Grundvöllur hvers borgarskipulags er kerfi stofnbrauta – hvar helstu leiðir skuli liggja milli borgarhluta. Ef við líkjum borginni við mannslíkamann mætti hugsa sér göturnar sem blóðrásarkerfið og stofnbrautirnar þá sem slagæðar.
Aldrei var hafist handa við lagningu ýmissa stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu sem þó voru taldar nauðsynlegar fyrr á árum. Dæmi um þetta er hraðbraut um Fossvogsdal, sem átti að tengjast Sóleyjargötu og Hlíðarfæti suður fyrir Öskjuhlíð í vestri og suður fyrir Elliðaár í austri og inn á Suðurlandsveg. Þessi vegur var nefndur Fossvogsbraut og var hugsaður sem meginstofnbraut milli austurs og vesturs líkt og Miklabrautin nokkru norðar.
Öryggisatriði að bæta tengingar
Þar sem aldrei var lokið við Fossvogsbrautina, tengjast Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur í einni „trekt“ um Ártúnsbrekku og lítið þarf útaf að bregða í gatnakerfinu til að hún stíflist. Eðlilega bitnar þetta á öryggi landsmanna, en fara þarf með sjúklinga um þessa leið þegar þeim er ekið með sjúkrabílum til borgarinnar utan af landi.
Vegtenging suður fyrir Öskjuhlíð var talin ófrávíkjanleg forsenda þess að hægt yrði að ráðast í uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. Sú tenging heitir nú Öskjuhlíðargöng, en alls óljóst er hvar gangamunnar þeirra eiga að vera. Þó liggur fyrir að um er að ræða gríðarlega kostnaðarsama framkvæmd, en henni munu fylgja mjög flókin gatnamót á hæðum, sér í lagi í botni Nauthólsvíkur.
Byggðin í Reykjavík hefur líka dreifst mikið undanfarna áratugi og því fylgir stóraukinn kostnaður í umferðarmannvirkjum, almenningssamgöngum, rekstri bifreiða, töfum og svo mætti lengi telja. Á umliðnum árum hefur aftur á móti orðið vakning um mikilvægi þess að byggja meira miðsvæðis eða „þétta byggðina“ eins og það er oft kallað og styrkja um leið í sessi mikilvæga starfsemi miðsvæðis, eins og Landspítalann, háskólana, stjórnsýsluna og margs konar verslun og þjónustu. Gríðarleg fjárfesting liggur í mannvirkjum undir þessa starfsemi miðsvæðis í Reykjavík, en vegna sífellt aukinna umferðartafa og bílastæðaskorts færist verslun og þjónusta nú hratt austar í borgina og suður í nágrannasveitarfélög Reykjavíkur.
Miklar grynningar
Þegar horft er á kort af höfuðborgarsvæðinu sést að landamæri sveitarfélaganna liggja að meginstefnu til frá austri til vesturs. Þau hafa því verið skipulögð í austurátt hvert um sig, en færa má fyrir því rök að réttara hefði verið að hugsa skipulagið frá norðri til suðurs. Ef við fjarlægjum öll landamærin af kortinu blasir við okkur að Skerjafjörður er miðpunktur þessa svæðis. Þar er mikið ónýtt byggingarland en vegtengingar skortir.
Sunnan við Skerjafjörð liggur stórt óbyggt nes, Álftanes. Þar allt á kring eru miklar grynningar og ljóst að nesið hefur verið mun stærra við landnám. Á þeim tíma hefur Skerjafjörður verið mun þrengri en nú er og úti á firðinum var eyja þar sem nú eru Löngusker. Inn eftir firðinum gengur djúpur áll, sem er innsiglingin í Kópavogshöfn, en áætlanir gera ráð fyrir að hafskip muni á næstu árum alfarið hætta siglingum í Kópavogshöfn, sem eftirleiðis verði eingöngu svokölluð yndishöfn. Með brú yfir Álftanes gæti byggð á nesinu orðið í næsta nágrenni við helstu atvinnusvæðin í Reykjavík og þá yrðu stóru íbúðahverfin í Garðabæ og Hafnarfirði tengd enn betur við Reykjavík, en aðrar tengingar, eins og Hafnarfjarðarvegurinn, eru fyrir löngu sprungnar á álagstímum.
Kostur á fjölmennri byggð miðsvæðis
Hægt væri að hugsa sér brú á tveimur stöðum yfir Skerjafjörð, annars vegar frá Nauthólsvík yfir á Kársnes sem nokkuð hefur verið til umræðu, eða þá í framhaldi af Suðurgötu og stystu leið yfir á Álftanes. Þaðan kæmi vegur í sveig yfir á nýja Álftnesveginn og því í álitlegri fjarlægð frá þorpinu á Álftanesi og færi heldur ekki of nærri Bessastöðum.
Brúin yrði að langmestu leyti á uppfyllingum nema hvað syðsti hlutinn, þar sem dýpið er mest, yrði lágreist brúarmannvirki. Hún yrði ekki ósvipuð ýmsum brúm hér við land til að mynda Gilsfjarðarbrú, nema hvað hún yrði um helmingi styttri.
Með brú yfir Skerjafjörð yrði stór hluti umferðar tekinn út fyrir byggð, en mikil mengun og ónæði hlýst af umferðarþunga í Hlíðunum sem dæmi. Garðbæingar og Hafnfirðingar yrðu mun skemur á leiðinni til Reykjavíkur, en brautin lendir í næsta nágrenni við stærstu vinnustaði landsins, Háskólana tvo, Landspítalann, stjórnsýsluna, flugvöllinn, auk margs konar verslunar og þjónustu. Þar með mætti styrkja þá miklu fjárfestingu sem liggur í mannvirkjum á þessu svæði og vinna gegn þeirri þróun að þjónusta dreifist meira um höfuðborgarsvæðið, með þeim afleiðingum að reisa þarf sífellt nýjar vegtengingar, vegalengdir lengjast, þar með mengun og rekstur almenningssamgangna verður ómögulegur.
Álftanes er að stærstum hluta óbyggt land, en óvíða á suðvestanverðu landinu er meiri veðursæld. Með sameiningu Garðabæjar og Sveitarfélagsins Álftaness varð byggðakjarninn á Álftanesi að Vesturbæ Garðabæjar. En hann gæti líka orðið svo gott sem Vesturbær Reykjavíkur eða öllu heldur Suðurbær Reykjavíkur með brú yfir Skerjafjörð. Þar gæti risið eitt fjölmennasta íbúðahverfi höfuðborgarsvæðins í næsta nágrenni við miðbæ Reykjavíkur.
-Björn Jón Bragason