Ísland hefur mikla sérstöðu á heimsvísu. Hér eru nefnilega tvö meginkerfi jarðskorpumyndunar að verki. Ísland liggur bæði á heitum reit og úthafshryggjarkerfi, í báðum tilfellum streymir kvika úr möttli jarðar upp á yfirborðið. Á heitum reit kemur bráð upp úr möttlinum, óháð flekaskilum, en á flekaskilum vellur hraun upp til að mynda nýja skorpu á saumum þessara tveggja fleka. Í báðum tilfellum verða eldgos vegna þess að bráð flyst úr möttli jarðar upp á yfirborðið. Í síðustu öld voru 45 eldgos á Íslandi, það er eldgos annað hvert ár, tæplega. Þar af nokkur mjög stór, í Kötlu 1918, Heklu 1947, Surtsey 1963 og í Vestmannaeyjum (Heimaey) árið 1973. Á þessari öld hafa verið fimmtán eldgos, á tuttugu og fjórum árum, þar af tvö nokkuð öflug, Eyjafjallajökull 2010, og Holuhraun 2014. Erum við að fara inn í nýjan fasa? Síðan eldgoshrinan hófst á Reykjanesi þann 19. mars 2021, hefur gosið þar tíu sinnum á þremur og hálfu ári. Það er mikið.






Ísland 22/11/2024 : RX1R II, A7R IV, A7R III – 2.0/35mm Z, FE 2.8/90mm G, FE 1.2/50mm GM, FE 1.4/85mm GM – Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson