Á þessum árstíma er oft farið í samkvæmisleiki. Var spurður af því um daginn hvaða foss mér þætti fallegastur á Íslandi. Þagði lengi. Það fer auðvitað allt eftir árstíð, birtu og vatnsmagni. Eftir langa umhugsun var það Dynjandi í Arnarfirði vestur á fjörðum, sem vann. Fallegur vetur sem sumar. Númer tvö, Dettifoss, þessi kraftmesti foss evrópu er einhvernveginn svo stór og sterkur, þar sem hann öskrar út í óbyggðirnar. Númer þrjú….. það tók mig langan tíma að velja, svo margir fossar sem komu til greina… að lokum var það þó Skógafoss. Hann er svo fallega einfaldur, foss eins og barn teiknar, hár og ekkert allt of breiður.
Vestur-Ísafjarðarsýsla 09/02/
Ljósmynd og texti : Páll Stefánsson