— Manfreð Vilhjálmsson arkitekt í viðtali
Manfreð Vilhjálmsson er fortakslaust í hópi virtustu arkitekta Íslands fyrr og síðar. Eftir hann liggur fjöldi bygginga af ýmsu tagi sem margar teljast með því fegursta í íslenskum arkitektúr og hafa auk þess markað skil á marga lund. Manfreð bauð blaðamanni Lands & Sögu í heimsókn heim til sín í Smiðshús á Álftanesi þar sem margt var rætt, reifað og rifjað upp enda ferillinn langur og verkin mörg.
Það er heldur þungt yfir þetta hásumarssíðdegið þegar undirritaður knýr dyra á hinu nafntogaða Smiðshúsi, heimili Manfreðs. Einhvern veginn hefur tíðin þó engin áhrif á ásýnd hússins; þetta einbýlishús sem reist var árið 1961 er ekki einasta tímalaust hvað varðar útlit og yfirbragð, heldur er það á sinn einstæða hátt óháð umhverfi sínu og gildir einu þó blýgrár himininn hóti gusum. Hin sígilda hönnun stafar af byggingunni. Húsið er hvorki tiltakanlega stórt né er það á mörgum hæðum, en það er engu að síður afskaplega áhrifaríkt að sjá, og ekki síður eftir að inn er komið.
Tímalaust frá fyrsta degi
„Nafn hússins er til heiðurs föður mínum, smiðnum. Þaðan er nafnið,“ segir Manfreð þegar hann heilsar með virktum og býður mér inn. Það er ekki laust að ég finni til forréttinda að ganga um húsið, sem ég hef lesið svo mikið um og skoðað svo oft á myndum. Sem fyrr sagði er það byggt 1961 en óhætt er að fullyrða að væri hulu svipt af húsinu og innanstokksfyrirkomulagi í fyrsta sinn í dag þætti það jafn ferskt og jafnvel framúrstefnulegt og það þótti þá. Við fáum okkur sæti við borðstofuborðið og Manfreð býður upp á malt & appelsín. Úti er skollin á húðarrigning en inni í Smiðshúsi er hlýtt og notalegt – nokkuð sem sumir efuðust um að yrði þegar þeir litu teikningarnar fyrst augum fyrir sex og hálfum áratug.
„Hann smíðaði nefnilega húsið,“ heldur Manfreð áfram þegar við höfum komið okkur fyrir með malt í glasi, um leið og hann bendir mér um öxl á portrett af föður sínum, Vilhjálmi Jónssyni, húsasmíðameistara. „Hann byggði húsið eftir mínum teikningum og það voru nú sumir vinnufélaga hans sem leist ekki of vel á þegar þeir skoðuðu þær, segir Manfreð kíminn. „Þeir sögðu sem svo við pabba að nú væri hann að vinna eftir einhverri vitleysu í syninum.“
Annað kom á daginn og húsið hefur vart elst um dag. Sama er að segja um húsið við hliðina á Smiðshúsi, sem kallast Vesturbær, en þau voru samstarfsverkefni Manfreðs og Guðmundar Kr. Kristinssonar arkitekts.
Margs konar nýjungar prófaðar
Ytra útlit þessara húsa er mjög svipað en þau eru ólík að innan. Þó þessi hús teljist fyrir löngu sígildur íslenskur arkitektúr voru sumir iðnararmannanna efins á sínum tíma, sem fyrr segir. Smiðshús er nefnilega það sem heita má tilraunahús – þar vildi Manfreð láta reyna á ýmsar nýjungar áður en hann prófaði þær í annarra manna hýbýlum. Má þar einna helst nefna að aðeins undirstöður eru steyptar á meðan annað er úr léttum efnum. Til móts við stofurýmið eru til að mynda samfelldir gluggar frá gólfi og upp í loft, sem bjóða upp á stórfenglegt útsýni í suður að Reykjanesinu þar sem Keilir blasir við. „Þessu fyrirkomulagi höfðu menn ekki nokkra trú á og sögðu að krakkarnir í hverfinu yrðu búnir að brjóta rúðurnar á fyrsta degi,“ segir Manfreð og brosir við tilhugsunina. Ekki fór það nú svo og glerið hélt.
Manfreð heldur áfram: „Svo er húsið með flatt þak, sem þeir fullyrtu að myndi aldrei ráða við íslenskt tíðarfar. En þetta er vel byggt og hefur aldrei lekið dropa. Karl faðir minn benti þá vinnufélögunum á það að hús Háskóla Íslands væri líka með flatt þak. Hann vann nefnilega líka við þá byggingu. Og þar með var það útrætt.“ Engir hefðbundnir húshitunarofnar eru heldur í Smiðshúsi heldur er þar lofthitakerfi og Manfreð bendir mér í því sambandi á litlar, ílangar ristar í gólfinu undir gluggaflekunum.
Mér verður hugsað til frægra orða annars áhrifamikils arkitekts þegar ég virði fyrir mér þessa stórmerkilegu þætti í byggingu Smiðshúss. Sá goðsagnakenndi Le Corbusier skrifaði nefnilega árið 1927 – ári áður en Manfreð fæddist – að hús væru vélar til að búa í, og átti þar við að í vel heppnuðum hýbýlum væri hugsað fyrir öllu þannig að sem best færi um íbúana. Það má að einhverju leyti til sanns vegar færa en mennskan og hlýjan er samt svo umlykjandi í Smiðshúsi að ég bægi þessari tilhugsun frá mér, þó hér virðist sannarlega hugsað fyrir öllu.
Við virðum fyrir okkur suðurhliðina á Smiðshúsi um stund. Svo lítur hann aftur um öxl á myndina af smiðnum, Vilhjálmi, og ítrekar hve mikil áhrif faðir hans hafði á hann. „Ég ætlaði að verða smiður og var meira að segja kominn á samning við hann, og vann fyrir hann í ein þrjú eða fjögur sumur. En svo bara villtist ég svona af leið,“ bætir hann við og kímir. „En þessi reynsla kenndi mér að skilja betur fag smiðsins, og auðveldaði vonandi samskiptin við þá í framhaldinu,“ bætir hann við og brosir út í annað. „Annars er ég svosem ekki dómbær á það. En þetta var góð kunnátta að hafa á bakvið eyrað.“
Námsárin í Gautaborg
Hús Manfreðs bera með sér höfundareinkenni, hvort sem um ræðir opinberar byggingar eða hýbýli fyrir einstaklinga, mannvirki í þaulskipulögðu þéttbýli eða náttúrulegra umhverfi. Hann vill þó síður meina að hann hafi lagt upp með eina ákveðna nálgun hvenær sem hann hófst handa við nýtt verkefni í gegnum tíðina. Þvert á móti sé mest um vert að hafa víðsýni til að bera svo gera megi hvert viðfangsefni sem best úr garði. Í því sambandi bendir hann á að það sé að hans mati mikilvægt fyrir íslenska arkitekta að læra líka erlendis og víkka þannig sitt sjónsvið. Sjálfur lærði hann í Svíþjóð, nánar tiltekið í Chalmers Tekniska Högskolan í Gautaborg. Manfreð lætur ljómandi vel af tíma sínum í Gautaborg og ekki laust við að það birti yfir svip hans þegar háskólaárin þar ytra eru rifjuð upp. Á daginn kemur að hann valdi Svíþjóð einkum af praktískum ástæðum þegar kom að því að skoða skóla erlendis.
„Þetta er skömmu eftir stríð, árið 1949, á þeim tíma eru flest löndin í Vestur-Evrópu löskuð. Það eru ekki svo mörg lönd sem koma bærilega út úr þeim hildarleik nema Svíþjóð, og Sviss, og svo Bandaríkin. En svo kom valið og það var ódýrast að fara til Svíþjóðar,“ útskýrir Manfreð. „Það var nú eiginlega ástæðan. Ég ráðfærði mig líka við eldri kollega hér heima, eins og Sigvalda [Thordarson] sem ég kannaðist vel við og hafði lært í Danmörku. En í grunninn hafði ég ekki ráð á að fara til Bandaríkjanna og Sviss var líka dýrt, eins og það hefur alltaf verið,“ bætir hann við kíminn.
„Ég var í sex ár þarna í Gautaborg, fimm ár í skólanum og svo vann ég hjá einum af prófessorunum mínum í eitt ár. Og ég hefði alveg eins getað sest að í Svíþjóð, en ætli konan hafi ekki bjargað mér heim,“ segir Manfreð og hlær við. „En ég kunni ljómandi við mig í Svíþjóð. Dáldið merkilegt samt að nú eru yfir sjötíu ár síðan og ég hef ekki talað sænsku í sjötíu ár!“ Aftur er hlegið og malti bætt í glösin. „Það er nú ekki alveg satt en svona allt að því.“
Aðlögun húsbygginga að hverjum tíma
Aðspurður segist Manfreð hafa komið nokkrum sinnum til Gautaborgar eftir að náminu lauk og nefnir í því sambandi að við undirbúning Þjóðarbókhlöðunnar við Arngrímsgötu hafi hann brugðið sér í námsferðir til nokkurra áfangastaða, meðal annars til Svíþjóðar og Danmerkur, Englands og Bandaríkjanna. Þjóðarbókhlaðan er að líkindum þekktasta verk Manfreðs og vafalaust það viðamesta, en það var í byggingu frá 1972 til 1994. Þess má geta að Þorvaldur S. Þorvaldsson arkitekt var með í upphafi við hönnun byggingarinnar meðan meginhugmyndin var að mótast en endanleg útfærsla var í höndum Manfreðs. Undirbúningurinn og byggingartíminn skilaði sér þegar til kastanna kom því byggingin er úthugsuð og eftir því framúrskarandi vel heppnuð—þaðan á undirritaður ótal góðar minningar frá háskólaárum sínum 1994 til 1996 þegar ófáum klukkustundum var þar varið í lestur og lærdóm og ósjálfrátt leitar hugurinn aftur til þeirra góðu tíma. Minningarnar einkennast af einstakri hljóðvist, góðri birtu og ljósum viði.
„Ég vona þessi vinna hafi skilað einhverju,“ segir Manfreð, rétt eins og hann hafi lesið hugsanir blaðamanns. „Það er eiginlega meginpunkturinn að það er hægt að breyta nýtingu húsnæðisins, það er að segja, það er hægt að breyta hvernig bókhlaða og bókasafn er byggt upp, hvernig það vinnur. Það hefur breyst svolítið á liðnum öldum – en maður veit aldrei. Svo húsið á að geta mætt þeim óskum og kröfum. Þetta er viðhorf sem hefur verið svolítið ráðandi í öllum lausnum hjá mér.“
Að sama skapi er þarna eiginleikum Smiðshúss einmitt rétt lýst, þó það sé á flesta lund gerólíkt Þjóðarbókhlöðunni, jafnt að hlutverki sem umfangi. Til marks um það er sú staðreynd að þó Manfreð búi einn í húsinu í dag—eiginkona hans til 70 ára, Erla Sigurjónsdóttir, lést árið 2022—þá bjuggu þar átta manns þegar mest var og segir það sitt um aðlögunarhæfni og notagildi hússins. „Það voru ég og konan mín, við eigum fimm börn, og svo bjó tengdamóðir mín hér líka um skeið. Þetta var ógurlega skemmtilegur tími.“ Það hýrnar yfir Manfreð við tilhugsunina. „Nú er ég bara einn að dingla hérna,“ segir hann svo og hlær við. „En það hefur verið einstaklega gott að búa hérna.“
Við sitjum og spjöllum um stund meðan maltið rennur sitt skeið, sína leið. Það er stytt upp og nývökvaður Keilir blasir við. Manfreð sýnir mér um stofur Smiðshúss og segir frá hinum ýmsu listaverkum sem þar er að finna, flestöll eftir persónulega vini hans og Erlu heitinnar, meðan hann fylgir mér til dyra. Nú þegar létt hefur til bendir Manfreð aftur á stóru gluggana. „Ég hugsaði þetta svolítið eins og um hross í haga væri að ræða, þegar ég teiknaði stóra glugga í suður en litla í norður. Maður vill opna sig á móti sumri og suðursól, en snúa rassinum upp í norðankulið.“ Enn er hlegið og við Manfreð Vilhjálmsson kveðjumst með bros á vör á dyraþrepi hússins sem hann teiknaði og faðir hans smíðaði.
Texti: Jón Agnar Ólason