Það eru ótal rök sem mæla með því að nú þegar verði farið að huga að samgöngumálum framtíðarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Það dugar ekki lengur að stjórnmálamenn hugsi til skamms tíma, eða rétt til þess að halda stólnum sínum fram yfir næstu kosningar. Enda hefur sagan sýnt að þeir stjórnmálamenn sem verða ódauðlegir í sögu þjóðar eru þeir sem höfðu framtíðarsýn.
Og helstu rökin eru:
- Margvíslegar nýjungar hafa orðið í samgöngum og gerð samgöngumannvirkja, einkum er lýtur að almenningsflutningum, sem eru allrar athygli verðar. Má þar nefna t.d. miðlægt stýrðar lestir, nýjungar í jarðgangnagerð og þar með nýjar forsendur við mat á arðsemi.
- Arðsemi samkvæmt hefðbundnum útreikningum á ekki við þar sem líklegt er að mikill ábati geti orðið varðandi umhverfismál og það að losa undan vegum verðmætt land á yfirborði jarðar.
- Þétting byggðar á höfuðborgarsvæðinu í stað sífellt meiri útþenslu er ofarlega á baugi í máli skipulagsfólks og almennings.
- Jarðefnaeldsneyti er innan mjög langs tíma á þrotum og áður en það gerist verður það væntanlega rándýrt. Á Íslandi er tiltölulega hrein orka sem vinna má á sjálfbæran máta.
- Þrátt fyrir að Reykjavík hafi verið auglýst sem reyklaus og hrein borg þá hafa mælingar sýnt að verulegrar loftmengunar verður vart meðfram stofnbrautum, a.m.k. við ákveðnar veðuraðstæður.
- Metró getur verið mun þægilegri ferðamáti vegna þess að biðstöðvar eru þrifalegri og þar gætir ekki veðurs og vinda. Biðstöðvar geta einnig verið samkomustaðir og átt þátt í að gera hverfismiðstöðvar aðlaðandi og öruggar.