Matarástríða og menning sameinuð
Matarástríða og menning mætast á eftirminnilegan hátt í Höndum í Höfn í Þorlákshöfn, en hér er um að ræða annars vegar persónulegt kaffihús sem sérhæfir sig í lausnum fyrir fólk með hverskonar fæðuóþol og ofnæmi og svo opna glervinnustofu þar sem listin ræður ríkjum.
Húsið er sérlega bjart og þegar inn er komið verður fljótt ljóst að hugað hefur verið að hverju smáatriði. Innanstokksmunir eru frá öðrum tíma og hafa þeir verið endurnýjaðir á hugvitssamlegan hátt og gefur það kaffihúsinu birtu og hlýju. Stofnandi Handa í Höfn, Dagný Magnúsdóttir, opnaði kaffihúsið fyrir rúmu ári síðan, en listasmiðjan hefur verið starfrækt síðan 2010. Dagný segist hafa gríðarlega ástríðu fyrir matargerð og eyðir því mestum tíma sínum á staðnum, þess vegna hafi aldrei komið annað til greina en að innrétta staðinn þannig að fólki liði þar vel.
Matargerð Dagnýjar byggir á náttúrulegum hráefnum og segist hún hafa tekið sér langan tíma til að þróa uppskriftir sínar. „Það mætti segja að ég sé bragðlaukafíkill, en ég segi gjarnan að lífið sé of stutt fyrir vondar hitaeiningar. Ég vakna þannig á nóttunni og hugsa um mat og fer mestur hluti sólarhringsins í matargerð. Ég hef hins vegar alla tíð glímt við hveitiofnæmi og svo eru börnin mín með mikið fæðuofnæmi og vegna þess hef ég farið þá leið að nota aðeins náttúruleg hráefni og geri allt frá grunni, það er því engin fjöldaframleiðsla hér,“ segir Dagný.
Allt í Höndum í Höfn er því bakað úr íslensku mjöli og alíandareggjum, kjöt og grænmeti kemur beint af býli og unnar matvörur eru hvergi sjáanlegar. Vegna fæðuofnæmisins hefur Dagný lagt mikið kapp á að þróa lausnir fyrir fólk með fæðuvandamál af hvers kyns toga. „Fólk glímir við margskonar fæðuvandamál og ekki er alls staðar boðið upp á lausnir við þeim. Þess vegna er ég með margar tegundir á boðstólum hverju sinni, hvort sem fólk vill glúteinlaust, hráfæðikökur, mjólkurlaust eða hvað annað. Ég hef ekki enn orðið strand og ef það kæmi einhverntíma að því hlypi ég einfaldlega inn í eldhús og fyndi lausn á því. Ég reyni að hugsa allt í lausnum og ég held að viðskiptavinirnir kunni vel að meta það,“ segir Dagný.
Veitingareksturinn hefur vakið svo mikla lukku, að sögn Dagnýjar, að nú er boðið upp á heitan mat á fimmtudögum og föstudögum, sem lýtur að sjálfsögðu sömu lögmálum og bakkelsið hennar.
Við hlið kaffihússins er svo glervinnustofan þar sem Dagný og aðrir búa til glermuni. Þar býður hún upp á tækifærisnámskeið þar sem hún tekur á móti hópum, hvort sem það eru vinnustaðahópar, fjölskyldur eða steggir og gæsir. Það var raunar þannig sem kaffihúsið varð til, því eftir vinnustofurnar gæddu gestir hennar sér gjarnan á bakkelsi sem hún kom með að heiman og úr varð að matargerðin sameinaðist listinni. Nú er því hægt að fylgjast með því hvernig glermunir eru gerðir í opinni vinnustofu, kaupa einstaka muni og njóta vinalegs umhverfisins með kaffibolla og veitingum.
Hendur í höfn tekur einnig á móti hópum í mat utan venjulegs opnunartíma.
-VAG
www.hendurihofn.is