Lundarhverfið í Kóparvogi. Það hverfi byggðu Gylfi og Gunnar að öllu leyti með rúmlega 400 íbúðum

Höfum verið farsælir í okkar starfsemi

-Bygg í 40 ár

Fá byggingarfélög eiga jafn tilkomumikið fótspor af framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og BYGG – Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Félagið fagnar 40 ára afmæli um þessar mundir og þeir félagar eru hvergi nærri hættir; þvert á móti eru ýmis viðamikil verkefni í farvatninu. Blaðamaður Lands & sögu tók hús á þeim Gunnari Þorlákssyni, húsasmíðameistara og Gylfa Ómari Héðinssyni, múrarameistara – mönnunum á bakvið nafnið – í höfuðstöðvunum og í spjallinu var farið vítt um svið á meðan 40 ára starfsemi var rifjuð upp.

Gunnar Þorláksson, húsasmíðameistari (t.v.) og Gylfi Ómar Héðinsson, múrarameistari.

„Við stofnuðum fyrst sameignarfélag árið 1984,“ útskýrir Gylfi þegar þeir félagar rifja upp árdaga BYGG, en ef frá er talið þegar þeir breyta rekstrarforminu um 1990 hefur félagið frá upphafi verið rekið á sömu kennitölunni. Aðspurðir hvort fyrsta verkefnið sem þeir afhentu undir merkjum félagsins sé þeim alltaf kærast segja þeir það ekki endilega vera tilfellið. Ekki er laust við að tónninn gefi til kynna að hér sé verið að biðja foreldri um að gera upp á milli barnanna.

Ársalir 1-3 í Kópavogi
Horfum frekar á stóru myndina

„Fyrstu skrefin eru alltaf stór, óneitanlega,“ samsinnir Gunnar og hugsar sig nánar um. „En maður dvelur ekki um of við það. Það þýðir ekkert annað en að halda áfram og það er svo margt sem við höfum gert á þessum tíma, sumt mjög stórt og jafnvel heilu hverfin. Ég nefni sem dæmi Naustavörina á Kársnesi í Kópavogi, hverfi sem er með yfir 400 íbúðum og allt byggt af BYGG, sem er nú líklega eitt fallegasta hverfið sem við höfum komið að. Svo er vitaskuld Sjálandið í Garðabæ sem við byggðum að stærstum hluta, og Lundarhverfið í Kóparvogi en það hverfi byggðum við að öllu leyti með rúmlega 400 íbúðum. Einhvern veginn horfir maður alltaf frekar á stóru myndina en einhver einstök verk.“

Smáralind séð að innan

Fyrsta stóra verkefni þeirra félaga var Grandavegur 41, 43, 45, og 47, alls 100 íbúðir og var eitt stórt og mikið fjölbýlishús með 71 íbúðum fyrir 60 og eldri sem byggt var árið 1989. „Þær lóðir keyptum við af Lýsi og þá héldu menn nú að við værum alveg orðnir snarruglaðir,“ segir Gunnar kíminn. Gylfi bætir við: „Þetta var svo stórt á þessum tíma. Meistarinn sem ég lærði hjá, Haukur Pétursson heitinn, sagði við mig þegar ég hitti hann í byggingavöruverslun í Ármúlanum og kaup okkar á lóðinni höfðu kvisast út; Gylfi minn, ef ég væri þú þá myndi ég nú bara skila þessu.“ Þeir vinirnir hlæja við. „En við héldum okkar striki og það má alveg segja að þetta verk hafi verið innspýtingin inn í stórhuga framkvæmdir hjá okkur árin í kjölfarið.“ Það vakti líka athygli þegar þeir félagar ruddu brautina hvað ákveðið lykilatriði varðaðir; að íbúðirnar í umræddu fjölbýli við Grandaveginn voru afhentar fullbúnar, en í þá daga tíðkaðist almennt að afhenda kaupendum nýjar íbúðir tilbúnar undir tréverk.

Sjálandshverfið í Garðabæ fellur vel að sjávarsíðunni.
Tímamót í Sjálandshverfinu

Í framhaldi af þessu og fleiri vel heppnuðum verkefnum keyptu þeir félagar fyrirtækið Stálvík við Arnarnesvog í Garðabæ og meðfylgjandi lóð. „Það voru talsverð tímamót í okkar starfsemi. Þarna var skipasmíðastöð, brautir sem gengu út í sjó ásamt höfn,“ rifjar Gylfi upp. „Mikið af svæðinu við fjöruna þarna var heldur ókræsilegt á þessum tíma en við tókum svæðið og umbreyttum því öllu, og talsvert uppsóp sem við leystum þarna af hendi fyrir Garðabæ. Í dag stendur þarna Sjálandshverfið, eitt fallegasta hverfi bæjarins, að mínu viti,“ bætir Gunnar við.

Sandvíkin við Sjálandshverfið í Garðabæ. Hverfið byggði BYGG að stærstum hluta.

Samhliða Sjálandsframkvæmdinni voru Gunnar og Gylfi í nokkurs konar frumkvöðlastarfi við að byggja upp Kópavogsdalinn, en þeir sem hafa aldur til muna hver gríðarleg umbreyting hefur orðið á því svæði síðustu 30 árin eða svo; á árunum kringum 1995 var fátt húsa við Dalveginn nema áhaldahús Kópavogskaupstaðar, þar sem byggðin við Lautasmára er í dag. „Það er þá sem við byrjum að kaupa upp lóðir, á þessu svæði, og það er þá sem Smáralindin verður til dæmis til en við stöndum fyrir henni frá upphafi,“ rifjar Gunnar upp. „Menn ætluðu að reisa þar einhvers konar húsaþyrpingu með mismunandi atvinnurekstri, en Gunnar Birgisson, sem var drifkrafturinn á bakvið uppbyggingu Kópavogs á þessum árum þvertók fyrir það og sagði: Það verður moll!“ Gunnar brosir við minninguna. „Hann hafði þessa sýn og þess vegna er Smáralindin til í dag.“ BYGG reisti sömuleiðis Turninn við Smáralind (Norðurturninn) ásamt fjölmörgum íbúðarblokkum og má segja að verk þeirra Gunnars og Gylfa séu þar upp eftir öllum dalnum. Í held hefur BYGG byggt yfir 4 þúsund íbúðir ásamt skrifstofu- og atvinnuhúsnæði.

Lundahverfi er einstaklega vel skipulagt með góðu útvistarsvæði milli fjölbýlishúsanna.
Mannleg samskipti það sem telur mest

Þegar talið berst að því hvað standi upp úr, frá undanförnum árum, hugsar Gunnar sig stuttlega um. „Það er eitt sem hefur einkennt okkur í okkar starfsemi, og það er að við erum með býsna háan meðalstarfsaldur hjá fólkinu okkar. BYGG hefur frá upphafi haldist vel á starfsfólki, oft í allt að 30 ár, og það er ekki svo algengt í þessum bransa. Ég held að það segi svolítið um það hvernig er að vinna hjá okkur. Mannleg samskipti er það sem telur hvað mest þegar maður lítur til baka.“ Þeir kumpánar líta hvor á annan og ekki er laust við glettnisblik í augum. „Við höfum nú deilt sömu skrifstofunni í 40 ár.“

Sjálandið hefur verið eftirsótt hverfi frá upphafi enda byggðin hæfilega há.

Og aldrei borið skugga á? „Ja, við getum alveg ræðst við, sko!“ Þeir skella upp úr.
„En að gamninu slepptu þá gefur það manni óneitanlega mikið að taka að sér verk og koma að öllum hliðum þess frá upphafi til enda,“ bætir Gunnar við. „Að hanna skipulag, teikna húsin, og klára hverfið með götum og lýsingu. Bærinn tekur bara við hverfinu fullbúnu.“

Lundahverfið er vestast í Fossvogsdal, Kópavogsmegin.
Mikilvægt að vera úr Húnavatnssýslunni

Þegar talið berst að því hvað þurfi til að ná viðlíka árangri bendir Gunnar á að augljóslega þurfi verkvit, ásamt því að kunna skil á peningahliðinni. „Svo þarf ákveðna áræðni,“ bætir Gylfi við. „Það má ekki bakka út úr verkefnum þó meistarinn mæti manni og vari mann við því að taka að sér Grandaveginn,“ bætir hann við og enn er hlegið. „Svo held ég að það sé afskaplega mikilvægt að menn séu úr Húnavatnssýslunni,“ skýtur Gunnar kankvís inn í. „Við eigum báðir ættir að rekja þangað norður og þegar að er gáð þá eru allir þessir byggingamenn, sem eitthvað hefur kveðið að undanfarna áratugi, þeir eru meira eða minna að norðan úr Húnavatnssýslunni!“
Einhverjir myndu sjálfsagt halla hægindastólnum aftur að loknu svo drjúgu dagsverki en það er ekki á dagskránni hjá þeim Gunnari og Gylfa, nema síður sé. Að endingu spyr ég þá félaga hvort maður venjist því að sjá öll verkefnin standa hér og þar í borgarlandslaginu þegar maður keyrir þar hjá? Hættir maður að taka eftir öllum byggingunum?
„Nei,“ segir Gylfi ákveðinn. „Það er alltaf gaman að sjá það sem vel er gert. Það minnir okkur á að við höfum verið farsælir í okkar starfsemi og það hvetur mann áfram í næstu verkefni.“

Gunnar Þorláksson, húsasmíðameistari (t.v.) og Gylfi Ómar Héðinsson, múrarameistari.

Texti: Jón Agnar Ólason

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0