Ljósmynd: Patricia Ramaer

Enginn í skapandi greinum er eins frumlegur og hann telur sig vera

Guðmundur Oddur Magnússon – Goddur – er í hópi þekktustu og reynslumestu grafískra hönnuða hérlendis, með langan feril að baki bæði sem hönnuður og prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Um þessar mundir vinnur hann að því að skrifa sögu sinnar starfsgreinar – um notkun fjölfaldaðs myndmáls í íslensku prentverki, eins og hann orðar það. Það er því við hæfi að staldra við og skoða úrval frá hönnunarferli hans sjálfs sem spannar á fimmta áratug.

Veggspjöld Godds hafa verið sýnd á sýningum bæði hér heima og á öllum Norðurlöndunum. Þau voru einnig sýnd á Hönnunar-Þríæringnum í Beijing 2011 og á DYDO veggspjaldagalleríinu í Kraká, heimsborg veggspjaldalistarninnar árið 2017.

Goddur fór á eftirlaun fyrir 4 árum sem prófessor í grafískri hönnun en kennir ennþá enda nýtur hann þess að eigin sögn. Núverandi fyrirkomulag hentar honum einkar vel, eins og hann bendir sjálfur á. „Ég hef miklu meiri tíma til að vinna að skapandi störfum og stunda rannsóknir, gera það sem er skemmtilegt – ég þoli ekki fundahöld eða skýrslugerðir og þess konar býrokratisma.“

Þó ferillinn sé langur og afkastamikill segist Goddur aðspurður ekki sjá mismunandi skeið þegar hann lítur um öxl. Engu að síður á hann sína áhrifavalda þegar kemur að sjónrænni framsetningu. „Áhrifavaldarnir eru margir og komast til áhrifa í gegnum plötuumslög og tímarit sem fáir taka eftir nema næmir teiknarar. Á fimm til tíu árum eru formhugmyndirnar komnar út um allt og verða að því sem kallað er „mainstream.“ Minn hugmyndaheimur verður fyrst og fremst til á árunum frá 1980 fram yfir fyrstu áratugi nýrrar aldar. Það er tími mikilla umbreytinga – stafræna byltingin. Og jú, þessum tíma hættum við að kalla starfsgrein okkar auglýsingateiknun og köllum hana grafíska hönnun.“

Hann bendir um leið á að hver og einn dragi óhjákvæmilega dám af sínum samtíma.

Goddur í sjónvarpsviðtali við kínverska sjónvarpsstöð á Hönnunar-Þríæringnum í Beijing 2011.

„Við fæðumst öll inn í tíðaranda og staðsetningu í veröldinni. Enginn í skapandi greinum er eins frumlegur og hann telur sig vera. Enginn á höfundarétt að hugmyndum en höfundarréttur byggist á úrlausnum – hvernig maður framkvæmir sín eigin stílbrögð.“

Mikilvægast að vera sjálfur ánægður með það sem maður gerir
Gestir skoða veggspjöld Godds á sýningu á Þríæringnum í Beijing 2011.

Sjálfur hefur Goddur ekki starfað á auglýsingastofu síðan hann kom heim frá námi á vesturströnd Kanada árið 1990. Þess í stað byrjaði hann fljótlega að kenna og hefur unnið sjálfstætt meðfram kennslunni síðan. En skyldi hann vera sérstaklega ánægður með einhver ákveðin verkefni sem hann hefur unnið – eitthvað sem að hans mati stendur upp úr höfundarverkinu?

„Ég vel mér sjálfur verkefni sem tilheyra menningarlífi; söfn, gallerí, tónleikar, plötuumslög, fyrirlestrar o.s.fr.v. Það þýðir að hafa fullt vald til að skapa verk sem maður sjálfur er ánægður með. Mín starfsgrein er auðvitað þjónustugrein, en það er mikill munur á því að þjóna eða þóknast. Það er mikilvægast að vera sjálfur ánægður með það sem maður gerir – það er ekkert eitt sem stendur uppúr nema kannski í augum annarra.“

Verk Godds standa alltént uppúr í augum einhverra, því umfjöllun um þessi veggspjöld hefur birtst víða í bókum um grafíska hönnun, og má þar á meðal nefna 55°North: Contemporary Scandinavian Graphic Design (Laurence King, London 2002), Graphic Design for the 21st Century (2003) og Graphic Design NOW, (TASCHEN 2003), North by North, Scandinavian Graphic Design (Die Gestalten, Berlin 2002), ROMANTIK (Die Gestalten, Berlin 2004), Randscharf On the cutting Edge: Design in Iceland (Die Gestalten 2011), TRANSFORME, V.I.A. (Paris 2004), og Scandinavian Design Beyond the Myth (Arvinius Förlag 2003), svo einhverjar séu nefndar.

Author

  • Editorial

    Icelandic Times Magazine - the only magazine in Iceland published in English, German, French and now Chinese. Icelandic Times Magazine's sister publication Land og Saga is published in Icelandic.

    View all posts
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0