Lakagígar er 25 km / 15 mi löng gígaröð, suðvestan undir Vatnajökli, og hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Lakagígar urðu til í Skaftáreldum árin 1783 – 1784 einu mesta eldgosi Íslandssögunnar. Hraunið, Eldhraun sem þekur 600 ferkílómetra lands, er eitt mesta hraunrennsli í sögu mannkyns. Í gosinu mynduðust 135 gígar, sem upp úr vall hraun, auk ösku og gosgufu sem ollu miklu mistri og móðu yfir Íslandi. Móðan barst síðan yfir Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku og olli ekki bara að búpeningur féll umvörpum hér, heldur varð uppskerubrestur um allan heim, sem gerir eldgosið eitt það mannskæðasti í mannkynssögunni. Hér var þetta kölluð móðuharðindin, og eru mestu harðindi sem hafa dunið á íslenskri þjóð. Talið er að 75% búfjár og fimmti hver maður, eða um 10.000 Íslendingar hafi dáið í þessum hamförum fyrir tæpum 240 árum.
Vestur-Skaftafellssýsla 06/04/2019 11:09 – 11:16 : A99II – 1.8/135mm ZA
Ljósmyndir og texti : Páll Stefánsson