Helgi Þorgils Friðjónsson hefur verið í hópi afkastamestu og þekktustu núlifandi listmálara Íslands undanfarna áratugi. Meðfram linnulitlu sýningahaldi víða um heim hefur hann sjálfur starfrækt einkagallerí á heimili sínu óslitið frá árinu 1980 þar sem hann hefur öðru fremur kynnt landann fyrir erlendum listamönnum. Og það er nóg framundan hjá Helga sem situr ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn.
Helgi Þorgils er fæddur og uppalinn í Búðardal en fluttist ungur til Reykjavíkur til að hefja myndlistarnámið. Hann tók ungur til hendinni við bústörfin en engu að síður vitjaði listagyðjan hans snemma á lífsleiðinni, eins og hann rekur fyrir mér þegar við setjumst að spjalli á heimili listamannsins. Hornsófinn hans Helga skartar ótal litríkum púðum, rétt eins og heimilið skartar fallegum listaverkum hvert sem litið er.
„Mér finnst þetta hafa byrjað þegar ég var mjög ungur, og ég geri mér í raun ekki grein fyrir því hvenær ég byrja að vera myndlistarmaður,“ segir Helgi um fyrstu árin. „Ég var náttúrulega búinn að lesa Lífsþorsta [sögu Vincent Van Gogh eftir Irving Stone] og Tunglið og tíeyringinn [skáldsögu W. Somerset Maugham sem byggir að hluta á ævi Paul Gauguin] og ýmislegt fleira og ég hélt til að byrja með að þetta væri einhvern veginn svona. Þetta eru sögur af miklum listamönnum sem smám saman verða til. Gauguin byrjaði á að vera skrifstofumaður og Van Gogh ætlaði sér að verða prestur án þess að takast það,“ bætir Helgi við. „En hvað myndlistarnám varðar“ – Helgi hugsar sig um stutta stund – „fyrir mér þá býr myndlistarskóli ekki til myndlistarmann, en hann getur flýtt fyrir listamanni vegna þess að þú tengist mörgu á sama tíma og öðrum sem eru í svipuðum hugleiðingum, ferli sem tæki þig annars fimm til tíu auka ár.“
Að komast í gegnum þetta – eða ekki
Helgi Þorgils var teiknandi frá því hann man eftir sér, þó honum félli ekki verk úr hendi við sveitastörfin enda snemma fengin störf fullorðins fólks, að eigin sögn. Bændahjónin á Höskuldsstöðum þar sem hann dvaldi hálft árið frá 7-13 ára aldri voru fædd á 19. öld og bæði ólust þau upp á bæjum sem enski listamaðurinn W.G. Collingwood kom við á í Haukadal þegar hann ferðaðist um landið árið 1897. „Þegar Collingwood ferðaðist um landið þá teiknaði hann oft börnin á bæjunum, þannig að það er möguleiki að það sé einhvers staðar til portrett af hjónunum sem börn eftir Collingwood,“ bætir Helgi við kíminn. „En ég vann öll helstu verk og ég held að þegar maður er svona einn við harða vinnu frá sjö ára aldri til fermingar, hér um bil, þá fellurðu í flokk annarrar af tveimur manngerðum; sú sem kemst í gegnum það og þroskast af því eða sú sem upplifir dvölina með neikvæðum hætti. Og ég var sem betur fer alltaf frekar einrænn. En þegar ég horfi til baka, þá man ég að fullorðnu fólk fannst ávallt gaman að tala við mig. Það er svolítið sérstakt. Það voru ekkert svo margir jafnaldrar til að leika sér við í sveitinni. En með myndlistina þá var það þannig hjá mér að ég hef alltaf lesið mjög mikið og skrifað mjög mikið, og ferillinn hefði jafnvel getað þróast í þá átt. Að hluta til þakka ég skrifunum vegna þess að þetta víxlast mjög vel þannig að það þróar margt í myndlistinni, jafnvel meira en ef þetta væru bara skrifin. Þetta held ég að sé ástæða þess að ég hef frekar víða sýn á list og galleristinn minn á Ítalíu sagði einu sinni, sem mér þótti vænt um: Þín list er þannig að maður sér alla listasöguna, alla mannkynssöguna í því sem þú ert að gera.“
„Gangur lífsins“ frá einum stað til annars
Í meira en 44 ár hefur Gallerí Gangur fylgt Helga Þorgils, heima hjá honum inni á gangi, vel að merkja. Á vef Listasafns Íslands segir: „Gallerí Gangur er listamannarekið sýningarrými sem stofnað var af myndlistarmanninum Helga Þorgils Friðjónssyni árið 1979 og er líklega elsta einkarekna gallerí landsins sem starfað hefur samfellt frá stofnun.“ Starfsemin hófst í janúar 1980 að Laufávegi 79 og hefur farið víða um Reykjavík síðan, alls óslitið og allt eftir búsetu Helga, meira að segja með tímabundnu útibúi að Kárastíg 9 á Hofsósi fyrir nokkrum árum. Galleríið er því á sinn hátt gangur lífsins hjá Helga.
„Núna er Bernd Koberling að sýna hérna,“ segir Helgi en Gangurinn hefur frá upphafi haft að markmiði að kynna myndlist erlendra samtímalistamanna hér á landi. „Gallerí Gangur hefur haft mjög mikið að segja í listalífinu hér heima, miklu meira en menn gera sér grein fyrir held ég. Margir erlendir listamenn hafa stigið þar sín fyrstu skref á Íslandi,“ bætir hann við. Á meðan listamenn hafa löngum barist við að koma sjálfum sér á framfæri hefur Helgi jöfnum höndum unnið að því að koma öðrum á framfæri. Hann er ekki frá því að þessi samvinnuhugsjón eigi sér rætur í sveitalífi æskustöðvanna.
„Þetta er nú bara úr sveitinni eins og hún var, og ég hef aldrei þegið neitt fyrir sýningarhald eða sölu verka í Ganginum og hef aldrei hlotið neina styrki fyrir starfsemi Gangsins. Ég ákvað það strax að þetta myndi aldrei koma nálægt peningum. Öll þessi nýfrjálshyggja, það verður litið á hana sem tímabundið bull í framtíðinni. Sú hugsun er ekki tileinkuð lífinu á neinn hátt. En Gangurinn, hann er lífið sjálft.“ Að sögn Helga hafa gallerí og sýningarstaðir, sem í framhaldi hafa sýnt sömu listamenn sem áttu sína fyrstu sýningu á Íslandi í Ganginum í gegnum persónuleg vinatengsl hans við listamennina, ekki öll minnst á Ganginn í kynningum sínum á ferli viðkomandi listamanna hérlendis. „En það er í lagi,“ segir hann og brosir út í annað. „Ég hef alltaf sagt öllum nemendum mínum og hverjum sem er: Forðist að verða bitrir listamenn vegna þess að þú ert sá eini sem þjáist fyrir biturð þína. Hinum er alveg skítsama.“ Helgi hlær við. „Og ég hef engan áhuga á að eyða mínu stutta lífi í biturð.“
Að mæta fyrir framan trönurnar
Helgi Þorgils hefur verið sérlega iðinn við sýningarhald, hér heima og erlendis. Einkasýningarnar eru orðnar á annað hundrað og samsýningarnar vel á þriðja hundraðið. Hann segist vanafastur við vinnu sína og auðheyrt að hann reiðir sig ekki alfarið á að innblástur vísiteri hann og fylli andagift. „Ég er alltaf mættur fyrir framan strigann snemma morguns. Við Kolur hérna förum alltaf út í morgungöngu á slaginu fimm og ég er kominn aftur hingað inn um kortér fyrir sex, fæ mér þá kaffi og er svo sestur fyrir framan trönurnar. Fyrst er að skrifa niður, einhverjar hugsanir með sjálfum mér. Svo byrja ég að vinna.“
Helgi lýsir því hvernig hugmyndir og mótíf málverka, einkum hinna stærri, séu oft fleiri mánuði að „grassera“ í undirmeðvitundinni, áður en kemur að því að strekkja strigann. „Svo horfir maður á strigann, krotar með kolum og svona, fram og til baka, og þá er þetta farið að líta frekar vel út og orðið skýrt. Svo byrja ég að vinna í verkunum og sumum finnst myndirnar mínar jafnvel fallegastar þá, þegar þær eru ófullgerðar og expressíónískar. En svo kemur að því að grafa smám saman inn eftir endanlegri mynd, og það er ekki alltaf endilega skemmtilegt. En svo allt í einu kemur eitthvað og þá er sú vinna kannski vika eða hálfur mánuður. Þá veit maður nokkurn veginn hvernig myndin endar hér um bil. En í málverki er það náttúrulega þannig að ein pensilstroka getur breytt heildarmynd,“ bætir hann við, íbygginn á svip.
Fimm sýningar á næsta ári – þar af ein á óvæntum stað
Talandi um heildarmynd – það er vissara fyrir Helga Þorgils að hafa góða yfirsýn yfir heildarmynd líðandi stundar því það er nóg um að vera hjá honum framundan. Í meðalári setur hann jafnan upp tvær til þrjár sýningar á ári en árið 2025 verða þær hvorki fleiri né færri en fimm talsins.
„Ein sýningin verður á óvæntum stað og ekki tímabært að segja frá því alveg strax, en hún verður í júní á næsta ári. Í janúar verð ég með einkasýningu í Silkeborg, sem er jú staðurinn hans Asger Jorn, og svo verð ég í Gautaborg með aðra einkasýningu. Þá tek ég þátt í samsýningu í Þýskalandi sem opnar í byrjun ágúst og svo væntanlega annarri í borginni Trento á Ítalíu.“ Þá er ótalið að Gangurinn mun skarta verkum merkra listamanna allt næsta ár eins og vant er. Þar á meðal má nefna hina þekktu áströlsku listakonu Jenny Watson úr annarri bylgju femínista, en hún hefur sýnt einu sinni áður í Gallerí Gangi.
Að síðustu sest Helgi upp í sófanum og styður olnbogum á hné, með spenntar greipar. Hann er þögull um stund en tekur svo til máls. „Mig langar að nefna Hrein vin minn Friðfinnsson, sem er nýdáinn, og ég ætla að segja þér frá síðasta verkinu okkar saman. Morguninn sem Hreinn dó, sendi ég honum tölvupóst þar sem ég bauð honum að setja upp sýningu í Ganginum, eins og við höfðum alloft talað um. En Hreinn hefur dáið í þann mund sem ég ýtti á hnappinn til að senda skeytið. Stefán, eiginmaður Báru, bróðurdóttur Hreins, kom til mín klukkan tíu þennan morgun í spjall og kaffi. Hann var varla kominn inn úr dyrunum þegar Bára hringdi og þá sagði Stefán að hann þyrfti að fara með það sama, það væri eitthvað áríðandi sem kallaði að. Þegar hann var farinn opnaði ég tölvupóstinn minn í símanum og þar var skeyti frá aðstoðarmanni Hreins. Hún þakkaði mér tölvupóstinn sem ég hafði sent fyrr um morguninn og tjáði mér um leið að Hreinn hefði látist þá um morguninn. Rétt á eftir fékk ég svo skeyti frá Stefáni þar sem hann sagði mér frá andláti Hreins. Þessi hringrás er eiginlega fjórða sýning Hreins í Ganginum.“
Texti: Jón Agnar Ólason