Inn í íshelli í Vatnajökli, myndin er tekin á 50mm linsu

Að fanga Ísland

Nú þegar sumarið stendur sem hæst, eru margir á faraldsfæti, ferðast um Ísland. Fjölmargir með myndavél, til að festa á filmu það sem fyrir augu ber. Margir koma langan veg, heillaðir af þessari hrjúfu náttúru, næturbirtunni og fámenninu. En hvernig fangar maður Ísland best; hvaða linsur er best að nota? Það er ekkert eitt svar við þessari spurningu. Best er að byrja á vedur.is, vef Veðurstofu Íslands, til að vita hvernig maður á að vera klæddur, hvar rignir, hvar er hlýtt og bjart. Næstu daga er best fyrir norðaustan, ef maður sækist í sól. Við Breiðafjörðin rignir mikið, sem getur líka verið góð uppskrift af spennandi myndum. En hvaða linsa, hvaða brennivídd fangar best íslenska náttúru? Allar linsur frá 24mm og upp í 100mm, síðan er gott að hafa víðari eða þrengri við höndina, þegar aðstæður krefja, sem er þó sjaldan. Hér koma nokkrir staðir, sem ég held mikið uppá, staðir sem ég margoft heimsótt, og koma alltaf skemmtilega á óvart, því það er birtan sem býr til myndina.

Við Berufjörð, Búlandstindur í fjarska, tekin á 35 mm linsu
Lítið vatn um miðja sumarnótt, við Núpskötlu, norður á Melrakkasléttu, tekin á 100 mm linsu
Hver á rigningardegi í Hrafntinnuskeri, tekin á 28 mm linsu
Rangá úr lofti, tekin á 90 mm linsu
Horft af Skógarströnd yfir Breiðfjörð um miðnætti í júní, tekin á 135 mm linsu
Dettifoss í Jökulsá á Fjöllum um miðjan dag, tekin á 24 mm linsu

Ísland 11/07/2024 : A7RIV, A7C R, RX1R II – 2.0/35mm Z, FE 2.8/90mm G, FE 2.8/100mm GM, FE 1.4/24mm GM, FE 1.2/50mm GM, FE 1.8/135mm GM, FE 1.4/35mm Z
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson