Hin einstaka íslenska ull

Sigurður Sævar Gunnarsson

Íslenskur textíliðnaður hf (Ístex hf) er ullarvinnslufyrirtæki sem vinnur að því að skapa sem mest verðmæti úr íslenskri ull og hefur um leið að markmiði er að framleiða hágæða vörur úr fyrir þá sem kjósa náttúrulegar, sjálfbærar og umhverfisvænar vörur. Fyrirtækið byggir á hefð sem nær aftur til 19. aldar og einstakir eiginleikar íslensku ullarinnar endurspeglast í margvíslegum vörum fyrirtækisins.

 

Heitt vatn og þrjóskt fólk

„Ístex kaupir ull beint frá bændum en rúmlega 80% fyrirtækisins eru í eigu bænda,“ útskýrir Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex. Höfuðstöðvar félagsins eru í Mosfellsbæ og þar hefur ullarvinnsla staðið samfleytt frá árinu 1896, áður undir nafninu Álafoss. Ístex hf tók við starfseminni árið 1991 en félagið þvær og meðhöndlar um 99% af allri íslenskri ull.

„Lykillinn að ullarvinnslu Íslendinga er heitt vatn og þrjóskt fólk,“ segir Sigurður og kímir við, en það var einmitt heita vatnið sem rann um Álafosskvosina sem gerði fólki kleift að hefja þvott og vinnslu á ull undir lok 19. aldar. „Fyrirtækið í núverandi mynd er stofnað árið 1991, vægast sagt móti straumnum því það var samdráttur í samfélaginu, gjaldþrot algeng og gerviefnin allsráðandi. En fólk gafst ekki upp,“ bætir hann við. Íslenska þrjóskan í gegnum áratugina hefur heldur betur borgað sig því íslensk ull er í dag heimsþekkt vara og eftirsótt fyrir einstaka eiginleika sína.

Ullarband og ómissandi teppi

Ístex framleiðir handprjónaband í alls sjö mismunandi útfærslum úr íslenskri ull sem og má þar nefna Álafosslopa, Einband, Jöklalopa, Léttlopa og Plötulopa. „Útfærslurnar hafa mismunandi eiginleika og henta því fyrir margvísleg prjónaverkefni,“ bendir Sigurður á. „Álafosslopi er til dæmis hlýr og hentar í útivistarflíkur, á meðan Fjallalopi sem er nýjasta bandið okkar, er þynnri og hentar því vel í fíngerðar og léttar flíkur. Hosubandið er síðan sérstaklega slitsterkt band og er því frábært í sokka.“

Ístex gefur út einnig út handprjónabækur með fjölbreyttri hönnun. Sú nýjasta er númer 43 í röðinni og ber yfirskriftina Skýjaborgir. Þar er að finna uppskriftir að fjölbreyttum peysum og og öðrum prjónaflíkum sem Védís Jónsdóttir listamaður á heiðurinn að. Védís er einnig hönnuðurinn á bakvið flest ullarteppin frá Ístex, sem fáanleg eru í margvíslegum litum og mynstrum. „Teppin okkar hafa verið einstaklega vinsæl til gjafa enda íslensk hönnun úr íslenskri ull,“ segir Sigurður. „Íslensk værðarvoð er ómissandi á hvert heimili. Það þurfa allir  að eiga minnst eitt gott teppi.“

Einstakar íslenskar ullarsængur

Ístex hefur einnig hafið framleiðslu á sængum og koddum úr íslenskri ull undir nafninu Lopidraumur. Félagið kaupir ullina beint frá bændum og er hún er STANDARD 100 by OEKO-TEX® vottuð. „Ullin hentar frábærlega í sængur og kodda því rannsóknir hafa sýnt að ullarvörur bæta svefn,“ segir Sigurður. „Íslenska ullin er temprandi því hún býr yfir þeim eiginleika að halda einstöku rakajafnvægi og viðheldur þannig þægilegu hitastigi. Þessi öndunareiginleiki leggur þannig grunninn að góðum svefni og sængin passar því öllum árstíðum.“

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0