Dýrin – leyndardómur landnámssins
Í apríl lok opnar ný sýning í hliðarsal á Landnámssýningunni í Aðalstræti. Sýningin fjallar um dýr á landnámsöld og byggir á beinum sem fundist hafa við fornleifauppgröft á Íslandi. Hestar, kindur, geitur, kýr, svín, hænur og kettir koma við sögu á fjölskylduvænni og áhugaverðri sýningu.

©

Íslensk landnámsdýr í lit
Í tilefni af opnun Borgarsögusafns á fjölskyldusýningu um bein landnámsdýra var nemendum Grandaskóla í 5. bekk boðið til samstarfs. Nemendur unnu litrík málverk  og hljóðverk innblásin af viðfangsefninu, rýminu og safninu. Sýningin varpar ljósi á landnámsdýrin eins og þau birtast nemendum sjónrænt og hljóðrænt. Notuð voru bein, skeljar og steinar til að skapa landnámsstemningu. Sýningin er í anddyri safnsins, ókeypis og öllum opin á Barnamenningarhátíð.

Verur himins og hafs
Í tengslum við Barnamenningarhátíð verður hægt skoða sýningu barna úr Landakotsskóla sem nefnist Himinn og haf á Sjóminjasafninu í Reykjavík dagana 25.-30. apríl. Sýningin er afrakstur skapandi flugdrekagerðar sem nemendurnir unnu undir stjórn Arite Fricke í samstarfi við safnfræðslu Borgarsögusafns. Nemendur Landakotsskóla veltu fyrir sér verum sem búa í og í kringum sjó með sköpun og leikgleði að leiðarljósi. Hugmyndarvinnan fór fram bæði á vettvangi og í skólanum þar sem nemendur fengu innsýn í líf dýra og manna við sjó annars vegar og þróunarsögu og hönnun flugdreka hins vegar. Sýningin var unnin undir handleiðslu hönnuðarins Aritu Fricke og kennara Landakotsskóla.

Vísindasmiðja
Laugardaginn 29. apríl verður Vísindasmiðja Háskóla Íslands með skemmtilega og lærdómsríka vísindasmiðju fyrir alla fjölskylduna á Sjóminjasafninu í Reykjavík. Í smiðjunni verður boðið upp á tilraunir, þrautir, leiki og óvæntar uppgötvanir fyrir fólk á öllum aldri. Gestir geta meðal annars kynnst undraverðum eiginleikum ljóss, lita, hljóðs og rafmagns, búið til hljóðfæri og einfalt vasaljós, teiknað listaverk með rólu og leikið á syngjandi skál. Kannaðar verða stjörnur, sólir og tungl og gestum boðið að spreyta sig á forritun og stýringu einfaldra þjarka. Smiðjan er opin öllum og stendur yfir frá kl. 13-16.

Flugdrekasmiðja og útileikir
Sunnudaginn 30. apríl verður boðið upp á flugdrekasmiðju á Árbæjarsafni milli kl. 13-16. Allt hráefni og kennsla verður á staðnum og vonandi blæs nógu mikið til að krakkar geti hlaupið um túnin með flugdrekann sinn. Athugið að skráningar er krafist. Áhugasamir sendið póst á [email protected]. Á útvæðinu geta krakkar farið í fjöruga útileiki undir stjórn hressra starfsmanna frá frístundaheimilum borgarinnar milli kl. 13-16. Foreldrum er velkomið að slást í hópinn og rifja upp gamla takta frá eigin barnæsku. Það er fátt meira hressandi en að leika sér úti í ferska loftinu.

Allir fullorðnir í fylgd með börnum frá ókeypis inn á safnið á meðan Barnahátíð stendur.