Það var einstaklega fallegt í Reykjavík í dag. Einn af hverjum fjórum íbúum höfuðborgarinnar sem upplifðu snjóinn, fallegan veturinn eru fæddir erlendis. Einn af hverjum fimm íbúum landsins, eða um 20% eru fæddir erlendis. Við deilum áttunda, níunda sætinu með frændum vorum Svíum, samkvæmt nýjustu tölum frá OECD, með flesta innflytjendur. Lúxemborg trónir á toppnum, en helmingur landsmanna er fæddur utan furstadæmisins. Síðan kemur Sviss, en 31% landsmanna er fæddur utan landsteinanna. Ástralía er með 29%, Nýja Sjáland með 27%, Kanada með 22% en á síðasta ára (2023) fluttu til landsins 468 þúsund einstaklingar, rúmlega heil íslensk þjóð. Austuríki og Írland eru síðan ofar en við, en þar eru 21% íbúa fæddir erlendis. Danmörk og Finnland eru með um 10%, meðan 17% í Noregi eru fæddir erlendis, sama hlutfall og í Þýskalandi og á Spáni. Lægsta hlutfallið, samkvæmt OECD, er í Mexíkó, Japan og Póllandi, rétt um eitt prósent.
Reykjavik 03/01/2025 : A7R IV, RX1R II – FE 1.8/135mm GM, 2.0/35mm Z
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson