Sagnaskáld frá Reykhólum

Nú ætlum við að fara vestur að Reykhólum í Reykhólasveit. Í því skyni fórum við eftir hringveginum þangað til við komum að vegamótum hjá Dalsmynni í Norðurárdal. Þar beygjum við til vinstri inn á Vestfjarðaveg og fórum eftir honum um Bröttubrekku, Dali, yfir Gilsfjarðarbrú og síðan sem leið liggur fyrir Króksfjörð og Berufjörð. Þar beygjum við aftur til vinstri og fórum suður eftir Reykhólasveitarvegi um hina blómskrýddu Barmahlíð, þar til við komum að höfuðbólinu Reykhólum. Þetta forna stórbýli stendur syðst á skaga þeim sem heitir Reykjanes og liggur milli Berufjarðar að austan og Þorskaftarðar að vestan. Reykhólar voru fyrrum taldir ein mesta hlunnindajörð landsins og var þar löngum búið stórt. Meðal annars fylgja staðnum mörg hundruð eyjar á Breiðafirði með öllum sínum gögnum og gæðum. All mörg þessara hlunninda eru talin upp í gamal kunnri ferskeytlu:

Söl, hrognkelsi, kræklingur,
hvönn, egg, reyr, dúnn, melur,
kál, ber, lundi, kolviður,
kofa, rjúpa, selur.

En nú er þetta breytt og minna hirt um nytjar af landinu en áður var. Þá hefur í seinni tíð vaxið upp á Reykhólum dálítið þéttbýli kringum þörungavinnslu sem par er rekin, sú eina hér á landi. En ástæðan fyrir því að við erum að leita á þessar slóðir er að á Reykhólum fæddist Jón Thoroddsen, sá maður sem ekki aðeins var ágætt ljóðskál, heldur einnig brautryðjandi í ritun skáldsagna hér á landi.gongur-og-rettir-sept-2012-10

Og þar sem við fórum suður eftir Barmahlíð á leið okkar varð ekki hjá því komist að kvæði hans Barmahlíð kæmi upp í hugann, en það hefst á þessu erindi:

Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna,
og blágresið blíða,
og berjalautu væna,
á þér ástar augu
ungur réð ég festa,
blómmóðir besta!reykholar-land-og-sagaga-20130601-31

Jón Thoroddsen fæddist 1818 að Reykhólum við Breiðafjörð, þar sem foreldrar hans bjuggu góðu búi. Tveggja ára gamall fór hann í fóstur hjá vinafólki fjölskyldunnar að Sælingsdalstungu í Dalasýslu og ólst þar upp við mikið ástríki til ellefu ára aldurs. Fór hann þá aftur til foreldra sinna að Reykhólum og dvaldist með þeim fram yfir fermingu. Þá var ákveðið að setja hann til mennta og lærði hann undir skóla, fyrst hjá séra Sigurði Jónssyni á Hrafnseyri, föður Jóns forseta, og síðar hjá Sveinbirni Egilssyni á Eyvindarstöðum á Álftanesi. Eftir það fór hann í Bessastaðaskóla og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1840. Veturinn eftir var hann heimiliskennari hjá séra Hallgrími Thorlacius á Hrafnagili í Eyjafirði. Þar varð hann ástfanginn af Ólöfu dóttur prestsins. Þau trúlofuðust og eignuðust saman dóttur, en meinleg örlög urðu þess valdandi að leiðir þeirra skildu og giftist hún öðrum manni. Hafði sú atburðarás mikil og varanleg áhrif á líf þessa unga manns.

Haustið 1841 sigldi Jón til Kaupmannahafnar og hóf að lesa lögfræði við háskólann. Þar ytra dvaldist hann síðan í níu ár og kom aðeins heim til skammrar dvalar í tvö skipti. Hann rækti nám sitt lítt og varð margt til að tefja fyrir honum, svo sem ástarsorgir, hið glaða stúdentalíf og einnig það að harm hafði meiri áhuga á skáldskap og bókmenntum en á lögfræði. Á þessum árum gaf hann ásamt öðrum út tímaritið Norðurfara þar sem hann birti nokkur kvæði sín og eina smásögu. Árið 1848 fóru Danir í styrjöld út af hertogadæmunum syðst á Jótlandi. Jón lét þá skrá sig í herinn eins og margir aðrir stúdentar. Tók hann síðan þátt í allmörgum stórorrustum og gat sér svo mikið frægðarorð að hann var gerður að liðþjálfa og síðan undirforingja í hernum. Í stríðinu var hann í fjóra mánuði samfleytt, en fékk þá lausn fyrir orð og bænarstað móður sinnar sem gerðist mjög áhyggjufull þegar hún frétti af þessu tiltæki sonarins. Jón orti um lífsreynslu sína í stríðinu og þar á meðal kvæðið Hermannsgangan um það atvik þegar hann hrakinn og örmagna kom að bóndabæ einum og fékk þar góða aðhlynningu og hvíld. Fyrstu erindin eru svohljóðandi:

Oft er hermanns örðug ganga, –
einnig hlaut eg reyna það:
sollnu brjósti, sveittum vanga
síðla, fjarri næturstað,
eftir mæðu ég kom stranga
eitt sinn litlum kotbæ að.

Þreyttan krafta þrýtur alla,
því ei lengra komast má:
líkam stirðan lét ég falla
laukamóður græna á,
og á slétta hellu halla
höfði bæjardyrum hjá.

‑Þar kom út hin íturfríða
árdags sunnu líkust mey;
mitt þó reikult reiki víða
reiðalítið hugarfley,
fjölda sjái’ eg silkihlíða,
samt eg henni gleymi ei.

Eftir að hermennsku lauk sneri Jón til Kaupmannahafhar. Þar lét hann lögfræði mjög eiga sig og fékkst í staðinn við ritstörf. Með nokkrum öðrum skáldum hóf hann þá að safna ljóðum í safnritið Snót sem kom út 1850. Það sama ár kom líka út bók hans, Piltur og stúlka, sem talin hefur verið fyrsta íslenska skáldsagan. Varð sú bók afar vinsæl og hefur verið lesin og dáð til þessa dags. Síðar skrifaði Jón aðra skáldsögu sem nefndist Maður og kona og varð hún einnig víðfræg. Svo fór um síðir að Jón sneri heim án þess að hafa lokið námi. Samt fékk hann embætti og var settur sýslumaður í Barðastrandarsýslu. Þar vestra kynntist hann ágætri konu, Kristínu Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen, og vildi kvænast henni. En faðir hennar neitaði að samþykkja ráðahaginn nema að hann lyki fyrst embættisprófi. Hann brá sér þá til Kaupmannahafnar, tók próf í lögum, kom heim og kvæntist.
Sat hann fyrst í Flatey og síðar í Haga á Barðaströnd. Árið 1861 fékk hann embætti sem sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu og bjó þá á Leirá. Jón orti jafnan mikið og meðal vinsælustu ljóða hans er Vorvísa 1854:

Vorið er komið og grundirnar gróa,
gilin og lækirnir fossa af brún;
syngur í runni, og senn kemur lóa,
svanur á tjarnir og þröstur í tún;
nú tekur hýrna um hólma og sker,
hreiðra sig blikinn og æðurin fer;
hæðirnar brosa og hlíðarnar dala,
hóar þar smali og rekur á ból;
lömbin sér una um blómgaða bala,
börnin sér leika að skeljum á hól.

Þá er ekki síður vel þekkt kvæði hans Ísland sem hefst á þessu erindi:

Ó! fögur er vor fósturjörð
um fríða sumardaga,
er laufin grænu litka börð,
og leikur hjörð í haga;
en dalur lyftir blárri brún
mót blíðum sólar loga,
og glitrar flötur, glóir tún,
og gyllir sunna voga.

Jón Thoroddsen átti oft erfitt í einkalífi sínu og varð fyrir ýmsum áföllum sem ekki verða rakin hér. Stundum hafa því sótt á hann daprar hugrenningar eins og skynja má í kvæði hans Til skýsins sem byrjar á þessu erindi:

Sortnar þú, ský!
suðrinu í
og síga brúnir lætur,
eitthvað að þér eins og að mér
amar, ég sé þú grætur.

reykholar-gongur-og-rettir-sept-2012-2

Jafnframt embættisstörfum, búsýslu og öðrum umsvifum fékkst Jón löngum við skáldskap og útgáfustörf. Ekki komu samt ljóð hans út á bók fyrr en eftir hans dag. Sama var að segja um skáldsöguna Mann og konu sem hann náði ekki fyllilega að ljúka áður en hann féll frá árið 1868, fimmtugur að aldri.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0