Hrafntinnusker

Búrfellsvirkjun: framkvæmd sem breytti Íslandssögunni

Kerlingafjöll

Birgir Jónsson jarðverkfræðingur vann í áratugi á Orkustofnun við virkjanarannsóknir á
hálendinu og býr yfir mikilli þekkingu á landinu og verklegum framkvæmdum. Hann
settist niður með blaðamanni Lands & Sögu til að spjalla um virkjanir á Íslandi og við
hófum leikinn á fyrstu stórvirkjuninni á eftir Sogsvirkjunum, sem sannarlega markaði skil
í sögu þjóðar.
„Að undangengnum athugunum í nokkur ár í aðdragandanum að næstu virkjun var ljóst
að það voru tvær mismunandi leiðir færar í raforkumálum Íslands þegar það kom að því
að byggja næstu virkjun,“ segir Birgir varðandi undirbúning Landsvirkjunar. „Annað hvort
að byggja stóra virkjun og selja megnið af orkunni í álver, eða byggja langtum minni
virkjun, sem væri kannski bara 10-15% af stærð Búrfellsvirkjunar, og þá hefði orkan
bæst á íslenska kerfið og farið inn á óbreyttan innanlandsmarkað.“
Fyrrnefnda leiðin var farin því stórkaupandi fannst að orkunni, sem var álverið í
Straumsvík, og framkvæmdin var eftir því umfangsmikil. Að jafnaði unnu um 850 manns
við gerð Búrfellsvirkjunar en þegar mest var, sumarið 1968, voru þar um 1200 manns
við vinnu.

Birgir Jónsson jarðverkfræðingur

Ýmsar áskoranir við framkvæmdina
Búrfellsvirkjun var á margan hátt frumherjaverkefni og var Landsvirkjun formlega
stofnuð þann 1. júlí árið 1965, öðrum þræði til að halda utan um Búrfellsverkefnið og
auk þess reksturinn á flestum stærstu virkjunum landsins í framhaldinu. Það er því ekki
laust við að ýmsar áskoranir hafi blasað við þegar ráðist var í þessa viðamiklu
framkvæmd.
„Til að byrja með var talsvert deilt um hvort yfirleitt ætti að hleypa erlendum auðhringjum
inn í landið,“ útskýrir Birgir. Margir sem voru fylgjandi auknu vatnsafli, þá voru þeir bara
alls ekki fylgjandi því að selja rafmagnið í hendur erlendra kapítalista,“ bætir hann við.
„Annars var stóra vandamálið ísinn, og ísamyndunin í ánni,“ segir Birgir. Ein helsta
sérstaða Búrfellsvirkjunar er nefnilega sú, að það er svo til engin vatnsuppistaða í
breiðum og grunnum farvegi Þjórsár.
„Virkjunin er byggð þannig að það er aðeins lág veitustífla í grunnum og breiðum farvegi
Þjórsár er engin uppistöðustífla, – yfirleitt eru lítil vandamál með ís ef það er
uppistöðustífla til staðar því þá er alltaf hægt að taka vatnið á einhverju dýpi undan
ísnum.
Í þessu sambandi er eitt sem mér finnst ekki hafa verið sagt nógu mikið frá,“ segir Birgir

„Það var þarna ísavakt, allan sólarhringinn á veturna, og það var byggður í þeim tilgangi
sérstakur ísgæsluturn við virkjunina sem stendur ennþá. Þar sátu menn og fylgdust með
því hvernig ástand var í ánni hverju sinni. Því ef ísinn nær að hlaðast upp og stífla
rennslið þá fær virkjunin ekki vatn og þá stoppar allt.
Þetta var orðið þannig að þeir vönustu – reyndustu ísverðirnir á vaktinni – þegar þeir
sáu að hætta steðjaði að og hálfgerð klakaleðjuskriða fór af stað ofar í ánni ofan við
virkjunina, þá voru þeir tilbúnir og opnuðu fyrir allar gáttir í veitustíflunni og þá ruddist
ísskriðan í gegn og niður í Þjórsárfarveginn.
Svo voru lokurnar settar upp aftur en virkjunin sjálf verður ekki vör við neitt af þessu, þó
að rétt áður hafi verið mikil hætta á ferðum á því að allt vatnsrennsli hefði stíflast. En
inntakslónið, Bjarnalón, hafði alveg nóg vatn til þess að virkjunin gengi bara áfram
meðan á þessu stóð. Þeir voru orðnir algerir sérfræðingar í því að meta þessar
aðstæður, ísverðirnir.

Birgir Jónsson jarðverkfræðingur

Samgöngubætur vegna virkjunarinnar
Árið 1965 var Búrfell talsvert frá því að teljast í alfaraleið – eiginlega í afskekktum afdal,
Þjórsárdal og samgöngur upp eftir að framkvæmdasvæðinu á engan hátt sambærilegar
við það sem nú er. Að auki var kalt og snjóþungt um vetur á svæðinu og aðstæður oft
býsna krefjandi.
„Það var endurnýjaður þjóðvegurinn upp í gegnum Gnúpverjahreppinn,“ bendir Birgir á
þegar þessi mál berast í tal. „Þetta var venjulegur innansveitarvegur og það þótti
eiginleg óbyggðaferð að fara inn í Þjórsárdal, og upp að Háafossi var ekkert minna en
fjallaferð,“
„En þetta varð svo bara bundið slitlag upp að virkjun eftir örfá ár enda ekki hjá því
komist sé mið tekið af umferðarþunganum og hinum stóru vinnuvélum sem þurfti að
koma þangað. Núorðið er bundið slitlag alla leið upp að Þórisvatni. Samgöngurnar eru
því gjörbreyttar frá því sem þá var.
Þessu til viðbótar nefnir Birgir til sögunnar Fossá, – hún gat verið með öllu ófær þegar
sá var á henni hamurinn. „Þú þurftir að fara yfir Fossá til að komast að
stöðvarhússtæðinu.
Fossáin rennur niður eftir austurjaðri Þjórsárdalsins. Menn sögðu ýmsar hrakningasögur
af því að ef það komu upp aðstæður eins og ofboðsleg úrkoma og hláka um leið, þá
varð Fossáin algerlega að stórfljóti. Menn voru alltaf með stóran trukk á staðnum til að
ferja menn og búnað yfir ána ef á þurfti að halda vegna aðstæðna í ánni, og björguðu
sér þannig.“ Brú var byggð yfir Fossá áður en byggingarframkvæmdir hófust við Búrfell.

Hrafntinnusker

Jarðfræðin: ungt hraun sem mígleka
Birgir er jarðverkfræðingur að mennt og því óhjákvæmilegt að forvitnast um hvernig
Þjórsár/Tungnaár-svæðið horfði við þegar framkvæmdir hófust frá jarðsögulegu tilliti.
Fyrir utan ísvandamálið á veturna þá eru stíflurnar byggðar á ungum hraunum, sem eru
ekki nema nokkur þúsund ára gömul, og slíkt undirlag er mjög lekt. Þarna rétt til hliðar
eru svo upptök Ytri Rangár, þar er eitt mesta lindasvæði landsins og þar fossa lindir
fram.
Menn voru ekki vanir stíflugerð á svona undirlagi, en fundu það út að það þarf ekki
nema örþunnt þéttilag ofan á hraununum til þess að minnka þennan leka úr stíflulóninu.
Birgir rekur hvernig mönnum tókst að búa til slíkt þéttilag, og lukkaðist það til að mynda
við Sigöldu.
„Hluti af þeim framkvæmdum var einfaldlega að eftir fyrstu áfyllingu vatns, að kanna
allan vatnsbotninn og finna lekastaði. Þar var fyllt upp með fínni möl og sandi þar sem
voru komnir lekasvelgir. Þá var vatni hleypt á lónsstæðið, þrisvar eða fjórum sinnum, og
þegar lækkaði þar í þá sást á hvaða stöðum lekavatnið rann niður í hraunið.
Þá þurfti ekki annað en fara þar yfir með möl af ákveðinni stærð, og svo möl af fínni
kornastærð, þá sandi og loks fínni sandi, svo úr varð einskonar lagterta. Þá var
undirlagið orðið nógu þétt til að gruggið í ánni næði að setjast og mynda þéttilag til að
halda vatninu. Það þurfti þarna ekki nema örfárra sentimetra þykkt sandlag til að búa til
nærri vatnshelt þétt lag. Tók ferlið 2-3 ár áður en lekinn var orðinn ásættanlega lítill.
Svipað verklag hefur verið viðhaft í öðrum virkjunarlónum á ungum hraunum á
Tungnaásvæðinu. Við Búrfellsvirkjun voru ösku og vikurlög frá Heklu ofan á hrauninu og
því mun minni leki niður í hraunið.

Mörg hættuleg störf á vettvangi
Eins og gefur að skilja felur byggingaframkvæmd af þessari stærðargráðu í sér ýmis
störf sem geta verið hættuleg. Sprengivinna, gangagerð, rafmagnsvinna og ýmis
verkefni andspænis hrikalegri og oft óvæginni náttúru Íslands, allt getur þetta haft hættu
í för með sér.
Birgir rifjar upp að framkvæmdin hafi mikið til farið fram stóráfallalaust, „Menn gættu sín
og sýndu almennt varkárni og ábyrgð við störf. Ég held að það hafi bara skipt sköpum
varðandi það hve slys voru fátíð við þessa framkvæmd,“ bætir hann við, og víst er um
það, að byggingarframkvæmdir af jafn viðamikilli stærðargráðu og Búrfellsvirkjun var, reynast oft mannskæðari þegar verkefnið er jafn stórt og jafn margir við vinnu á
vettvangi, margir þeirra við hættuleg störf.

Gullfalleg og falin náttúruperla
Birgir nefnir að endingu að Sigöldugljúfur sé að sönnu einstaklega falleg náttúruperla,
flestum falin og fáum kunn. „Það veit eiginlega enginn af þessum stað, en ég er búinn
að fara oft þarna með útlendinga; maður kemur þarna fram á gljúfurbarminn og þá blasir
viðþetta ofboðslega flotta lindarsvæði, þar sem hreinlega sprautast vatn út úr
gljúfurveggnum öðrum megin.
Allir sem þarna koma verða alveg yfir sig hrifnir af þessu og hafa jafnvel spurt hvernig
standi á því að það séu ekki myndir af svæðinu í neinum ferðabæklingum eða slíku. Þá
svara ég því til að kannski sé það út af stíflunni. En þá hefur fólk litið forviða í kring um
sig. „En það er enginn stífla hérna?! Við sjáum enga stíflu!“ En stíflan var gerð úr efninu
sem var mokað úr Sigölduskurðinum og nánast eins og framhald af öldunni. Sami litur,
sama jarðefni, og fellur því algerlega að landinu

Hrafntinnusker

En þetta er hálfgerður leynistaður því flestir leiðsögumenn eru almennt á móti virkjunum
og eru því lítið að sýna gestum slíka staði, og skiptir þá engu þó mannvirkið sé fallegt og
framkvæmdin hafi skipt sköpum fyrirlandsmenn.
Þarna er síst ofmælt hjá Birgi. Bæði var mikilvægt að hafa til taks meira varaafl með tilliti
til raforkunotkunar þjóðarinnar – því það rafmagninu sló reglulega út á þessum árum
vegna skorts á afli, ekki síst um jól og áramót – og svo var mikilvægt að bæta við styrkri
stoð undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, sér í lagi með tilliti til þess að brugðið gat til
beggja vona meðundirstöðu atvinnugreinina, sjávarútveginn.
Það var ekki alltaf á vísan að róa og tímasetning Búrfellsvirkjunar afar kærkomin búbót
þegar síldarbresturinn verður um miðjan sjöunda áratuginn með tilheyrandi erfiðleikum í
efnahagslífinu, samdrætti og víðtæku atvinnuleysi.
Búrfellsvirkjun markaði sannarlega skil – hún skipti sköpum fyrir land og þjóð.