„Það er mjög gott hljóð í okkur. Eins og í öðrum landshlutum erum við að sjá töluverða aukningu í fjölda ferðamanna þó hún sé kannski ekki eins mikil hjá okkur og annars staðar. Við höfum heldur ekki endilega sóst eftir því að fá sem flesta þó vöxturinn hafi verið góður. Í afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar erum við að horfa á 20 til 30 prósenta aukningu samanborið við sumarið í fyrra,“ segir Díana Jóhannsdóttir markaðsfulltúi Markaðsstofu Vestfjarða á Ísafirði.
Mjög sveiflukennt innan ársins
Það eru einkum tvenns konar áskoranir sem starfsmenn Markaðsstofu Vestfjarða glíma við. „Ennþá erum við með mjög mikla sveiflu í heimsóknum ferðamanna séu árstíðir bornar saman. Við erum jafnframt minnst heimsótta svæðið af landshlutunum. Það er ósk okkar að auka hlutdeild Vestfjarða í ferðamannastraumnum. Jafnframt viljum við lengja ferðatímabilið innan ársins og auka fjölda ferðamanna í apríl og maí, og svo í september og október.“
Sumarið er að sjálfsögðu helsti ferðamannatíminn á Vestfjörðum. Undanfarin ár hefur mikil og vaxandi gróska verið tengd siglingum skemmtiferðaskipa. „Skemmtiferðaskipin koma nær öll einungis við á Ísafirði. Það er töluverð aukning í komu þeirra þangað. Næsta mál sem við þurfum að skoða verður líklega hvernig við viljum sjá þær skipakomur þróast frekar. Við þurfum líka að fara yfir það hvernig við getum tekið á móti þeim fjölda fólks sem kemur með þessum skipum og boðið upp á þjónustu og afþreyingu.“
Framkvæmdir í burðarliðnum
Díana bendir á að Vestfirðir standi að vissu leyti frammi fyrir því að vera tvískipt svæði, einkum um vetrartímann. „Það er töluverður mismunur milli norður- og suðurhluta landshlutans. Samgöngumálin hafa verið okkur hindrun að því leyti þar sem fjallvegir og vetrarófærð hafa sett strik í reikninginn. Núna bíðum við eftir Dýrafjarðargöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Það verður stóra breytingin fyrir okkur þegar við fáum þannig heilsárs vegasamgöngur milli hinna svokölluðu norður- og suðurfjarða. Þá verður hægt að aka Vestfjarðahring allt árið. Nú er miðað við að Dýrafjarðargöngin verði tilbúin árið 2020. Það eru aðeins um fjögur ár þangað til. Síðan er það vegurinn um Dynjandisheiði sem yrði búið að endurnýja um 2022. Ferðaþjónustan á Vestfjörðum þarf að nota tímann vel til undirbúnings fyrir þá miklu breytingu sem verður í samgöngumálum þegar þessar vegabætur verða komnar.“
Dugleg að nýta net og samfélagsmiðla
Aðspurð um framtíðarverkefni Markaðsstofu Vestfjarða segir Díana að undanfarið hafi mikið verið byggt á vinnu síðustu ára. „Fjármagnið sem við höfum úr að spila er takmarkað. Við höfum komið upp okkar eigin miðlum svo sem með heimasíðu og notkun samfélagsmiðla. Við höfum lagt mjög mikla áherslu á að vera virk í okkar markaðsstarfi með því að nota Facebook og Instagram. Við eigum ýmislegt vandað efni, svo sem ljósmyndir og kvikmyndir. Á dögunum gátum við fagnað því að hafa náð þeim áfanga að hafa fengið 20 þúsund fylgjendur á Instagram,“ segir Díana Jóhannsdóttir markaðsfulltrúi.
Um Markaðsstofu Vestfjarða
Um áramótin 2012/2013 sameinaðist Markaðsstofa Vestfjarða Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Stjórn Fjórðungssambandsins er einnig stjórn Markaðsstofunnar en einnig er starfandi ráðgjafaráð Markaðsstofunnar. Ráðgjafaráð er skipað þremur fulltrúum úr stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða og tveimur fulltrúum skipuðum af stjórn FV.
Ráðgjafaráð Markaðsstofu Vestfjarða skipa:
2015-2016
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Harpa Eiríksdóttir, Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum
Þorsteinn Másson, Ferðamálsamtök Vestfjarða
Einar Kristinn Jónsson, Westfjords Adventures
Jón Páll Hreinsson, Atvest
2013-2014
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Eyþór Jóvinsson, Vestfirzka Verzlunin
Ásgerður Þorleifsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða
Harpa Eiríksdóttir, báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum
Jón Þórðarsson, Eaglefjord