Réttir – Þegar fénu er smalað í dilka
Að hausti til, í september hefjast flestir bændur landsins við að smala fé sínu af fjöllum. Þar hafa þau verið í góðu yfirlæti yfir sumarið, en nú er komið að þeim árlega viðburði sem réttir eru. Þar er holdafar og vellíðan fjársins vegið og metið auk þess sem bændur skiptast á fréttum, deila sopum, syngja og njóta þess að eiga í samskiptum. Ungir sem aldnir hjálpast að og er réttardagurinn, þegar féð hefur verið dregið í dilka, einn skemmtilegasti dagur ársins að mati margra. En hvernig fer þetta nú allt saman fram? Fyrir þá sem ekki eru vanir fjárbúskap eru ef til vill ekki með á hreinu hvernig hægt er að leyfa kindum að valsa frjálsum um fjöllin og vænta þess að þær snúi sjálfviljugar til baka að hausti. Hér að neðan má finna lausn þess leyndardóms, sem margir ferðalangar hafa sjálfsagt velt fyrir sér er þeir rekast á fé á ferðum sínum um landið.
Ofurfæði fjallanna
Þegar ær hefur borið, er hún vanalega höfð inni við fyrstu tvær vikurnar auk tveggja vikna aðlögunartíma með lambið sitt eða lömbin innan girðingar nálægt bænum. Í kjölfarið, en það fer nú eftir því kannski hvar bærinn er staðsettur – er oft nóg fyrir bændurna að opna hliðið á girðingunni og á einhvern dularfullan hátt veit féð vanalega hvað ætlast er til af þeim. Að leggja land undir fót. Einhverjir bændur þurfa þó að flytja fé sitt á bíl, ef langt er til fjalla eða á það svæði sem þeim er ætlað að vera. Þegar þangað er komið kennir ærin ungviðinu á hverju er hægt að þrífast í nærumhverfinu auk þess sem lambið er á spena. Sjávargróður, lyng og birki er á meðal þess sem kindur eru hrifnar af og því ekki alltaf stór nauðsyn að ganga í haga eða grassvæði sem etv. er verið að rækta upp. Matarræði þetta mætti kalla ofurfæði því þyngdaraukning lambanna er veruleg yfir sumarið. Í júní vegur meðal lamb um 7 kíló en þegar komið er í réttir eftir sumarið hefur þyngdin aukist um tæp þrjátíu kíló. Það þýðir að viðkomandi lamb bæti á sig amk. 400gr. daglega og þannig sexfaldað þyngd sína á þremur mánuðum! Auðvitað hefur veðurfar og annað áhrif á velferð lambanna enda áhrif á gróðurinn sem er aðalfæða þeirra.
Hvað ungur nemur gamall temur
Þegar kominn er tími til að smala kindunum frá þeirra grænu gresjum þarf að vera sæmilega skipulagður þegar á að hefja göngur. Göngufólk og smalar kemba nærliggjandi landsvæði, bæði sitt eigið og þeirra sem nálægt búa og eru þeim úthlutaður dagafjöldi eftir því hversu margar kindur á veturfóðrum þeir halda. Bændur aðstoða hvern annan við að reka féð heimleiðis og áhugavert er hversu vel þeir þekkja sitt fé. Hvar það heldur sig og hvar það helst mætti finna. Að sama skapi er það áhugavert að lömbin læra af mæðrum sínum og fara þá sjálf á sömu staði að ári.
Dregið í dilka
Þegar í réttirnar er komið þarf að draga kindur í dilka. Til allrar hamingju er féð vandlega eyrnamerkt og því ekki erfitt að ganga úr skugga um hver á hvað. Elstu kindurnar eru merktar á þrjá vegu, á hornin og á tvennan hátt á eyra. Þekkist þá að fullu hvaðan þær koma auk þess sem stuldur er nær ógerlegur. Þegar allar kindur hafa verið taldar og komið í rétta dilka er kominn tími til að smala þeim heimleiðis. Reynt er að nýta þá stígi og götur sem myndast hafa í náttúrunni en þó getur komið fyrir að bændur þurfi að beina hjörðum sínum á þjóðvegina.Þá geta myndast allsérstæð umferðaröngþveiti.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar
Við þær aðstæður skal láta svo lítið og aka afar varlega. Reyndar er best að hafa augun opin í hvert skipti þegar ekið er utanbæjar enda hætta á að lömb eða kindur hlaupi jafn frjálslega um þjóðvegi og móa. Í flestum tilvikum slysa reynir lamb reynir að elta móður sína yfir veginn en er svifaseinna í förum og ekki eins vart um sig þegar kemur að bílum. Ef svo ólánlega vill til að ekið er yfir fé skal hið snarasta hafa samband við lögreglu eða ef til vill nærliggjandi bæi. Þá geta eigendur tekið þau skref sem rétt eru við slíkar aðstæður, hvort sem er að hlúa að dýrinu eða aflífa það – ef það hefur ekki látist við ákeyrsluna. Rétt er að geta þess að flestir bændur eru tryggðir vegna slíkra óhappa.
Einkenni Íslands
Á ferðalögum um landið er að minnsta kosti nokkuð víst að vart verði sauðfjár. Sumar eru óhræddar við mannfólkið og gefa því gaum á meðan aðrar halda sig fjarri og minna helst á hvíta skýjahnoðra í fjöllunum. Þau eru stór hluti af íslensku landslagi og hafa oftar en einusinni veitt listamönnum hughrif. -Edda Snorradóttir