Safnanótt 2017
Frítt inná 45 söfn
Safnanótt á Vetrarhátíð verður haldin föstudagskvöldið 3. febrúar en þá opna 45 söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu dyr sínar frá kl. 18-23 og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið yfir 120 viðburða af öllum stærðum og gerðum í söfnum á höfuðborgarsvæðinu. Það verður m.a. hægt að fara í pulsupartý í Garðskálanum í Gerðarsafni í Kópavogi, gera draugagrímur á Bókasafninu á Seltjarnarnesi, fara á opnun sýningar á verkum Ilmar Stefánsdóttur í Hafnarhúsinu, fara í jóga í Bókasafni Mosfellsbæjar, heyra spennandi þjóðsögu á Hvalasýningunni, sjá ljósasirkus í Borgarbókasafninu Grófinni, fara í fornleifakjallarann á Bessastöðum, sjá alvöru víkinga á Sögusafninu, fara í ratleik í Hönnunarsafninu í Garðabæ, fara til spákonu eða taka þátt í draugagöngu á Árbæjarsafni, sjá norðurljósin í Auroru Reykjavík, skoða myntir í Seðlabankanum, sjá drauga fortíðar í Hinu húsinu, sjá alvöru eldsmiði og víkinga á Landnámssýningunni, hlusta á pönkhljómsveitir í Pönksafninu, kíkja á alls konar merkilegar listsýningar á listasöfnum borgarinnar eða fara í stjörnuskoðun í Bókasafni Hafnarfjarðar.
Safnanæturleikurinn á sér stað á öllum söfnunum en þar geta gestir svarað laufléttum spurningum og unnið árskort á söfn, fallegar gjafir frá söfnunum ásamt öðrum skemmtilegum gjöfum.
Sérstakur Safnanæturstrætó gengur á milli safnanna á öllu höfuðborgarsvæðinu og auðveldar gestum heimsóknina. Safnanæturstrætó verður með óvenjulegu sniði í ár en Kvikmyndasafn Íslands hefur útbúið þrjá keyrandi bíósali um borð í strætó og sýnir einstakt heimildarefni af ýmsum toga um borð. Þær kvikmyndir sem eru á dagskrá, eru sérstaklega valdar fyrir hverja leið sem vagnarnir fara. Einn vagninn verður til að mynda með sérstaka áherslu á gamalt efni frá Hafnarfirði, annar með meiri áherslu á efni sem tengist Kópavogi og sá þriðji með áherslu á efni sem tengist miðbæ Reykjavíkur. Vagnarnir verða á sveimi frá klukkan 18.00 til 23.00 þann 3. febrúar. Miðstöð Safnanæturstrætó verður á Kjarvalsstöðum.
Brekkusprettur Á föstudeginum 3. febrúar verður jafnframt reiðhjólakeppnin Brekkusprettur haldin kl. 19 á Skólavörðustígnum. Þar reynir fyrst og fremst á spretthörku þátttakenda.
Um Vetrarhátíð Fjögurra daga glæsileg Vetrarhátíð verður sett í kvöld við Hallgrímskirkju kl. 19.40 þar sem verkið Sköpun lands verður afhjúpað ásamt hljóðverki. Þá fer af stað ljóshestareið frá Hestamannafélaginu Fáki. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina. Höfuðborgarstofa skipuleggur og framkvæmir Vetrarhátíð sem nú er haldin í 16 sinn og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samstendur af fjórum meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt, Snjófögnuði og ljósalist ásamt
yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni. Allir þessir viðburðir eru ókeypis auk þess sem frítt er fyrir börn yngri en 16 ára á Snjófögnuðinn í Bláfjöllum. Á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu eru upplýstar í einkennislitum Vetrarhátíðar, grænum og fjólubláum, auk þess sem ljóslistaverk eru á nokkrum lykilbyggingum á höfuðborgarsvæðinu. Vetrarhátíð lýkur með myrkvun götuljósa í miðborginni á sunnudaginn 5. febrúar kl. 21-22. Orkusalan er aðalbakhjarl Vetrarhátíðar í ár.
Nánari upplýsingar á: Vetrarhatid.is
Nánari upplýsingar veitir Berghildur Erla Bernharðsdóttir kynningar- og markaðsstjóri Höfuðborgarstofu, símar: 411-6005 / 694 5149 / [email protected].