„Japan og Ísland – góður árangur af nánu samstarfi“
Þó að Ísland sé í mikilli fjarlægð frá Japan, hafa Japanir töluverðan áhuga og jákvæða sýn á Ísland, að mati Mitsuko Shino, sendiherra Japans á Íslandi. Hún segir það sérstakt gleðiefni að áhuginn virðist vera gagnkvæmur.
Mitsuko Shino segir að norðurljósin, Bláa lónið, jarðvarmaorka og jafnrétti kynjanna séu það sem Japanir hugsa um þegar þeir heyra minnst á Ísland. Þar að auki hefur Ísland mjög gott orðspor sem bæði öruggt og hreint land. Náttúran vekur einnig áhuga þeirra. Hún segir að þetta séu megin ástæðurnar fyrir auknum áhuga japanskra ferðamanna á að heimsækja landið.
„Ég hef verið á Íslandi frá því í ágúst 2014. Þrátt fyrir að hafa verið hér í stuttan tíma finn ég fyrir miklum áhuga Íslendinga á Japan. Heimur Evrópubúa er venjulega meira og minna takmarkaður við Evrópusambandið. En í tilviki Íslendinga tek ég eftir skemmtilegri forvitni um Japan sem ég finn minna fyrir hjá íbúum meginlands Evrópu. Þetta kann að skýrast af sambærilegri landfræðilegri legu: bæði löndin eru eyjar við hlið stórrar heimsálfu,“ nefnir Shino. Þennan óvænta áhuga á Japan má t.d. sjá í þeim fjölda íslenskra nemenda sem læra japönsku við Háskóla Íslands. „Ég hef komist að því að japanska er annað vinsælasta tungumálið við háskólann, í öðru sæti á eftir ensku. Maður hefði venjulega gert ráð fyrir að franska, spænska eða rússneska yrði í öðru sæti. En á Íslandi er það japanska og það gerir mig mjög ánægða. Þannig að ég tel óhætt að segja að Íslendingar hafi mikinn áhuga á Japan.“
Breytingar á norðurslóðum
Aðstæður á norðurslóðum hafa verið áberandi í alþjóðlegri umræðu á undanförnum árum vegna bráðnunar íssins og mögulegra siglingaleiða milli Asíu og Evrópu og Ameríku. Shino segir að japanskir vísindamenn hafi aflað sér mikillar reynslu og þekkingar á Norðurheimskautinu sem þeir hafa rannsakað í meira en hálfa öld.
„Framlag Japana til þessara mála er helst á sviðum vísinda og fræða og snýst að miklu leyti um áhrif á sjóinn og dýralíf í hafinu. Þetta er mjög áhugavert vegna þess að við höfum séð breytingarnar á Suðurskautslandinu og svipaðir hlutir gætu átt sér stað á Norðurheimskautinu. Við höfum því traustan og öruggan grunn til að leggja okkar af mörkum á þessu sviði. Það sem skiptir okkur mestu máli eru umhverfismálin og vísindalegar rannsóknir í þeim efnum. Það er einstakt, dýrmætt lífríki á Norðurheimskautinu. Við vitum einnig að það tekur mun lengri tíma að hreinsa mengun í köldum sjó heldur en í hlýrri sjó. Ef mengun á sér stað á norðurslóðum munu áhrifin vara um langt skeið. Verndun Norðurheimskautsins er því mikilvægt málefni og er það sem er okkur mikilvægast varðandi breytingarnar á Norðurheimskautssvæðinu.“
„Að sjálfsögðu neitum við ekki áhuga okkar á málum sem varða viðskipti og verslun.“ Hagsmunir sem varða ferðamennsku og viðskipti eru þar meðtaldir þegar litið er til breytinga á Norðurheimskautinu að sögn Shino. Hún segir að Japanir séu mjög varkárir að eðlisfari. Þeir flani ekki að hlutunum og taka ákvarðanir þegar þeir eru vissir í sinni sök. Þeir kunni að fara hægt af stað en það þýði ekki að þeir haldi sig fjarri því sem er að eiga sér stað í heiminum.
Erfið reynsla af mengun
„Það eru gildar ástæður fyrir því hvers vegna við látum okkur umhverfið varða. Í fyrsta lagi höfum við gengið í gegnum erfiða reynslu sökum mengunar. Á sjötta áratugnum þegar hagkerfið óx ört, biðum við skaða af völdum mengunar. En við náðum að vinna okkur upp úr því. Við unnum að hreinsun vatns sem hafði mengast og í framhaldi unnum við að þróun tækni sem hefði ekki neikvæð áhrif á náttúruna. Vegna þessarar reynslu vitum við hversu mikilvægt það er að vernda dýrmæta náttúruna. Önnur ástæðan er svipuð því sem íslenska þjóðin hefur upplifað. Við þekkjum kraft náttúrunnar. Við vitum hversu hættuleg hún getur verið og hvernig hún getur haft áhrif á okkur. Náttúruhamfarir munu eiga sér stað ef jafnvægið raskast í náttúrunni. Vegna afls náttúrunnar og vegna fyrri reynslu eru umhverfismál okkur mjög mikilvæg og viljum við ávallt vera á varðbergi.“
Endurnýjanleg orka
Shino segir að Japan gæti nýtt jarðvarmaorku í meira mæli en gert hefur verið hingað til. Japan hefur náð árangri í tækni fyrir nýtingu jarðvarmaorku en auðlindin er langt frá því að vera fullnýtt. Japanir hafa þess vegna fylgst með þróun á því sviði á Íslandi.
„Fukushima slysið sem átti sér stað í mars 2011 breytti orkustefnu okkar algjörlega. Fram að þeim tímapunkti höfðum við reynt að byggja upp kjarnorkuver í þeim tilgangi að vera óháð öðrum orkugjöfum, t.d. jarðefnaeldsneyti. Við gerum okkur grein fyrir að öruggasta leiðin til að tryggja orku er að framleiða hana sjálf og einn möguleikanna var kjarnorka. Áður en Fukushima slysið varð, var u.þ.b. 25% af orku okkar fengin með kjarnorku. En eftir 11. mars 2011 var öllum kjarnorkuverum lokað og eru þau enn lokuð í dag, fyrir utan einn kjarnaofn sem ræstur var í ágúst á þessu ári.“ Hún segir að út frá umhverfissjónarmiðum vilji Japan heldur ekki auka notkun jarðefnaeldsneytis. „Við erum því að reyna að þróa endurnýjanlega orku. Yfirvöld styðja og hvetja einstaklinga og orkufyrirtækin í þeim efnum.“ Meðal þeirra endurnýjanlegu orkugjafa sem hafa verið nýttir í Japan eru bæði sólar- og vindorka en báðir orkugjafar eru ýmsum annmörkum háðir, að sögn Shino. Þar sem sólar- og vindorka sé háð veðurskilyrðum sé ekki hægt að reiða sig á stöðuga framleiðslu. Af þessari ástæðu hefur jarðvarmaorka verið tekin til skoðunar.
„Möguleikar okkar á að nýta jarðvarmaorku eru þrisvar til fjórum sinnum meiri en Íslands. Japan er það land sem hefur þriðja mesta magn jarðvarma í heiminum. En vandamálið er að ólíkt Íslandi eru sumrin mjög heit. Á þeim árstíma getur hitastigið farið upp í um 40 gráður á Celsíus. Af þeirri ástæðu þurfum við ekki að hita upp húsin stóran part ársins. Jarðvarmaorka til húshitunar nýtist einungis takmarkaðan hluta af árinu. Hinn hluta ársins notum við ekki húshitunarkerfið og kælum þess í stað húsnæðið. Þess vegna þarf að íhuga kostnað við upphaflegu fjárfestinguna. Ef við fjárfestum í jarðvarmaorku fyrir einungis þrjá til fjóra mánuði ársins, þurfum við að finna aðra notkun fyrir orkuna, og það er ekki einfalt verkefni.“
Kynjajafnrétti
„Ísland er vel þekkt fyrir að hafa verið sjö ár í röð í efsta sæti yfir þau lönd í heiminum sem eru með minnsta kynjamismunun. Japan er í kringum hundraðasta sæti á þessum lista. Það er því mikið sem við eigum eftir að læra, en við erum mjög áhugasöm um að breytast. Og við erum að taka breytingum, en það tekur sinn tíma og það er í lagi. Hraðar breytingar gætu eyðilagt menninguna og hefðirnar. Þannig að smám saman en örugglega, tökum við breytingum. Forsætisráðherra okkar, Shinzo Abe, er mjög áhugasamur um að styðja konur innan samfélagsins. Þegar hann hóf efnahagsáætlun sína, sem er kölluð Abenomics, reisti hann vissar stoðir. Ein var nýsköpun; hún gerir okkur kleift að vaxa. Og til að stuðla að nýsköpun, trúir hann að við þurfum á visku kvenna að halda, því konur geti lagt sitt af mörkum með öðrum hætti en karlmenn.“
Í ágúst síðastliðnum var tveggja daga málþing sem nefnist World Assembly for Women (WAW! 2015) og var það haldið í annað sinn af japönskum stjórnvöldum í Tokyo. Í ár voru þátttakendur 75 talsins frá u.þ.b. 40 löndum og 8 alþjóðlegum samtökum. Fulltrúi Íslands var doktor Irma Erlingsdóttir. Þar ræddu þátttakendur um hvernig styðja mætti virkt hlutverk kvenna í Japan og annars staðar í heiminum. „Að mínu mati hafði Ísland margt til málanna að leggja vegna þess hversu vel þjóðinni hefur tekist til á sviði jafnréttis kynjanna.“
Sameiginleg gildi og reynsla
Shino segir að það sé ánægjulegt að verða vitni að hinum auknu samskiptum og tengslum milli Íslands og Japans á ýmsum sviðum hin síðari ár. „Það má segja að við séum að opna augun hvert fyrir öðru. Við erum t.d. núna að ræða saman um áætlun fyrir vinnufrí ungmenna sem gerir þeim kleift að vinna sér inn vasapening á meðan þau dvelja erlendis í leyfi. Kerfinu hefur ekki verið komið á laggirnar, en við viljum sjá aukinn fjölda ungmenna auka við reynslu sína.“
„En við gætum gert meira. Fræði- og vísindamenn í Japan og á Íslandi gætu t.d. átt meiri samvinnu en hingað til. Ísland hefur vissa reynslu þegar kemur að því að spá fyrir um náttúruhamfarir, flytja fólk á brott þegar þær eiga sér stað og gera svo fólki kleift að halda venjulegu lífi sínu áfram eftir hamfarir. Við búum yfir svipaðri reynslu í Japan. Reynsla beggja þjóðanna getur nýst heiminum í heild, eins og kom í ljós nýlega á alþjóðlegri ráðstefnu, United Nations Conference on Disaster Risk Reduction, sem haldin var í Japan í mars á þessu ári. Það er óhætt að segja að við getum miðlað góðri þekkingu á þessu sviði. Samvinna milli japanskra og íslenskra fræði- og vísindamanna er því mikilvæg fyrir okkur öll.“-GJG