Heyrði það í útvarpinu í síðustu viku, að Landlæknisembættið ráðlagði íslendingum að taka D vítamín aukalega. Öll önnur vítamín fáum við í fæðinni. Það er eins og Listasafn Reykjavíkur hafi tekið Landlækni á orðinu, því þar var að opna sýningin D-vítamín, sem tekur yfir alla aðra hæð Listasafns Reykjavíkur Hafnarhús, í Tryggvagötu. Sýningin er stór aukaskammtur af D-vítamíni, þar sem koma saman úrval upprennandi listamanna með splunkuný eða nýleg verk. En Listasafn Reykjavíkur hefur undanfarin ár verið með sýningarröð í D-sal húsins þar sem ungir og upprennandi listamenn stíga sín fyrstu spor, þessi sýning er númer 51. Verkin draga fram hið einstaklingsbundna, líkamann, sköpunargáfu, tilfinningagreind, handverk, frásagnarlist og arfleifð. Þessir þættir og fleiri endurspegla dýpt tilverunnar og margbreytileika einstaklinga í nútímasamfélagi, eins og segir í kynningu um sýninguna. Listamennirnir sem sýna eru fimmtán, og sýningarstjórarnir fjórir. Í dag, föstudaginn 2. febrúar er safnanótt, en þá  opna fjölmörg söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00 til 23.00. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu, og fengið stóran skammt af D-vítamíni í kaupbæti.

Frá sýningunni D-vítamín í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhús
nema

Frá sýningunni D-vítamín í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhús
nema

Listasafn Reykjavíkur Hafnarhús, í Tryggvagötu

Frá sýningunni D-vítamín í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhús
nema

Frá sýningunni D-vítamín í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhús
nema

Reykjavík 01/02/2024 – A7C, RX1R II : FE 1.8/20mm G, 2.0/35mm Z

 
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson