Útgáfuhóf og bókagleði
Tvær mikilvægar bækur koma út hjá Sögufélagi í október og í tilefni þess verður haldið tvöfalt útgáfuhóf og margföld bókagleði í Bókabúð Forlagsins fimmtudaginn 19. október kl. 17.
Önnur bókin er eftir Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing og heitir Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir. Eins og titillinn gefur til kynna er skipulögð leit að íslensku klaustrunum hér í forgrunni. Höfundur bregður ljósi á sögu kaþólsks klausturhalds í landinu á persónulegan hátt og löngu horfinn heimur þeirra opnast fyrir lesendum. Þessa bók gefur Sögufélag út í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.
Hin bókin er eftir Vilhelm Vilhelmsson sagnfræðing og nefnist Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld. Hún fjallar um vistarbandið sem fól í sér þá skyldu búlausra að ráða sig í ársvistir hjá bændum og lúta húsaga þeirra. Fjallað er um togstreituna milli undirsáta og yfirboðara í gamla sveitafélaginu og saga alþýðunnar er sögð frá sjónarhorni hennar sjálfrar fremur en valdhafa.
Útgáfu bókanna verður fagnað í Bókabúð Forlagsins á Fiskislóð 39 fimmtudaginn 19. október kl. 17:00 og munu Steinunn og Vilhelm þá kynna bækur sínar. Bókagleðin verður þó ekki aðeins tvöföld heldur margföld því um leið og hinar veglegu nýju bækur koma út verður formlega hafin sala í Bókabúð Forlagsins á útgefnum ritum Sögufélags frá upphafi. Af því tilefni mun Hrefna Róbertsdóttir forseti Sögufélags einnig ávarpa gesti.
Sögufélag var stofnað árið 1902 og hefur allt frá fyrstu tíð haft að markmiði að gefa út vönduð sagnfræðileg ritverk. Það hefur með útgáfustarfsemi sinni átt drjúgan þátt í að efla sagnfræði í landinu sem lifandi fræðasamfélag.
Margar af bókum Sögufélags eru löngu uppseldar en af nógu er þó að taka eftir 115 ára útgáfu og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Allar þær bækur Sögufélags sem fáanlegar eru verða framvegis til sölu í Bókabúð Forlagsins.
Allir eru velkomnir og fólk er hvatt til að fjölmenna.