Jarðhitasýningin: hringrás auðlindastrauma lifnar við

Í Hellisheiðarvirkjun á Hengilssvæðinu fer fram margs konar starfsemi sem á það sammerkt að sjálfbærni er leiðarstefið. Jarðhitasýningin á staðnum opnar gestum nýja sýn á margþætta verðmætasköpun og hringrásarhagkerfi – þar sem kraftar náttúru eru í aðalhlutverki – birtist áhorfendum með ljóslifandi hætti.

Sjálfbærni er leiðarljósið í einstöku umhverfi

Umhverfi Hellisheiðarvirkjunar er ævintýralegt að sjá og gildir þá einu hvernig viðrar þann daginn. Húsakostur og framandlegur tækjabúnaður utandyra virkar helst á gestkomandi eins og eitthvað sprottið úr vísindaskáldsögu, og þegar við bætist umgjörð mosavaxinna fjalla mynda andstæðurnar magnaða heildarmynd. „Öll mannvirki Hellisheiðarvirkjunar hýsa starfsemi sem á einn eða annan hátt miðar að því að nýta auðlindastrauma svæðisins með náttúrulegum og sjálfbærum hætti,“ segir Laufey Guðmundsdóttir, sýningarstjóri Jarðhitasýningarinnar í Hellisheiðarvirkjun. „Allt sem við gerum miðar að því að starfsemin skili landinu að minnsta kosti jafngóðu og það var fyrir nýtingu.“

Laufey Guðmundsdóttir

Hin náttúrulega hringrás vatnsins, ferill heitavatnins frá borholu til heimilis og aðrir þættir starfseminnar birtast gestum sýningarinnar með myndrænum og lifandi hætti í Jarðhitasýningunni. Þar mætast bæði list og vísindi, að segja má, því eitt rýmið býður upp á 14 mínútna upplifun með einstökum myndskeiðum teknum með aðstoð dróna undir seiðandi tónlist og bakgrunns-ilminum Agndofa sem skapar dulmagnaða stemningu.

Starfsfólk sýningarinnar, eða vísindamiðlararnir (e. science communicators), er að sama skapi vel búið undir leiðsögn og útskýringar á undrum jarðhitans; þeirra á meðal eru jarðfræðingar, auðlinda- eða umhverfisfræðingar sem þekkja umfjöllunarefnið til hlítar.

Hringrás og nýting auðlindastrauma

Hellisheiðarvirkjun er jarðvarmavirkjun, ein sú stærsta í heimi, og Jarðhitasýningin varpar ljósi á hina ýmsu þætti starfseminnar – allt frá því þegar heitt vatn er sótt djúpt í jörðu og til þess þegar því er komið alla leið á áfangastað, þ.e. til notenda. Jarðhitasýningin fræðir gesti með gagnvirkum og fræðandi hætti um hvernig jarðvarminn er nýttur til að framleiða rafmagn fyrir landið og heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið.

Ýmsar fleiri starfseiningar eru auk hennar innan Jarðhitagarð ON (e. ON´s Geothermal Park). Þar má nefna sprota- og samstarfsfyrirtækið Carbfix, sem er leiðandi í að sporna við loftlagsbreytingum með því að breyta CO2 í stein. Í sjónmáli við virkjunina, í Jarðhitagarði ON, er einnig bygging á vegum fyrirtækisins Climeworks sem er í fremstu röð á heimsvísu þegar kemur að því að fanga CO2 úr andrúmsloftinu, og einnig hefur VAXA Technologies aðstöðu í Jarðhitagarði ON en fyrirtækið ræktar smáþörunga og framleiðir meðal annars vítamín úr þeim.

Several other entities operate alongside the Hellisheidi Power Plant within the ON Geothermal Park. Notably, there’s the trailblazing startup Carbfix, a leader in combating climate change by transforming CO2 into rock formations. Also within sight from the power plant, an organisation called Climeworks has facilities at the forefront of global efforts to capture CO2 from the atmosphere. Finally, VAXA Technologies has a presence in the ON Geothermal Park, where they cultivate microalgae and produce, among other things, vitamins.

Ástæða að baki hverju smáatriði

Rétt eins og starfsemi svæðisins er úthugsuð í þaula til að fullnýta auðlindastrauma svæðisins með eins skilvirkum hætti og mögulegt er, þá er aðalbygging Hellisheiðarvirkjunar úthugsað mannvirki. Þakið á virkjuninni og þakið á sýningarrýminu halla hvort á móti hinu og afstaðan þá á milli endurspeglar þverskurðinn af því hvernig flekaskilin líta út þar sem þau mætast þar sem Ísland er.

Ekki nóg með það heldur vísar oddlaga lögunin á umræddu glerhýsi sýningarrýmisins – ásamt hellulögn á hlaðinu í sömu lögun – á Snæfellsjökul, sem að margra mati er ein af sjö orkustöðvum veraldar. Hér er hugsun að baki öllu, ekkert er tilviljunum háð; enginn þáttur hönnunarinnar skilinn eftir í lausu lofti. Ýmsir þættir arkitektúrsins í aðalbyggingunni vísa með beinum hætti í hluti eins og flekaskil, jarðlögin og aðra þætti umhverfisins sem saman eru ástæða þess að jarðhitinn er til staðar og Hellisheiðarvirkjun þar sem hún er.

Ótrúlegt og síbreytilegt útsýni

Útsýnið frá sýningarýminu er að sama skapi magnað, og aldrei eins frá degi til dags, að sögn Laufeyjar. „Suma daga er umhverfið sveipað dulmagnaðri þoku, stundum liggur snjór yfir öllu svo ævintýralegt er um að litast. Í heiðríkju blasir svo fjallasýnin við undir bláhimni svo langt sem augað eygir, nánast allan hringinn.“ Þennan daginn er skýjað yfir og raki í lofti, og þá virðist sem grænn mosinn glói hreinlega, þar sem hann þekur bæði hraun og fjöll í næsta nágrenni.

Fyrsti viðkomustaður í Gullna hringnum

Það færist stöðugt í vöxt að gestir sem heimsækja Gullna hringinn geri Jarðhitasýninguna að sínum fyrsta viðkomustað til að skoða krafta og undur jarðhitavatnsins á Hellisheiði. Það er líka vel viðeigandi því vatn og jarðfræði Íslands eru hinn rauði þráður þeirra viðkomustaða sem mynda áðurnefndan hring – flekaskilin, Öxarárfoss, gjáin Silfra og Þingvallavatn sjálft á Þingvöllum; hinn einstaki og tilkomumikli Gullfoss og loks jarðhitinn sem þeytir heitu vatni tugi metra upp í loft á svæðinu við Geysi. Allt tengist þetta enda sami landsfjórðungurinn. „Við erum svo heppin að hafa þessa stórkostlegu kennslustofu í jarðfræði sem Ísland er og hér á Hellisheiði er upplagt að hefja ferðalagið um þennan einstaka landshluta,“ segir Laufey.

 

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0