Kattarvali er nýjasta jólavættur borgarinnar en hann lét fyrst sjá sig í formlegri opnun Jólaskógarins í Ráðhúsinu í dag og verður þar til sýnis alla aðventuna ásamt öðrum jólavættum borgarinnar. Jólaskógur Ráðhússins hefur sjaldan verið eins glæsilegur en þar er búið að koma fyrir líkani af Höfða og kofi jólasveinsins er á sínum stað.
Kattarvali er einn af gömlu jólasveinunum, sonur Grýlu frá fyrra hjónabandi með tröllkarlinum Bola. Lítið fór fyrir Kattarvala frameftir öldum því hann dvaldist langdvölum í Finnmörku ásamt nokkrum bræðrum sínum. Þeir fóru um með ránshendi og óknyttum en það var bara vegna þess að þeir voru alltaf svangir og söknuðu mömmu sinnar. Á ferðum sínum tók hann ástfóstri við finnskættaða skógarketti. Í dag er hann nýkominn heim og er miklu rólegri en áður. Enda fær hann nú mesta útrás í að stíga nokkur dansspor. Hann er mikill dýravinur, er „vegan“ og elskar ketti af öllum stærðum og gerðum. Hann nýtir hvert tækifæri til að grípa þá upp á rófunni, sveifla þeim jafnvel svolítið — og auðvitað knúsa litlu skinnin í kaf.
Kattarvali er 14. jólavættur borgarinnar en aðrar vættir eru: Grýla, Leppalúði, Jólakötturinn, Rauðhöfði, Leiðindaskjóða, Stekkjastaur, Hurðaskellir, Gluggagægir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Stúfur og tvíburarnir Surtla og Sighvatur. Jólavættirnar birtast nú ein af annarri á húsveggjum víðsvegar um borgina þar sem þeim verður hampað. Samfara því fer af stað skemmtilegur fjölskylduleikur sem byggist á að finna vættirnar og svara léttum og skemmtilegum spurningum um þær. Hægt er að nálgast ratleikinn í Ráðhúsi Reykjavíkur, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum en á þessum stöðum er einnig hægt að sjá allar jólavættirnar á einum stað. Þá er hægt að nálgast leikinn á vefnum Jolaborgin.is. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem sigrar í leiknum en hægt er að skila svörum til Höfuðborgarstofu í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrir 19. desember.
Gunnar Karlsson myndlistarmaður á heiðurinn að útliti jólavættanna en þær komu fyrst fram í borginni árið 2011. Þær byggja á hugmynd Hafsteins Júlíussonar um að tengja íslenska sagnahefð við jólaborgina Reykjavík. Bragi Valdimar Skúlason skrifaði textann um vættirnar.
Aðventan einkennist að öðru leyti af fjölbreyttri dagskrá í Reykjavík en hægt er að nálgast nánari upplýsingar um hana á vefnum: Jolaborgin.is.
Aðventan einkennist að öðru leyti af fjölbreyttri dagskrá í Reykjavík en hægt er að nálgast nánari upplýsingar um hana á vefnum: Jolaborgin.is.
Jólaskógurinn í Ráðhúsinu er opinn alla daga á aðventunni en opnunartími um helgar er frá kl. 13-15. Á hverjum sunnudegi kl.14 verður hægt að sjá norsku jólamyndina Sólon og Lúðvík: Jól í Furufirði sem Oslóarborg færði Reykjavíkurborg að gjöf í tilefni af tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu.