Blönduð byggð og betri almenningssamgöngur

Óhætt er að segja að Reykjavíkurborg hafi tekið talsverðum breytingum síðustu 15 ár eða svo. Ný hverfi verða til um leið og miðborgin hefur á margan hátt tekið stakkaskiptum. Land & Saga settist niður með Ólöfu Örvarsdóttur, sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, til að fara yfir verkefnin, ávinninginn fyrir íbúana og – síðast en ekki síst – hvað er framundan í náinni framtíð.

Á könnu Umhverfis- og skipulagssviðs er svo að segja allt sem viðkemur hinu manngerða umhverfi borgarinnar. Þar með talið eru skipulag, byggingar, samgöngur, loftslags- og umhverfismál, sorphirðan, Grasagarðurinn, Vinnuskólann og allar framkvæmdir og viðhald, svo fátt eitt sé nefnt. Verkefnin eru því ærin og margvísleg.

Byggjum inn á við – ekki út á við

„Meðal helstu áskorana okkar um þessar mundir er að auka framboð íbúðarhúsnæðis, það er að líkindum viðamesta verkefnið í dag. Í raun er mikilvægt að halda því til haga að við erum með mjög mikið af tilbúnu deiliskipulagi sem hægt er að fara byggja eftir. Á móti þurfa svo auðvitað lánakjör og annað að vera hagstæð,“ bendir Ólöf á. „Svo er það stefna Reykjavíkurborgar er að byggja inn á við en ekki út á við því það eru vaxtarmörk á höfuðborgarsvæðinu, rétt eins og hjá hinum sveitarfélögunum en það er leið til að nýta innviði betur og gera borgina sjálfbærari.

Að efla hágæða almenningssamgöngur

Ástæðan fyrir þessum mörkum í svæðisskipulagi frá árinu 2015 er að sögn Ólafar fyrst og fremst að aðallega er möguleiki á því að búa á einum stað í borginni en vinna annars staðar. Þá eykst þörf fyrir frekari samgönguinnviði og göturnar þola varla meiri umferð eins og flestum ætti að vera ljóst. „Svo eru borgir almennt sjálfbærari ef blöndun íbúða og atvinnutækifæra er til staðar. Til þess að mæta þörf fyrir samgönguúrbætur og ekki síst vegna loftslagsmála hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gert samgöngusáttmála við ríkið þar sem ákveðið var að efla hágæða almenningssamgöngur. Þetta hangir allt saman, að geta unnið nálægt heimilinu sínu, búið nálægt vinnustaðnum, sótt þjónustu í göngufjarlægð og að til staðar séu hágæða almenningssamgöngur svo ekki sé talað um þétt net hjólastíga. Þetta bætir heilsu og almenn lífsgæði borgarbúa. Gleymum því ekki að það er dýrt að eiga bíl og þann kostnað ætti með réttu að reikna með inn í búsetukostnað. Við þurfum að tryggja fjölbreytta framtíð húsnæðis sem er samt í samræmi við okkar umhverfisáherslur í gegnum skipulagsgerð, í samvinnu við hagaðila og byggingarbransann. Það er ákveðin áskorun.“

Samgönguás frá úthverfum til miðborgar

Hér erum við Ólöf komin inn á það brýna viðfangsefni sem ítrekað hefur ratað í fréttir undanfarin ár og í daglegu tali kallast þétting byggðar.
„Já, hugtakið yfir þetta er líka svokölluð Samgöngumiðuð borgarþróun (e. Transport-Oriented Development) og birtingarmynd þess er öllum sýnileg sem þessi samgönguás sem nær núna frá miðborginni alla leið upp á Keldur, sem er næsta stóra úthverfið í Reykjavík,“ útskýrir Ólöf. Um þennan ás mun aka Borgarlínan.

„Ef við rekjum þennan ás frá austri til vesturs þá mun hann verða frá Keldnaholti þar sem rísa mun fjölbreytt og vistvænt hverfi. Við tekur Ártúnshöfðinn þar sem við erum að byggja nýtt innan um gamalt til að þétta og blanda byggð. Það er verkefni sem komið er vel af stað og mun breytast í nýtt hverfi þó í bland við það sem þar er fyrir en þar munu rísa íbúðir, skólar, menningarhús, skemmtileg útirými og torg og allskonar fleira,“ segir Ólöf. „Þetta hverfi verður tengt með brú inn í nýja hverfið í Vogabyggðinni þar sem mikil uppbygging hefur verið í gangi og þar er einmitt ný afstaðin hönnunarsamkeppni um skóla og grunnskóla þar sem skólabyggingin brúar hverfin tvö. Svo er áformað að setja Sæbraut í stokk og þá er hægt að tengja hverfin á yfirborði betur við okkar gamla og góða Vogahverfi.“

Þá erum við komin niður á Suðurlandsbraut, þar sem Mörkin er, og í Skeifunni er töluverð uppbygging í gangi og nú þegar er risið stórt íbúðarhús að Grensásvegi 1.
Við höldum áfram sýndarferðalaginu undir leiðsögn Ólafar og komum að Orkureitnum svokallaða þar sem Orkuhúsið var. Þar er mikil uppbygging yfirstandandi og meira til í Álfheimunum þar sem til stendur að byggja upp íbúðir á bensínstöðvarlóð.

„Ef við förum aðeins lengra í vestur erum við með Ármúla, Vegmúla og Hallarmúla,“ bætir Ólöf við. „Þar erum við að gera þróunaráætlun þar sem við ætlum að hækka húsin lítillega til að bæta við íbúðum á efri hæðum til að breyta reitnum í meiri blöndu af atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Fyrir aftan Nordica-hótelið er svo deiliskipulag í vinnslu þar sem geta bæst við íbúðir. Þá er nýtt fjögurra stjörnu Hyatt-hótel í byggingu þar sem gamla Sjónvarpshúsið er og þar skammt undan er Heklureitur með fleiri hundruð íbúðum og svo erum við komin niður á Hlemm. Þar er verið að taka allt í gegn með fallegu útisvæði og göngugötum.“

Þá liggur leiðin niður Hverfisgötuna þar sem mikil þétting byggðar hefur þegar átt sér stað með nýjum húsum og íbúðablokkum og að endingu ber okkur niður á Hafnartorgi og við Austurhöfn þar sem fjölmargar íbúðir hafa verið byggðar. „Að þessu samanlögðu erum við þarna með þéttingarás meðfram almenningssamgöngum. Framangreint liggur allt meðfram Borgarlínunni,“ segir Ólöf. Fjöldi íbúða er meiri en í hefðbundnu skólahverfi, að hennar sögn.

Hófleg hæð á húsunum

Það er gömul saga og ný að á meðan byggingarfélög vilja gjarna hámarka hagnað með því að byggja upp á sem flestum hæðum – til að koma eins mörgum íbúðum fyrir á lóðarreit eins og mögulegt er – þá er almennt talið mannvænna að byggja ekki of hátt upp svo sólar megi njóta og útsýni sem ekki of skert. Affarasælast fyrir alla hlutaðeigandi telst því væntanlega að fara bil beggja, en hvernig verður þessu háttað í framangreindum verkefnum, þar sem verið er að þétta byggðina og byggja nýtt?
„Það er ekki verið að byggja tiltakanlega hátt í neinu af þessum verkefnum sem ég nefndi hér að framan. Við Hlíðarenda er verið við að fara upp í fimm hæðir. Kannski sex í einhverjum tilvikum. Á Heklureitnum erum við að fara upp í sex til átta hæðir, og þá inndregið. Það er það með því hæsta sem við erum að gera. Almennt er verið að vinna með þrjár hæðir upp í fjórar til fimm. Á völdum stöðum upp í sex, sjö og aðeins hærra í kringum áformaðar borgarlínustöðvar.“

Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur.
Borgarhönnunarstefna á borðinu

Ólöf bætir því við að gerð sé krafa um birtu í görðum samkvæmt útreikningum sem settir hafa verið inn í aðalskipulag Reykjavíkur „til að hafa eitthvað í höndunum þegar við erum að tala við uppbyggingaraðila. Hvað varðar birtu í íbúðum langar okkur oft að ganga lengra en byggingareglugerð segir til um – sem er mest lítið. Reyndar vildi ég óska að byggingareglugerð væri aðeins strangari þar,“ bætir hún við og kímir. „Dagsbirta og sól er svo dýrmæt á okkar breiddargráðu.“
Að sögn Ólafar er núna í vinnslu, og komin nokkuð langt, svokölluð Borgarhönnunarstefna. „Þar erum við að tryggja, í þessari hröðu uppbyggingu sem hefur átt sér stað, að það séu jafnvel forgarðar fyrir framan nýbyggingar og nóg af grænu á hverjum einasta stað. Ef það eru byggðir bílakjallarar þá sé krafist jarðvegsþykktar þar ofan á svo gróður geti vaxið og dafnað. Þegar upp er staðið snýst mótun borgar líka um blómin og býflugurnar. Þegar byggt er nýtt innan um gamalt er byggt á hagkvæmari hátt fyrir sveitarfélög og umhverfið því innviðir eru þegar til staðar, eins og göturnar, lagnirnar, skólarnir – þó líklega þurfi að stundum að byggja við – þannig að fótspor uppbyggingar í nýju úthverfi er svo miklu stærra að öllu leyti, bæði hvað varðar umhverfið og notkun fjármuna.“

Umferðarþunginn minnkar tæpast úr þessu

Allir sem nota bíl í Reykjavík og nágrenni þekkja þann umferðarþunga sem er allsráðandi að morgni dags, þegar fólk ekur til skóla og vinnu, og svo aftur síðdegis þegar haldið skal heim aftur. Með hliðsjón af þeirri samgöngubót sem Borgarlínunni er ætlað að vera, hvaða breytingum mega íbúar Stór-Reykjavíkursvæðisins búast við þegar hún er komin í gagnið? Er raunhæft að ætla að bílum fækki á götunum?
„Nei, við munum ekki sjá færri bíla,“ segir Ólöf. „Ég held að það sé óraunhæft að ætla það. En hinsvegar verðum við með Borgarlínunni komin með valkost. Okkur er stöðugt að fjölga og fólk hættir tæplega að keyra. En við erum vonandi að draga úr fjölgun bíla á götunum og koma í veg fyrir þennan vöxt sem hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum. Bílum má ekki fjölga í samræmi við fólksfjölgun því það er hreinlega ekki pláss fyrir þann vöxt og áhrif á umhverfi og lýðheilsu yrðu slæm. Borgarlínan, sem mun koma á sjö mínútna fresti og fara óhindrað um, verður skilvirkur valkostur fyrir fólk að komast á milli staða og svo hafa samgönguhjólreiðar aukist gríðarlega á undanförnum árum. Þessar breytingar ásamt vel útfærðri þéttingu byggðar eru lykillinn að góðri borgarþróun til framtíðar – sem er besta leiðin til að bregðast við núverandi ástandi að mínu mati“.

Texti: Jón Agnar Ólason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0