Ef eitthvað er þá veitir þetta sérstaka nafn okkur ákveðna sérstöðu á markaði því keppinautar okkar heitir bor-þetta og bor-hitt, og fæstir greinar þar á milli eða muna hvað er hvað. En allir muna nafn Ræktunarsambands Flóa og Skeiða og það hjálpar okkur eflaust að vera þekkt undir nafninu Ræktó, alltént á okkar sérhæfða sviði.“

Texti: Jón Agnar Ólason