Eiríkstaðir

Náttúrufegurð, sagan og sælkeramatur í Dölum

Dalir bjóða ekki aðeins upp á nokkra af merkustu sögustöðum Íslands frá landnámsöld heldur er þar að finna einstaka náttúru þar sem kjörið er að jarðtengja sig, njóta kyrrðar og upplifa endurheimt frá hraða og erli nútímans.

Í Dölunum upplifir fólk jafnvægi og nánd við náttúruna. Takturinn í héraðinu er almennt rólegur og notalegur, því þannig vill heimafólkið hafa það og við finnum að gestir kunna að meta það,“ segir Jóhanna María Sigmundsdóttir, verkefnastjóri í Dölum. „Þó að hringvegurinn sé skammt undan þá bjóða Dalir upp á einstakt umhverfi til að kúpla sig út um stund frá amstri og hávaða borgarlífsins. Það höfum við heyrt bæði frá Reykvíkingum og erlendum gestum frá stórborgum víða um heim.

Stigið af hringekjunni og slakað á

Jóhanna hefur lög að mæla. Sé kort af Íslandi skoðað sést að Búðardalur, sem er stærsti þéttbýliskjarninn í Dölum, er aðeins í um 30 mínútna akstursfjarlægð frá Þjóðvegi 1. „Við lítum svo á að í nútímanum er kyrrðin orðin aðdráttarafl út af fyrir sig, nokkuð sem fólk sækir í til að hlaða orkuna aftur. Hér í Dölunum er upplagt að finna ró og næði, stíga af hringekjunni um stund og anda djúpt inn. Við finnum glöggt að fólk kann að meta það, um leið og það nýtur ljúffengs matar úr héraði, kannar söguslóðir eða skoðar náttúruna.“

Klofningur á Skarðsströnd
Sagan í Dölunum frá landnámi

Það er ekki ofmælt að sagan búi í nánast hverri þúfu í Dölum. Hér nam Auður djúpúðga land og reisti sér höfðingjasetur sitt, og að Eiríksstöðum er hægt að heimsækja fæðingarstað Leifs heppna Eiríkssonar sem fann Ameríku fyrstur Evrópumanna um leið og hægt er að sjá og upplifa lífshætti og aðstæður fjölskyldu hans á landnámsöld. Þá má ekki gleyma að ættfaðir Sturlunga, Hvamm-Sturla Þórðarson bjó að Hvammi í Dölum, en hann var afkomandi Auðar djúpúðgu og þar fæddust synir hans Þórður, Sighvatur og Snorri. En fólk og staðir í Dölum er ekki eingöngu bundið við söguöldina. Vert er að nefna að kirkjan fallega í Hjarðarholti er eftir fyrsta íslenska lærða arkitektinn, Rögnvald Ólafsson, eins og Jóhanna bendir á. „Við eigum líka allmörg skáld sem komu úr Dölunum og þar á meðal eru til dæmis Steinn Steinarr, Jóhannes úr Kötlum, Theódóra Thoroddsen og Stefán frá Hvítadal. Svo má líka nefna að myndlistarmennirnir Ásmundur Sveinsson og Hreinn Friðfinnsson eru ættaðir úr Dölunum.“

Áfangastaður fyrir sanna sælkera

Eins og Jóhanna bendir á er ekki bara kjörið að næra andann í Dölum með nálægð við söguna og náttúruna, heldur eru Dalirnir sannkölluð matarkista og því tilvalinn áfangastaður fyrir sælkeraferð. „Dala-ostarnir eru auðvitað landsþekktir og hér í héraðinu er ræktaður hvítlaukur sem ég fullyrði að á sér engan líka,“ segir Jóhanna. „Það eru einstök berjalönd víða um Dalina og Rjómabúið að Erpsstöðum er sívinsæll áfangastaður fyrir sælkera enda er framleiðslan einstök og gestir ávallt velkomnir. Heimsókn í Dalina er sannkölluð veisla fyrir bragðlaukana.“

Kyrrð og slökun í náttúrulegu umhverfi

Sem fyrr segir eru Dalirnir kjörnir fyrir það sem kalla mætti „hæglætis-ferðamennsku“ þar sem markmiðið er að komast í ósnortna náttúru og upplifa þar kyrrð og vellíðan. „Hér í Dölunum lífið afslappað og gott. Það er gaman að segja frá því að við tökum jafnan eftir því að gestir, hvort sem þeir eru Íslendingar eða erlendis frá, eru oftast fljótir að aðlagast andrúmsloftinu í Dölunum og finna ákveðna ró í hinu einstaka náttúrulega umhverfi. Ferðamenn hafa líka oft haft það á orði við heimafólk hvað þeir finni mikla afslöppun á svæðinu. Þetta er nokkuð sem við lítum á sem verðmæti og munum alltaf standa vörð um. Dalirnir eru og munu verða griðastaður, fjarri ys og þys nútímans.“

Dalahótel

 

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0