Heimili er sköpun þeirra sem þar búa

Hönnunarsafn Íslands er lifandi safn sem heldur á lofti íslenskri hönnun með því að safna, varðveita, rannsaka og sýna íslenska hönnun frá upphafi 20. aldar til dagsins í dag. Land & Saga fékk fylgd hjá forstöðumanni safnsins, Sigríði Sigurjónsdóttur, um yfirstandandi fastasýningu safnsins sem nefnist Hönnunarsafnið sem heimili.

„Safnið samanstendur af fimm rýmum,“ útskýrir Sigríður meðan við göngum um húsakynnin á Garðatorgi í Garðabæ. „Það er fyrst aðalsýningarsalurinn þar sem fastasýningin okkar stendur til ársins 2026, svo er rými fyrir hönnuði til að vera í opinni vinnustofudvöl, og við erum líka með sérstakt rými tileinkað rannsóknum á sviði hönnunar. Pallurinn er lítið en skemmtilegt rými við tileinkum nútímahönnun og að lokum er hér rekin falleg safnbúð við innganginn sem sýnir og selur verk um það bil 30 íslenskra hönnuða.“

Sýning sem grunnmynd af íslensku heimili

Á fastasýningunni, Hönnunarsafnið sem heimili, má finna í kringum 200 dæmi um íslenska hönnun en heildarsafneign Hönnunarsafns Íslands telur í allt um 5000 muni frá árinu 1900 til dagsins í dag. „Þegar maður setur upp svona fastasýningu þá er eitt markmiðið að sýna eins mikið og hægt er af safnkostinum,“ bendir Sigríður á. „Sýningin er sett upp sem eins konar grunnmynd af heimili, með svefnherbergi, fataherbergi, eldhúsi, stofa og svo framvegis, og alveg eins og raunveruleg heimili fólks samanstanda af munum frá mismunandi tímum þá má sjá hér muni frá mismunandi tímabilum hlið við hlið.“ Sýningarstjórar fastasýningarinnar eru þau Anna Dröfn Ágústsdóttir, Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir og Sigríður sjálf.
Með því að raða saman húsgögnum, fatnaði, bókum, borðbúnaði og textíl frá ólíkum tímum varpar safnið trúverðugu ljósi á hluta af því sem íslenskir hönnuðir og handverksfólk hefur skapað síðan árið 1900.

„Heimsóknir“ inn í heimilislífið

Inn í hina viðamiklu fastasýningu fléttast svo aukasýningar sem verða reglulega settar inn. „Þar hafa hönnuðir og listamenn tímabundnar „heimsóknir“ inn á sýninguna, og sú fyrsta af þessum heimsóknum er sýningin Skilaboð,“ segir Sigríður. Þar skoða grafísku hönnuðirnir Katla Einarsdóttir og Una María Magnúsdóttir ýmis skilaboð sem heimilisfólk hefur sent sín á milli á samskiptamiðlum og eru margvíslegar spaugilegar hliðar sérstaklega dregnar fram.
„Skilaboðin sem tilheyra þessari sýningarheimsókn eru sýnd á prenti, og lögð á viðeigandi staði inn í föstu sýninguna,“ útskýrir Sigríður. „Til dæmis eru skilaboðin sem hafa með kvöldmat að gera staðsett í borðstofunni á meðan skilaboðin sem tengjast fötum á einhvern hátt eru í fataherberginu og þar fram eftir götunum. Allt ljær þetta birtingarmyndum heimila skondinn og um leið raunsannan blæ því það sem hefur ratað í þessi skilaboð eru oftar en ekki hugleiðingar og meiningar sem við tengjum flest við úr daglega heimilislífinu.“

Lifandi ferli án endapunkts

Þegar fram í sækir mun ný sýningarheimsókn svo fléttast inn í fastasýninguna og setja sinn svip á hana. Sigríður bendir á að sýningin, rétt eins og heimili, sé í lifandi og stöðugt í þróun. „Við erum að færa til, skipta út og breyta og sýningin endurspeglar þannig sköpun raunverulegs heimilis sem er jú lifandi ferli án endapunkts. Heimilið er sköpun þeirra sem þar búa.“

Texti: Jón Agnar Ólason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0