Afró-Sigló

Afró-Sigló

Heitt verður í kolunum á Þjóðlagahátíðinn á Siglufirði dagana 5. – 9. júlí nk. Sérstök áhersla verður lögð á tónlist frá Afríku, bæði með námskeiði og tónleikum. Von er á tónlistarmönnum og dönsurum frá Gíneu sem munu kenna tónlist frá heimalandi sínu og dansa. Einnig verður írsk tónlist kennd á námskeiði og einnig verður boðið upp á handverksnámskeið.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði var fyrst haldin árið 2000. Þar koma fram tónlistarmenn víðs vegar að úr veröldinni. Hátíðin verður að þessu sinni sett miðvikudaginn 5. júlí og þann dag verður leikin tónlist frá Noregi, Finnlandi og Írlandi. Finnska tríóið Hyvä Tríó er skipað þremur ungum tónlistarkonum sem leika frumsamda tónlist byggða á finnskum þjóðlagaarfi. Síðar um kvöldið leikur dúóið Sophie og Fiachra írska tónlist. Lög austfirsku tónskáldanna Jóns Múla og Inga T. Lárussonar hljóma í djassútsetningum á fimmtudeginum, einnig mun Kalmanskórinn syngja og sænska þjóðlagasöngkonana Malin Gunnarsson stígur á stokk. Á föstudagskvöldinu hljómar svellandi tangó og fjölbreytt harmónikutónlist auk þess sem Ragnheiður Gröndal syngur ásamt Guðmundi Péturssyni gítarleikara og enskum þjóðlagatónlistarmönnum.

Hæst rís hátíðin laugardaginn 8. júlí. Þá verður stórsveit dansara og trommara frá Gíneu í Vestur-Afríku með sýningu og tónleika. Einnig hljómar rússnesk sígauntónlist, söngvar frá fjallþjóðum verða sungnir og kvennakórinn Vasele Bebe flytur tónlist frá Balkanskaga. Þjóðlagasveitin Trato frá Síle leikur funheitar suðuramíska tónlist og um kvöldið er uppskeruhátíð og harmónikuball sem enginn lætur fram hjá sér fara. Sinfóníuhljómsveit unga fólksins slær botninn í hátíðina með tónleikum sunnudaginn 9. júlí í Siglufjarðarkirkju.

Listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði er Gunnsteinn Ólafsson. Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu hennar www.siglofestival.com