Reykjavíkurborg, Samtök ferðaþjónustu (SAF) fyrir hönd skemmtistaða í Reykjavík, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) skrifuðu í dag undir samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði í Reykjavík. Samkomulagið miðar að því að bæta samskipti og samstarf milli þessara aðila.
Þeir skemmtistaðir sem taka þátt í samkomulaginu verða með sérstakar merkingar þar sem kemur fram að þeir standi vörð um öryggi gesta og dyraverðir verða með upphandleggsarmband með sömu skilaboðum.
Þeir skemmtistaðir sem eru þegar aðilar að samkomulaginu eru: Hressó, Kofi Tómasar frænda, BarAnanas, Vegamót, Enski barinn, Danski barinn og Lebowski bar.
Forsendur samkomulagsins eru að forsvarsmenn, rekstraraðilar og starfsfólk skemmtistaða, lögreglan, slökkviliðið og Reykjavíkurborg líti á sig sem samstarfsaðila með sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi. Markmiðið er ofbeldislausir og öruggir skemmtistaðir í Reykjavík. Aðilar að samkomulaginu ætla að funda ársfjórðungslega í þeim tilgangi að meta árangur samstarfsins og mun lögreglan boða til þeirra funda.
Til að ná fram þessum markmiðum hefur eftirfarandi stefna verið ákveðin:
1. Stefna skemmtistaða (Aðgerðir) a) Að stuðla að góðum samskiptum við lögreglu gegnum tengiliði sem lögregla tilgreinir. (Sjá lið 2a um stefnu lögreglu.) b) Að stuðla að góðum samskiptum við slökkviliðið gegnum forvarnasvið SHS. c) Að eingöngu starfi dyraverðir sem lögreglustjóri hefur samþykkt. d) Dyraverðir skulu vera auðkenndir með sýnilegu upphandleggsarmbandi eða á annan fullnægjandi hátt. e) Að dyraverðir og starfsmenn skemmtistaða séu upplýstir um ákvæði rekstrarleyfa um ábyrgð á nánasta umhverfi, s.s. almenna umhirðu og hreinsun borgarlands á meðan á skemmtunum stendur og að þeim loknum. f) Að lögregla verði kvödd til ef upp kemst um ofbeldisbrot, kynferðisbrot og vörslu eða neyslu ólöglegra fíkniefna. g) Að dyraverðir og starfsmenn skemmtistaða séu upplýstir um lög og reglur er snúa að rekstri skemmtistaða og fylgi þeim.
Hafa skal sérstaklega í huga – i. að ungmennum yngri en 18 ára er óheimil dvöl á skemmtistað eftir kl. 22:00, ii. að ungmennum yngri en 20 ára verði ekki veitt áfengi inni á skemmtistað, iii. að ákvæðum rekstrarleyfis um gestafjölda sé ávallt fylgt, iv. að ákvæðum rekstrarleyfis um heimilan afgreiðslutíma sé ávallt fylgt, v. að ákvæði um brunavarnir og flóttaleiðir séu virt,
vi. að allir dyraverðir og starfsmenn þekki rýmingaráætlun staðarins og viti sitt hlutverk í henni. h) Að kappkosta að tryggja öryggi gesta með því – i. að afgreiða ekki áfengi til þeirra sem sýnilega eru ölvaðir eða á annan hátt ekki til þess bærir að gæta að eigin öryggi, ii. að hleypa ekki áberandi ölvuðum gestum inn á skemmtistað og tryggja öryggi gesta á meðan þeir standa í röð fyrir utan, iii. að sjá um að rými ætluð gestum, nema salernin sjálf, séu útbúin öryggismyndavélum, iv. að hafa markvisst, skipulagt og tímasett eftirlit með salernum m.a. til þess sporna við ofbeldisbrotum, kynferðisbrotum og vörslu eða neyslu ólöglegra fíkniefna, v. að tryggja að dyr og læsingar að salernum séu traustar svo sporna megi við ofbeldis- og kynferðisbrotum, vi. að tryggja að brunavarnir séu í lagi, s.s. brunaviðvörunarkerfi, neyðarlýsing og að flóttaleiðir séu opnanlegar og greiðfærar, vii. að rýmingaráætlun sé virk, allir þekki sitt hlutverk og að aðkoma slökkviliðs og upplýsingar til þess séu tryggðar, ef á þarf að halda, viii. að þekking sé hjá dyravörðum og starfsfólki á því að hlúa að gestum við veikindi og slys, ix. að leitast sé við að tryggja aðkomuleið sjúkrabifreiða eins og hægt er, ef til þess kemur, x. að sjúkraflutningamenn séu aðstoðaðir við störf sín, ekki síst svo þeir komist óáreittir til sjúklingsins, geti sinnt honum og flutt út í sjúkrabifreið.
2. Stefna lögreglu (Aðgerðir) a) Að stuðla að góðum samskiptum við stjórnendur og starfsfólk skemmtistaða. Óformleg samskipti fara fram beint og milliliðalaust milli starfsmanna skemmtistaða og tengiliða lögreglu. i. Lögregla mun halda símanúmeri opnu á álagstímum sem starfsmenn skemmtistaða geta nýtt til að koma upplýsingum áleiðis og leitað aðstoðar. Í neyðartilvikum skal hringja í neyðarnúmer lögreglu, 112. b) Að viðbragðstími lögreglu verði að jafnaði ekki lengri en 5 mínútur á álagstímum skemmtistaða. c) Að farið verði minnst ársfjórðungslega til eftirlits á hvern skemmtistað í miðborginni, þar af tvær sameiginlegar með Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.
3. Stefna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (Aðgerðir) a) Að stuðla að góðum samskiptum við stjórnendur og starfsfólk skemmtistaða. Óformleg samskipti fara fram beint og milliliðalaust milli starfsmanna skemmtistaða og starfsmanna forvarnasviðs SHS. b) Að gefa út og staðfesta með upplýsingaskilti leyfilegan fjölda á skemmtistöðum. c) Að viðbragðstími slökkviliðs og sjúkrabifreiða verði að jafnaði ekki lengri en 10 mínútur á álagstímum skemmtistaða. d) Að skemmtistaðir taki upp og sinni eigin eftirliti með eldvörnum á reglubundinn og skipulegan hátt. Noti „Brunavörðinn“, skoðunarapp SHS, og tryggi þannig sjálfir að mestu leyti að eldvarnir séu til staðar og í lagi. e) Að farið varði áfram í reglubundið eldvarnaeftirlit eins og verið hefur, en leitast við að skoða með lögreglunni þá staði sem þurfa meira eftirlits við en almennt gerist.
4. Stefna Reykjavíkurborgar (Aðgerðir) a) Að stuðla að góðum samskiptum við lögreglu, slökkvilið og skemmtistaði. Reykjavíkurborg tilnefnir tengiliði frá þeim sviðum sem að málinu koma. b) Að Reykjavíkurborg, í samvinnu við lögreglu, setji upp eftirlitsmyndavélar í miðborginni og tryggi góða lýsingu þar sem þörf krefur utandyra, eftir atvikum samkvæmt ábendingum lögreglu og/eða skemmtistaða. c) Að útbúa og afhenda merki til skemmtistaða sem sýnir að þeir hafa staðist kröfur sem settar eru á forsendum þessa samkomulags. d) Að útbúa og afhenda upphandleggsarmband fyrir dyraverði skemmtistaða sbr. lið 1d, sem sýnir að staðirnir hafa staðist kröfur sem settar eru á forsendum þessa samkomulags.
Samkomulagið tekur gildi 12.12. 2016 og verður endurskoðað að ári liðnu.
Nánari upplýsingar veitir: Berghildur Erla Bernharðsdóttir kynningar-og markaðsstjóri Höfuðborgarstofu í símum: 411 6005 / 694 5149 / [email protected]