Haustlaukar II
Samsýning á nýrri myndlist í almannarými
24. september – 18. október
Listasafn Reykjavíkur efnir öðru sinni til samsýningar á nýrri myndlist í almannarými, Haustlaukar II, dagana 24. september til 18. október. Verk átta listamanna birtast á fjölbreyttan hátt víða um Reykjavík og í því sameiginlega rými sem tæknin býður upp á. Um er að ræða gjörninga, inngrip og uppákomur af ýmsu tagi sem kallast á við samfélagslegt rými, opinberan vettvang, stræti, torg og byggingar sem við deilum í sameiningu. Verkin eru meira og minna unnin í óáþreifanlega miðla; Haustlaukarnir skjóta rótum víða og spretta upp við óvæntar aðstæður.
Viðfangsefni þeirra átta listamanna sem taka þátt í sýningunni eru fjölbreytt en eiga það öll sameiginlegt að varpa ljósi á eða spyrja spurninga um daglegt umhverfi íbúa borgarinnar og gesta hennar. Þar er fjallað um mörk einka- og almenningsrýmis, eignarhald og frelsi auk þess sem reynt er að fá fólk til þess að staldra við, líta í kringum sig og sjá umhverfið í nýju ljósi. Loks smitast óhjákvæmilega inn í verkin þær breytingar sem orðið hafa á þessu ári og snúa að daglegum samskiptum og venjum á tímum farsóttar. Sum verk eru aðeins flutt einu sinni á meðan önnur eiga sér lengri eða tíðari tilvist.
Listamennirnir eru Gígja Jónsdóttir, Gunnhildur Hauksdóttir, Haraldur Jónsson, Kolbrún Þóra Löve, Magnús Sigurðarson, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Rósa Sigrún Jónsdóttir og Styrmir Örn Guðmundsson.
Sýningastjórn er í höndum Markúsar Þórs Andréssonar og Helgu Kjerúlf.
Dagskrá sýningarinnar má kynna sér í sýningarskrá, á samfélagsmiðlum Safnsins eða dagskrársíðu safnsins.