M O S A R

Það eru fá landsvæði eða lönd, þar sem mosar eru jafn áberandi í landslaginu og einmitt á Íslandi. Hér vaxa rétt rúmlega sexhundruð tegundir af mosum. Þar af 460 af baukmosum, 140 af soppmosum, og bara ein tegund hornmosa. Mosinn endurspeglar ýmsa þætti eins og loftslag, eldvirknina, síendurtekna myndun á nýju undirlagi, eins og hraunum. Enda er mosinn rótlaus, og tekur raka úr umhverfi sínu, en ekki jarðvegi. Mosar hafa greið jónskipti við umhverfið og geta því bundið mikið af mengunarefnum, eftir eldgos, eða þá af mannavöldum. Ein fallegasta leið á landinu er einmitt í gegnum mosabreiður Eldhrauns, austan og vestan við Kirkjubæjarklaustur á Hringvegi 1. Sígræn mosavaxin hraunbreiða, eftir gosið í Laka fyrir tæpum 250 árum.
Í Smáragötu, Reykjavík
Eldhraun, Vestur-Skaftafellssýslu
Krýsuvíkurhraun, Gullbringusýslu
Tré og mosi í Hljómskálagarðinum, Reykjavík
Bleiksmýrardrög á norðanverðum Sprengisandi, Suður-Þingeyjarsýslu
Mosi á tré I Einarsgarði, Reykjavík
Jökuldalur að Fjallabaki, Rangárvallarsýslu
Ljósmyndir & texti : Páll Stefánsson
Ísland 06/03/2025 : A7C R, RX1R II : FE 1.4/24mm GM, FE 2.5/40mm G, 2.0/35mm Z