Rétt norðan við Flateyjardal, á Flateyjarskaga, liggur lítil grösug eyja, Flatey á Skjálfanda. Eyjan er sjötta stærsta eyjan við Ísland, og er um tveir kílómetrar á breidd og lengd. Á sunnanverðri eyjunni myndaðist þorp í upphafi tuttugustu aldar, og voru flestir íbúar eyjunnar, rúmlega 120 árið 1942. Tuttugu og fimm árum síðar, árið 1967 var Flatey komin í eyði. Eyja sem hafði verið í byggð síðan í landnámi, og kirkjustaður síðan fyrir 1200. Flatey er einstök fuglaparadís. Þarna er eitt stærsta kríuvarp landsins, og 14 þúsund lundar verpa í eyjunni, auk anda, gæsa, og æðarfugls. Það er ekki bara náttúran sem heillar í Flatey. Að koma þangað er eins og fara hundrað ár aftur í tímann. Byggingar sem byggðar voru á fyrri hluta síðustu aldar, er vel við haldið, nútíminn er á fasta landinu, Íslandi.
Flatey 20/01/2025 : A7R III, A7R IV, RX1R II – FE 1.4/85mm GM, FE 1.2/50mm GM, FE 1.4/24mm GM, FE 1.8/135mm GM, 2.0/35mm Z – Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson