Ice Cave Iceland
Ein af stærstu manngerðu ísgöngum í heiminum
Um 550 metra löng ísgöng í vestanverðum Langjökli verða opnuð ferðamönnum í sumar. Þar verða aðskilin rými svo sem um 70 fermetra rými með bekkjum sem hægt verður að nota sem kapellu þar sem fólk getur látið gifta sig. Lýsingin í göngunum verður heill kapítuli út af fyrir sig.
Ísgöng ehf. (e. Ice Cave Iceland) hefur séð um að grafa út göngin en fyrirtækið er í eigu Iceland Tourism Fund sem er svo í eigu Icelandair Group, Landsbankans og nokkurra lífeyrissjóða. Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Ísganganna, segir að gert sé ráð fyrir að ferðaþjónustufyrirtæki geti markaðssett ferðir í göngin í formi dagsferða frá Reykjavík. Þá munu margir kaupa ferð frá jökulrönd þar sem farið verður á átta hjóla trukkum, sem búið er að breyta til að hægt sé að ferðast á þeim á jökli.
„Ekið verður upp að innganginum inn í göngin sem verða mest á um 30 metra dýpi. Farið verður á tveimur stöðum í gegnum náttúrulegar sprungur sem er merkilegt að skoða,“ segir Sigurður. Leiðsögumenn munu leiða hvern hóp og fræða m.a. um jöklafræði og áhrif loftslagsbreytinga á bráðnun jökla.
„Sérhópar geta leigt ísgöngin og þá verður hægt að fara með veitingar og vera með mat eða haldið fundi í einu af rýmunum. Svo er búið að útbúa einn helli sem er eins og gamall torfbær eða kapella í laginu og þar munu pör geta látið gifta sig.“
Lofthæðin verður mest fjórir til fimm metrar.
Broddar verða fyrir þá sem þess óska.
Listamenn og hönnuðir
Nokkrir hellar eru útbúnir inni í göngunum. Þá verður lýsingin í göngunum heill kapítuli út af fyrir sig en um verður að ræða LED-lýsingu sem að megninu til er staðsett inni í veggjunum svo upplifunin verður mjög sterk.
„Við leggjum áherslu á upplifunina. Við erum að vinna með listamönnum og hönnuðum hvað varðar lýsinguna, við verðum með fróðleik og notum hljóð og myndir og svo mun fólk skoða bláa ísinn sem er í mesta dýpinu. Þar er massífur ís. Þetta verður draumaheimur.“
Fyrir fólk á öllum aldri
Sigurður segir að búist sé við 20-30.000 gestum á ári. Flestir munu væntanlega koma á aðalferðamannatímabilinu sem er frá mars til október. „Við erum það vel búin tækjum að við getum verið með opnunartíma fyrir minni hópa allt árið.“
Sigurður segir að hann hafi aðallega fengið góð viðbrögð varðandi íshellinn. „Fólki finnst þetta vera spennandi. Þetta er allt öðruvísi og skemmtileg viðbót og verða