radhusid mynd ragnar th
radhusid mynd ragnar th

Nýr samstarfsaðili í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík

Höfuðborgarstofa hefur valið fyrirtækið Guide to Iceland (GTI) til samstarfs um rekstur sölu- og bókunarstarfsemi í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík. Fyrirtækið hefur samstarf við Höfuðborgarstofu þann 16. janúar 2017 en þá opnar Upplýsingamiðstöð ferðamanna á nýjum stað í Ráðhúsi Reykjavíkur. Upplýsingamiðstöð ferðamanna hefur verið starfrækt í Aðalstræti 2 frá árinu 2002.

Þremur fyrirtækjum, Iceland Travel Assistance, MD Reykjavík og Guide to Iceland, var boðið að taka þátt í samningaviðræðum að undangengnu hæfismati. Guide to Iceland fékk hæstu einkunn matsnefndar og byggði hún á eftirfarandi þáttum: Þjónustu, gæðum og stýringu, starfsmannahaldi, búnaði og tækjakosti, vistvænum rekstri, nýsköpun og þróun og þóknun til Höfuðborgarstofu. Það var einróma álit matsnefndarinnar að GTI hefði sett fram þá samningstillögu sem uppfyllti best framsettar kröfur samningaviðræðugagna.

Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar samþykkti einróma tillögu matsnefndarinnar um að taka tilboði Guide to Iceland um rekstur sölu- og bókunarstarfsemi í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík.

,,Við á Höfuðborgarstofu erum mjög  spennt að hefja samstarf við Guide to Iceland í byrjun nýs árs. Fyrirtækið er framsækið og leggur mikið uppúr öryggi og dreifingu ferðamanna, umhverfissjónarmiðum sem og nýsköpun og þróun í upplýsingamiðlun,“ segir Áshildur Bragadóttir forstöðukona Höfuðborgarstofu. „Það er afar mikilvægt að fá slíkt fyrirtæki til samstarfs á tímum mikils vaxtar í ferðaþjónustu. Um leið vil ég þakka núverandi samstarfsaðila okkar, Iceland Travel Assistance, fyrir gott samstarf á liðnum árum.“

Matsnefndin var skipuð Áshildi  Bragadóttur, forstöðukonu Höfuðborgarstofu, Karen Maríu Jónsdóttur, deildarstjóra Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Reykjavík, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, fulltrúa Ferðamálastofu og Grétari Þór Jóhannssyni, fulltrúa innkaupadeildar Reykjavíkurborgar.

Nánari upplýsingar veitir Berghildur Erla Bernharðsdóttir kynningar-og markaðsstjóri  Höfuðborgarstofu, símar: 411 -6005 / 694 5149 / [email protected]

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0