
Kattarvali er einn af gömlu jólasveinunum, sonur Grýlu frá fyrra hjónabandi með tröllkarlinum Bola. Lítið fór fyrir Kattarvala frameftir öldum því hann dvaldist langdvölum í Finnmörku ásamt nokkrum bræðrum sínum. Þeir fóru um með ránshendi og óknyttum en það var bara vegna þess að þeir voru alltaf svangir og söknuðu mömmu sinnar. Á ferðum sínum tók hann ástfóstri við finnskættaða skógarketti. Í dag er hann nýkominn heim og er miklu rólegri en áður. Enda fær hann nú mesta útrás í að stíga nokkur dansspor. Hann er mikill dýravinur, er „vegan“ og elskar ketti af öllum stærðum og gerðum. Hann nýtir hvert tækifæri til að grípa þá upp á rófunni, sveifla þeim jafnvel svolítið — og auðvitað knúsa litlu skinnin í kaf.
Kattarvali er 14. jólavættur borgarinnar en aðrar vættir eru: Grýla, Leppalúði, Jólakötturinn, Rauðhöfði, Leiðindaskjóða, Stekkjastaur, Hurðaskellir, Gluggagægir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Stúfur og tvíburarnir Surtla og Sighvatur. Jólavættirnar birtast nú ein af annarri á húsveggjum víðsvegar um borgina þar sem þeim verður hampað. Samfara því fer af stað skemmtilegur fjölskylduleikur sem byggist á að finna vættirnar og svara léttum og skemmtilegum spurningum um þær. Hægt er að nálgast ratleikinn í Ráðhúsi Reykjavíkur, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum en á þessum stöðum er einnig hægt að sjá allar jólavættirnar á einum stað. Þá er hægt að nálgast leikinn á vefnum Jolaborgin.is. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem sigrar í leiknum en hægt er að skila svörum til Höfuðborgarstofu í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrir 19. desember.
Gunnar Karlsson myndlistarmaður á heiðurinn að útliti jólavættanna en þær komu fyrst fram í borginni árið 2011. Þær byggja á hugmynd Hafsteins Júlíussonar um að tengja íslenska sagnahefð við jólaborgina Reykjavík. Bragi Valdimar Skúlason skrifaði textann um vættirnar.
Aðventan einkennist að öðru leyti af fjölbreyttri dagskrá í Reykjavík en hægt er að nálgast nánari upplýsingar um hana á vefnum: Jolaborgin.is.
Aðventan einkennist að öðru leyti af fjölbreyttri dagskrá í Reykjavík en hægt er að nálgast nánari upplýsingar um hana á vefnum: Jolaborgin.is.
Jólaskógurinn í Ráðhúsinu er opinn alla daga á aðventunni en opnunartími um helgar er frá kl. 13-15. Á hverjum sunnudegi kl.14 verður hægt að sjá norsku jólamyndina Sólon og Lúðvík: Jól í Furufirði sem Oslóarborg færði Reykjavíkurborg að gjöf í tilefni af tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu.