Vestan við suður… götuna

Byggingarreiturinn milli Suðurgötu , Birkimels / Hagatorgs og Hringbrautar er einn sá merkasti í lýðveldinu. Þarna eru hús og stofnanir sem eiga engan sinn líkan. Þarna er Þjóðarbókhlaðan teiknuð af Mannfreð Vilhjálmssyni og opnuð árið 1994. Nýjasta húsið, við hlið Þjóðarbókhlöðunnar á reitnum er Hús Íslenskunnar, Edda, sem hýsir meðal annars Stofnun Árna Magnússonar, en húsið var tekið í notkun vorið 2023. Stærsta húsið er Saga, þar sem nú er verið að endurgera að innan, en þarna verða stúdentaíbúðir og nokkrar kennslustofur menntavísindasviðs. Húsið var byggt af Bændasamtökunum sem hótel og skrifstofur og tekið í notkun árið 1962. Þar var starfrækt stærsta hótel landsins, Hótel Saga til ársins 2021, þegar því var lokað í Covid, og síðan selt til Háskóla Íslands. Háskólabíó er við hlið Sögu, en þegar kvikmyndahúsið opnaði árið 1961, var það stærsta bíó á Norðurlöndum. Kvikmyndasýningar hættu árið 2022, en húsið er í dag notað undir kennslu, ráðstefnur og tónleika. Veröld – hús Vigdísar er austan við Háskólabíó, hús sem opnaði árið 2017, og hýsir kennslu í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, auk Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Elsta húsið á reitnum er Loftskeytastöðin á Melunum, byggt 1915, rétt sunnan við Veröld, en í Loftskeytastöðinni er sýningin, Ljáðu mér vængi, Æfi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur.
Edda, hús íslenskunnar
Saga
Háskólabíó
Gengið framhjá Háskólabíó
Loftskeytastöðin,  Veröld – hús Vigdísar og á milli sést í Sögu
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson
Reykjavík 12/03/2025 : RX1R II : 2.0/35mm Z