Höfuðborgarstofa fyrir hönd Reykjavíkurborgar hefur undirritað samstarfssamning við Orkusöluna um að fyrirtækið verði máttarstólpi og aðalbakhjarl Vetrarhátíðar 2017 sem fer fram 2.-5. febrúar næstkomandi.
Höfuðborgarstofa skipuleggur og framkvæmir Vetrarhátíð sem nú er haldin í 16 sinn og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samstendur af fjórum meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuði og ljósalist ásamt yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni. Norðurljósalitirnir, grænn og fjólublár eru einkennislitir Vetrarhátíðar og verða á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu upplýstar auk þess sem ljóslistaverk verða á nokkrum lykilbyggingum á höfuðborgarsvæðinu; Hallgrímskirkju, Hörpu og Ráðhúsi Reykjavíkur. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ætla jafnframt að lýsa upp lykilbyggingar eins og Bessastaði, Lágafellskirkju, Gróttuvita og Byggðasafn Hafnarfjarðar meðan á hátíðinni stendur. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í þessu samspili ljóss og myrkurs.
Megintilgangur Vetrarhátíðar er að skemmta fólki á höfuðborgarsvæðinu og gefa því tækifæri til að njóta menningar, lista, íþrótta og útiveru í eigin sveitarfélagi og/eða heimsækja nágranna sína í nærliggjandi sveitarfélagi. Allir viðburðir á Safnanótt og Sundlauganótt eru ókeypis auk þess sem frítt er fyrir börn yngri en 16 ára á Snjófögnuðinum í Bláfjöllum.
Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar:
,,Hlutverk Orkusölunnar er að framleiða, kaupa og selja rafmagn og koma þannig heimilum, fyrirtækjum, stofnunum, hárþurrkum, krullujárnum og samlokugrillum um allt land í stuð. Samningurinn gerir okkur kleift að styðja við eina af lykilhátíðum höfuðborgarsvæðisins þar sem ljós og myrkur eru í aðalhlutverki og um leið að efla menningar og listalíf, íþróttir og útiveru á höfuðborgarsvæðinu, þannig virkjum við jafnframt stuðboltanna í borginni.”
Áshildur Bragadóttir forstöðukona Höfuðborgarstofu:
,,Það er afar ánægjulegt að fá svo öflugt fyrirtæki með okkur í lið til að aðstoða okkur við að gera Vetrarhátíð ennþá kraftmeiri en hún hefur verið hingað til. Hátíðin verður afar glæsileg í ár þar sem magnað ljós og myrkur munu yfirtaka höfuðborgarsvæðið frá 2.-5. febrúar. Á þriðja tug bygginga verða upplýstar, 45 söfn taka þátt í Safnanótt og níu sundlaugar í Sundlauganótt. Það verður fjölbreytt dagskrá um allt höfuðborgarsvæðið meðan á hátíðinni stendur þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Mig langar jafnframt að hvetja alla til að taka þátt og njóta stundarinnar.”