Hafi eldsumbrotin á Reykjanes-skaganum – sem hófust þann 19. mars 2021og ekki sér enn fyrir endann á – kennt okkur eitthvað þá er það að Ísland er land í sífelldri mótun. Landið okkar er staðsett á flekaskilum, sem liggja skáhallt frá suðvestur-horninu til norðausturs og víkkunar-hreyfingarnar sem eiga sér stað undir þessum samskeytum á flekaskilum jarðskorpunnar opnar smám saman leið fyrir kviku, sem skilar sér reglulega upp á yfirborðið með misjafnlega áþreifanlegum hætti.
Síðustu þrjú árin höfum við Íslendingar verið minntir rækilega á þessa návist við náttúruöflin mjög nærri byggð og mannvikrjum, þ.e. á sjálfu Reykjanesinu. Síðan yfirstandandi hrina eldsumbrota þar hófst vorið 2021 með gosi í Geldingardölum við Fagradalsfjall hafa alls níu eldgos átt sér stað á Reykjanesi. Fyrstu eldsumbrotin voru fjarri byggð og þóttu því skemmtileg, og drógu að sér fjölda ferðamanna, heimamenn sem erlenda gesti. Talað var um „túristagos“ og farið með sem hvert annað aðdráttarafl fyrir ferðamenn. En jarðhræringar og eldgos frá desember 2023 hafa aftur á móti orðið nægilega nærri byggð, nánar tiltekið Grindavík, til að meiri háttar röskun hefur orðið þar á búsetu, og er þá ónefnt hörmulegt banaslys sem varð þar við jarðvinnu í kjölfarið. Í fyrsta sinn í 50 ár er byggð á Íslandi í raunverulegri hraunvá.
Ekki forsvaranlegt að byggja á hættusvæðum
En hversu mikið mátti yfirstandandi eldgosatímabil á Reykjanesi koma okkur á óvart? Var engin leið að sjá fyrir að möguleiki væri á óróa af því tagi sem raun ber vitni? Flestum kom atburðarás undanfarinnar missera heldur í opna skjöldu en þó ekki öllum. Allt frá því Vestmannaeyjagosið átti sér stað fyrir rúmlega hálfri öld hefur Trausti Valsson, skipulagsfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands, talað fyrir því að taka þurfi tillit til mögulegrar náttúruvár við heildarskipulag byggðar á Íslandi – því ekki sé forsvaranlegt að byggja á hættusvæðum án varúðarráðstafana.
„Hrollkaldur raunveruleikinn er sá að hér á landi verðum við að fara taka tillit til aðstæðna og hætta að byggja umhugsunarlaust á sprungusvæðum þar sem líkur eru á jarðskjálftum og á gliðnun misgengis og jafnvel hraunrennsli. Jarðskjálftar er tengjast þessu eru ekki stórir, en stórir skjálftar tengjast hins vegar flekahreyfingunum“ segir Trausti í viðtali við Land & Sögu. Þó hann hafi hætt kennslu við HÍ fyrir tæpum áratug er auðheyrt að hann brennur fyrir málefnið og honum er hjartans mál að vekja athygli á aðsteðjandi ógn. „Ég hef bent á staðreyndir þessa máls í áratugi, og þó fólk hafi ekki taki tekið mig nógu alvarlega þá ættu atburðirnir við Grindavík og nálæga innviði að megna það að vekja ráðamenn til vitundar um hver hættan er. Þetta hefur nú þegar gerst, en heildarúttekt þarf að framkvæma, landsúttekt á öllum náttúruvánum tólf“ bætir hann við.
Sem fyrr segir hefur Trausti verið óþreytandi við að benda fólki í opinberum ábyrgðarstöðum á þessa yfirvofandi vá, en oftar en ekki hafa hagsmunir trompað skynsemina, ef svo má að orði komast. „Höfuðborgarsvæðið og flugvöllurinn yst á Reykjanesinu hafa dregið að sér fólk af öllu landinu og Í dag er svo komið að um 80% þjóðarinnar býr á suð-vestur horni Íslands, þar sem hætta vegna náttúruvár hefur nú sýnt sig vera mjög raunverulega,“ bendir Trausti á. Þarna er því jarðváin mjög alvarlegt mál en Trausti hefur bent á að jarðvá skiptist í hraunflóð, gjóskufall, jarðskjálfta og hreyfingar tengdar virkni í sprungum.
Engin leið að útiloka hin kerfin á Reykjanesi
En hvar eru þá helstu hættusvæðin á höfuðborgarsvæðinu? „Það er óhætt að segja að nýtt eldvirknitímabil er hafið á Reykjanesi eftir 780 ára „hvíld“ og ekki er hægt að útiloka að virknin nái á einhverjum tímapunkti til allra eldstöðvakerfanna sex sem á skaganum er að finna,“ útskýrir Trausti. „Nú þegar hafa Fagradalsfjalls- og Svartsengissvæðið minnt á sig svo um munar, en forstigs virkni hefur líka orðið vart í Krýsuvíkurkerfinu og Brennisteinsfjöllum. Við verðum að hafa í huga að úr þessum kerfum kom hraunið sem er að finna í landi Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og endurtekningu á þeim atburðum er engin leið að útiloka, segja jarðfræðingar.“
Fyrir bragðið þurfi að huga að vörnum fyrst Reykjanesið er vaknað, að því er Trausti segir. „Það er einfaldlega ekki hægt að fullyrða um framtíðina, hvorki á annan veginn hér hinn, en það er nauðsynlegt að búa í haginn ef allt fer á versta veg. Það mun til dæmis kosta sitt að verja byggðina á Völlunum syðst í Hafnarfirði, hverfi sem byggt er á nýju hrauni í jarðsögulegu tilliti, en það verður miklu dýrara að fást við afleiðingarnar ef hverfið verður látið óvarið. Það verður ekki komist hjá því að byggja leiðigarða til að verja Vallahverfið, það verkefni blasir við, en erfiðara er að finna leið út úr þessari hvilft fyrir hraunið að renna til sjávar. Hugsanlega mætti leiða það eftir vegstæði Krýsuvíkurvegar. Þetta að fjárfesta í varnaraðgerðum er eins og að tryggja bílinn þinn. Þú fjárfestir í bílatryggingu en vonar eftir sem áður að ekkert komi fyrir. Skakkaföll koma stundum fyrir, en það er sá ótryggði – sá sem hefur ekki búið sig undir áfall – sem hlýtur versta skellinn.“
Trausti bendir á að staðan á höfuðborgarsvæðinu sé um þessar mundir sú að byggingarland sveitarfélaganna sem þar eru teygi sig inn á sprungusvæði og hugsanleg hraunflóðssvæði í auknum mæli. Þarna sé nauðsynlegt að hafa varann á og huga vel að því hvar skal byggja, ásamt því að leggja í áðurnefnda heildarúttekt. „Með því móti væri hægt að fyrirbyggja slys á fólki og minnka tjón af völdum hamfara í framtíðinni.“
Texti: Jón Agnar Ólason