Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun, er með fróðari mönnum um byggingarsögu Íslands, strauma, stefnur og stórvirki í arkitektúr hérlendis. Þar sem mikið er um framkvæmdir í borgarlandinu um þessar mundir ákvað blaðamaður að setjast með Pétri og ræða skipulagsmál í víðum skilningi, skoða þá vegferð sem Reykjavík og nágrenni er á í þeim efnum og margt annað sem lýtur að hönnun húsa og umhverfis okkar hérlendis.
„Skipulagsmál eru sennilega eitt af flóknustu viðfangsefnum sem mannskepnan glímir við, það er að móta sitt umhverfi,“ segir Pétur þegar við setjumst yfir snarpheitt kaffi á krús í húsakynnum Minjastofnunar sem eru í gullfallegu húsi við Suðurgötu 39, en þar starfar Pétur sem sviðsstjóri Húsverndar-, umhverfis- og skipulagssviðs. Spjall okkar hefst á vangaveltum um hvað það er sem einkennir vel skipulagt íbúðahverfi og hvernig skipulagsmál hafa þróast í sögulegu samhengi. „Ef maður lítur á hvernig borgir hafa orðið til í gegnum söguna þá eru það nú bara oft á tíðum sjónarmið eins og hernaðarsjónarmið sem hafa valdið því. Ef við tökum svo til dæmis staðsetningu borga þá urðu þær gjarna til þar sem til staðar voru brýr yfir ár eða árósar, þar sem hafnir voru og unnt var að innheimta tolla. Það voru oft slíkar ástæður sem lágu til grundvallar þessu. Svo má ekki gleyma því, ef við erum að tala um Evrópu, að þar voru oft varnarsjónarmið sem réðu, og herforingjar sem skipulögðu borgir í upphafi, byggðu virkismúra og voru stöðugt að hugsa um öryggi sitt,“ bætir Pétur við. „Þannig að borgir urðu til innan virkismúra og urðu mjög þéttar, eins konar borgvirki. Saga skipulags er löng og flókin en oft á tíðum er einhverjar meginlínur í þróun samfélagsins sem liggja til grundvallar þessu. Síðan þróast borgir oft stig af stigi, það má eiginlega segja að borgir séu lífrænt fyrirbæri, þetta er eiginlega lífvera. Þetta er svo flókið fyrirbæri að mannshugurinn ræður varla við að taka inn alla þá þætti sem skipta máli.“
Arkitektúr er meira en 2000 ára gömul grein
Pétur heldur áfram. „Persónulega finnst mér auðveldast að hugsa um þetta – bæði húsagerð og skipulag – sem reynsluvísindi, það sem kallast á ensku empirical science. Að minni hyggju þá er það svona rauði þráðurinn í því bæði hvernig skipulag þróast og húsagerð hefur þróast gegnum aldirnar; það er þessi hugsun að menn uppgötva eitthvað nýtt, allt á sér einhverjar rætur. Við getum þar talað um klassísku byggingarlistina í Grikklandi sem á sér rætur í höllinni í Knossos á Krít. Þar byrja menn að þróa það sem við þekkjum sem klassíska byggingarlist. Arkitektúr er svo gömul grein – menn átta sig ekki á því að hún er meira en 2000 ára gömul. Fyrir þessum 2000 árum voru menn að fást við viðfangsefni sem í fagurfræðilegu tilliti eru að mörgu leyti sambærileg við það sem menn eru að fást við í dag, semsé að móta umhverfi mannsins, móta form og rými og leysa ákveðnar tæknilegar lausnir miðað við það. Þetta er svo gömul grein, og í upphafi, og allar götur síðan, fól hún í sér að samþætta list, tækni og félagslega hugsun.“
Eins og Pétur útskýrir var þessi þekking á húsagerðarlist lengi vel á einni hendi en með iðnbyltingunni koma til sögunnar nýjar stéttir; það verður meiri sérhæfing, verkfræðingar taka forystuna í því að þróa nýjar tæknilausnir og arkitektinn verður á tímabili hálfpartinn viðskila við framþróunina. „Í dag er þetta orðið mjög flókið því það eru svo margir sem koma að því að móta umhverfið,“ bætir Pétur við. „Talandi um að móta umhverfið. Kynslóð Guðjóns Samúelssonar, sem mótast í lok nítjándu aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu, á tímabili þegar mannkynið trúði því að það væri búið að ná einskonar fullkomnun – það var komin ný tækni með endalausum möguleikum, frjáls viðskipti og ófriðarbál liðinnar aldar að baki og menn sáu fyrir sér að þeir væru komnir á lygnan sjó með þróun siðmenningarinnar – þessi kynslóð trúði því að það ætti að hanna og skipuleggja borgir eins og heildstæð listaverk. Belle Époque væri komin til að vera og maður finnur þetta bæði í því sem Guðjón Samúelsson skrifar, að það að skapa og móta borg í fagurfræðilegu tilliti með velferð íbúanna í huga – það sé æðsta viðfangsefni byggingarlistar. Ásmundur Sveinsson myndhöggvari talaði líka um að það að móta borg sé hápunktur þrívíðrar listsköpunar – borgin sem samfellt listaverk.“
Róttækar hugmyndir sem hafna því gamla
Þetta reyndust á sinn hátt ákveðin lokaorð því þessi göfuga hugsjón beið vitaskuld skipbrot í fyrri heimsstyrjöldinni og heimsmyndin fallega um meinta fullkomnun mannkyns hrundi með það sama. Í kjölfarið sneru menn baki við ákveðnum hlutum úr fortíðinni og leituðu þess í stað nýrra leiða til að nýta tæknina og framþróun í fjöldaframleiðslu til að búa til eitthvað annað en drápstæki, eins og Pétur útskýrir. „Upp úr þessu sprettur Bauhaus skólinn í Weimar og ýmsar þær hreyfingar þar sem menn vilja gjarnan bara snúa baki við fortíðinni, alfarið, og á þessum tíma koma fram mjög róttækar hugmyndir um borgarskipulag – að hafna gamla tímanum.“
Þessar hugmyndir eru á sinn hátt skiljanlegar, í ljósi hörmunga hildarleiksins sem fyrri heimsstyrjöldin var, en hafa aftur á móti ekki allar elst vel. Pétur nefnir í þessu sambandi einn nafntogaðasta arkitekt 20. aldar, hinn svissnesk-franska Charles-Édouard Jeanneret, sem betur er þekktur undir nafninu Le Corbusier. „Hann setti til að mynda fram hugmyndir á 3. áratugnum um að rífa hluta af miðborg Parísar og reisa þar háhýsi.“
Það er ekki laust við að blaðamaður hvái og Pétur brosir í kampinn. Ekki hugnaðist mönnum þessi róttæka nálgun of vel í þá daga og lái þeim hver sem vill; fæstir myndu vilja skipta á 2. og 3. hverfi Parísar eins og við þekkjum það, og fá í staðinn blokkarþyrpingu á við þá sem Bauhaus-frömuðurinn Walter Gropius teiknaði sem stendur í Berlín og kölluð er Gropiusstadt, einna þekktust fyrir að vera heldur ömurlegt sögusvið bókarinnar Dýragarðsbörnin. En það er önnur og verri saga.
„Hafa verður í huga að hugmyndin er kannski sett fram á sínum tíma sem ákveðin ögrun gagnvart því sem honum þótti gömul og úrelt gildi. Le Corbusier var byltingarsinni á þessum tíma og allt voru þetta jaðarhugmyndir en það tókst að þróa þær. Það voru byggðar mjög skemmtilegar fúnksjónarlískar byggingar á árunum fram að seinni heimsstyrjöld en ekki þannig að það væri verið að rífa heilu borgarhlutana til að koma þeim fyrir. Það var verið að byggja ný hverfi fyrir verkamenn og bæta hýbýli þeirra, og þá kemur þessi fallega hugsjón – að megin viðfangsefni framsækinnar byggingarlistar eigi ekki að vera það að þjóna andlegu og veraldlegu valdi og búa til leiktjöld fyrir þá sem hafa völd og peninga, heldur ætti það að vera að leysa húsakost almennings, og nýta nýja tækni til að allur almenningur verði gert kleift að eignast fallegt og heilsusamlegt húsnæði.“
Furðanlega framsýnir Íslendingar
Þetta er mjög göfug hugsjón, eins og Pétur bendir á, ekki síður en aldamótahugsjónin um borgina sem heildstætt listaverk með kirkjum og skrautbyggingum, breiðgötum og þvíumlíku. „Þar var líka kominn ákveðinn módernismi, má segja, því menn eins og Guðjón Samúelsson arkitekt og Guðmundur Hannesson læknir lögðu áherslu á sólarbirtu og heilsusamleg sjónarmið, gróður, hús ættu ekki að vera of há og annað slíkt.“
Á daginn kemur að Íslendingar voru býsna framsýnir þegar kom að arkitektúr og skipulagi á þessum tíma. „Þegar menn hér á landi byrja að hugsa um skipulag byggðar og þéttbýlis á Íslandi – í kjölfarið á skrifum Guðjóns, og bókar Guðmundar sem kom út 1916 sem er ákaflega merkileg bók enda grunnurinn að fyrstu íslensku skipulagslöggjöfinni – voru samþykkt lög árið 1921 um skipulag bæja og sjávarþorpa,“ bendir Pétur á. „Þetta var mjög framsækin löggjöf, meira að segja í norrænu samhengi. Íslendingar voru þarna á tímabili nokkuð framsæknir í þessum efnum. Skipulagsnefndin var svo skipuð í kjölfarið með þeim Guðjóni og Guðmundi ásamt Geir Zoëga vegamálastjóri, og þetta þríeyki vann alveg ótrúlega merka vinnu á tímabilinu fram undir seinni heimsstyrjöld, og lagði þá í rauninni grunninn að skipulagi Reykjavíkur og annarra helstu bæja.“
Það var og. Það voru semsagt komnar á borðið hugmyndir hér á landi fyrir hundrað árum síðan um heppilegt skipulag og arkitektúr. Hefði ekki mátt ætla að þaðan í frá yrði vinna af því taginu á beinu brautinni? Að því gefnu að hér sé um að ræða „reynsluvísindi“ eins og Pétur talaði um hér að framan? Ekki er það nú svo einfalt. „Ég hef oft haft orð á því við kollega mína og aðra sem hafa með skipulagsmál að gera, að segjum sem svo að við séum að skipuleggja nýtt hverfi í útjaðri Reykjavíkur, til dæmis á Geldinganesi, hvar eigum við þá að leita fyrirmynda? Þá myndi ég segja, bíddu við – það hafa verið byggð hverfi í Reykjavík eins og þar sem var byggt innan Hringbrautar á 3. áratugnum, það er að segja hverfið í kringum Landakotskirkju, Ásvallagatan, í kringum elliheimilið Grund, Hringbrautin og gömlu verkamannabústaðirnir, þar sem sjónarmið fagurfræði og að skapa manneskjulegt og gott umhverfi í tiltölulega þéttri byggð, þó þannig að húsin eru ekki of há og standa jöfn. Þetta er byggðarmynstur sem er mjög heppilegt með tilliti til skjólmyndunar og sólarljóss – af hverju notum við ekki þetta sem grunn til frekari þróunar frekar en að koma með eitthvað alveg nýtt? Af hverju byggjum við ekki á þessum grunni og þróum það áfram miðað við forsendur nútímans? „Í nafni reynsluvísinda?“
Dæmi um vel skipulagt hverfi
Því eins og Pétur nefnir, þá er það að byrja frá grunni mannsheilanum eiginlega ofviða. „Þetta er bara of flókið fyrirbæri til þess! Í þessu sambandi bendi ég á eitt sem mér finnst athyglisvert. Þegar hinn þekkti skipulagsmaður frá Danmörku, Peder Bredsdorff, var kallaður hingað til lands árið 1960 til að vinna nýtt aðalskipulag fyrir Reykjavík, þá sá hann gæðin í þessum hverfum, til dæmis í gömlu verkamannabústöðunum í Vesturbænum sem Gunnlaugur Halldórsson teiknaði, tveggja hæða byggð, samfellt, lágreist. En um háu blokkirnar við Sólheima og Austurbrún sagði hann: það á ekki að byggja fleiri háhýsi í Reykjavík. Það hentar ekki loftslaginu, og er ekki heppilegur byggingarmáti. Horfið frekar aftur til þess sem var gert í Vesturbænum á 3. og 4. áratugnum. Hann beitti sínum áhrifum þannig að í skipulagi Neðra-Breiðholts og í Árbænum var unnið mjög manneskjulegt skipulag af Stefáni Jónssyni arkitekt og Reyni Vilhjálmssyni landslagsarkitekt sem var innblásið af gamla Vesturbænum. Skjólmyndun, garðsvæði, og svo framvegis – þetta vil ég meina að sé fallegt dæmi um hvernig menn þróuðu eitthvað nýtt í takt við sína samtíð út frá því sem reynst hafði vel við íslenskar aðstæður.“
Þétting byggðar hefur villst á sérkennilegar brautir
Pétur bendir í framhaldinu á Fossvoginn sem vel heppnað hverfi hvað skipulag varðar, „Hann var að einhverju leyti hugsaður fyrir tekjuhærri hópa en þar er samt sem áður ákveðin blöndun og þar er þessi hugsun um þétta og lága byggð mjög í hávegum höfð. Hugmyndafræðin þar gekk út á að það væri hægt að fara gangandi um allt hverfið án þess að fara yfir bílagötu, og auk þess eru raðhúsin mörg hver ekki við bílagötu heldur við gangstíg. Það má segja að gangstígakerfið sé aðal umferðarkerfið í hverfinu. Þarna er á ferðinni falleg hugsjón sem mér finnst í seinni tíð hafa fennt yfir.“
Hér erum við Pétur komnir í samtímann og það sem hefur verið að gerast hin seinni ár. Eins og hann bendir á er einn anginn af þessu viðfangsefni – að reyna að skilja og móta borgina – hin margumtalaða „þétting byggðar“ sem er að hans sögn ekki alveg rétt þýðing á enska hugtakinu sem er „Urban Renaissance“ sem merkir að endurvekja hefðbundna borgarmynd að einhverju leyti. „En í upphaflegu hugmyndafræðinni eins og hún er sett fram af breska arkitektinum Richard Rogers, þá talar hann um að taka fyrir ónýtt svæði innan borga – iðnaðarsvæði, járnbrautarteina sem eru hætti að þjóna tilgangi sínum og byggja þar upp borgarhverfi. En þar er alveg skýrt kveðið á um að það eigi að verða til þess að auka gæði borgarinnar, skapa félagslega fjölbreytni og fagurfræðilega mótun og þar talar hann um að byggja randbyggð, með einhvers konar verslunar- og atvinnustarfsemi á götuhæð og húsið sé alls ekki hærra en fjórar hæðir. Hann setur mörkin skýrt við það.“
Pétur bendir á að umrætt hugtak hafi síðan þróast inn á mjög sérkennilegar brautir hér á landi, með kynningum um að byggja eigi sjö, átta og jafnvel níu hæða randbyggingar sem standa alveg úti við götu. Hann minnir á hina merku bók Guðmundar Hannessonar – frá 1916, vel að merkja – og að þetta nákvæmlega það sem hann er að vara þar við; að Íslendingar eigi að varast að byggja eins og menn höfðu gert þar sem voru þá nýjustu hverfin í Kaupmannahöfn, 19. aldar húsin í kringum vötnin, á sjö eða átta hæðum með skrautlegri framhlið en svo eru einhverjir skuggalegir bakgarðar þar sem fátæka fólkið bjó. „Þvert á móti hvatti Guðmundur til þess að byggt yrði lægra, svo allar íbúðir njóti sólar og skjóls. En það sem við erum að sjá bara á allra síðustu árum hér á landi, til dæmis Héðinsreiturinn í Vesturbæ Reykjavíkur og hverfið fyrir ofan Smáralind, eru átta til níu hæða hús við þröngar götur. Maður sér ekki lengur landslagið og fjöllin, í hverfi sem manni virðist drifið áfram af hagnaðarsjónarmiðum og þarna finnst mér bæði upphaflega hugsjónin aldamótamannanna um borgina sem listaverk og eins hugsjónin um að skapa gæðahúsnæði fyrir þá sem minnst eiga, mér finnst þær hafa farið fyrir bí hérna.“
Frekar tekið mark á fasteignasölum
Hluti af vandanum er sá að sögn Péturs að að byggingariðnaðurinn í dag er ekki að framleiða íbúðir til að búa í heldur sem fjárfestingarvöru. Þetta sé alþjóðlegt vandamál í fjömörgum borgum erlendis þar sem heilu háhýsahverfin séu að rísa þar sem ekki sé búið nema í litlum hluta af íbúðunum. „Íbúðirnar eru bara bankahólf – þetta eru fjárfestar sem eru að geyma fé sitt í fasteignum. Þeir sem byggja blokkirnar hafa meira upp úr þessu en að byggja íbúðir fyrir almenning, og pólitíkin hefur að mínu viti ekki áttað sig á þessu. Mannlífið geldur fyrir.“ Pétur bætir við að það sé með ólíkindum sem er að gerast í dag, í nafni stefnu sem kölluð hefur verið „þétting byggðar,“ og að þarna hafi eitthvað farið mikið úrskeiðis. „Þessi þéttingarstefna er í grunninn, eins og allar aðrar, byggð á góðri hugsun, en leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi, eins og þar stendur. Ég bara skil ekki á hvaða vegferð menn eru, að reisa svona skuggaborgir.“
Að mati Péturs má segja að hin húmaníska humyndafræði í skipulagi annars vegar og fagurfræðileg hugsun hins vegar, það hafi allt verið látið víkja fyrir hagnaðardrifnum sjónarmiðum. Frekar sé þarna tekið mark á fasteignasölum en fólki sem er búið að vera mörg ár í háskóla að læra að móta umhverfi. „Ég held að þarna sé á ferðinni skortur á gagnrýnni umræðu. Ég hef oft sagt við skipulagsfólk að það á að vera stöðugt gæðamat þegar byggt er nýtt hverfi, nýr borgarhluti, þá eiga menn að setjast niður og skoða hverjar voru forsendurnar fyrir þessu hverfi, hugmyndafræðin, áherslurnar, hvernig tókst til og hverskonar umhverfi hefur tekist að skapa. Náðust þau markmið sem lagt var upp með eða eru þau að einhverju leyti takmörkuð – hvað getum við lært af þessu hverfi? Og svo lærum við af því fyrir næsta hverfi. Í nafni reynsluvísinda ætti þannig hvert hverfi að verða örlítið betra en hverfið á undan, frekar en að við séum að finna upp hjólið endalaust.“
Fallegt umhverfi hefur áhrif á vellíðan
Að endingu geldur Pétur varhug við erlendum hugmyndum og tískustraumum, og hann ítrekar að þó hann geti tekið undir margt í hugmyndinni um þéttingu byggðar, þá telji hann hana á villigötum eins og hún er í dag. „Það held ég að sé af því að einhvern veginn hafa hagnaðardrifin sjónarmið þeirra sem eru að framleiða byggingarnar algerlega tekið yfir og þeir sem eru að tala fyrir fagurfræði og félagslegum sjónarmiðum hafa bara orðið undir í umræðunni og þar með í mótuninni. „Fallegt umhverfi snýst um lífsgæði, eins og Guðjón Samúelsson sagði forðum í sinni fyrstu grein – að fallegt umhverfi hefur áhrif bæði á andlega og líkamlega vellíðan almennings,“ bendir Pétur á. „Þess vegna skiptir skipulag og byggingarlist svo ótrúlega miklu máli, vegna þess að almenningur hefur lítið um það að segja hvernig umhverfi hans er. Hann verður að treysta kjörnum fulltrúum fyrir því að beita áhrifum sínum og það er alltaf að minnka og minnka að fólk geti haft áhrif á umhverfi sitt, því miður. Það er mikill ábyrgðarhluti að teikna byggingar og móta umhverfi fólks. Hönnunar- og þróunarvinnan er afar mikilvæg og mér finnst hún hafa verið vanrækt hér á landi. Við höfum vanrækt tenginguna við náttúruna, sem er það sem erlendir gestir taka eftir og tala um þegar þeir koma til Reykjavíkur, það er samspil byggðar við náttúruna allt um kring. Að sjá út á sundin blá af og til þegar gengið er niður Laugarveginn, eða sjá glitta í Reykjanesfjallgarðinn þegar staðið er niðri við Reykjavíkurtjörn. Það er tengingin við þetta lífræna sem við eigum að leggja áherslu á og standa vörð um.“
Texti: Jón Agnar Ólason