Verið velkomin á opnun sýningarinnar Meira en þúsund orð sem er sýning á verkum Jönu Birtu Björnsdóttur og er hluti af listahátíðinni List án landamæra.
Tilgangur Listar án landamæra er að auka menningarlegt jafnrétti & fjölbreytni með því að skapa faglegan vettvang & tækifæri fyrir fatlaða listamenn.
Jana Birta er aðgerðarsinni, femínisti, myndlistarmaður og lífeindafræðingur. Á sýningu hennar má finna 16 setningar um ofbeldismyndir gegn fötluðu fólki en setningarnar mótuðu meðlimir samtakanna Tabú. Verkin eru hlaðin merkingum og margræðum, írónískum táknum. Merkingum og táknum sem geta verið áhorfandanum aðgengileg þar sem þær endurspegla menningu okkar samfélags og veruleika ákveðins minnihlutahóps sem í honum býr. Þær vekja einnig upp ýmsar óþægilegar spurningar. Spurningar um mismunun og óréttlæti.
Það er sagt að myndir segi meira en þúsund orð og á það svo sannarlega við um verk Jönu Birtu. List hennar fellur undir það sem kalla má aktívisma í myndlist, en það er nálgun í listum sem er byggð á virkri þátttöku listamannsins í aðgerðum á pólitískum eða félagslegum vettvangi en myndlistin hefur í sínum fjölbreytileika mikið verið notuð á þennan hátt í gegnum tíðina. Kínverski samtímalistamaðurinn Ai Weiwei fer þá leið í sinni listsköpun og segir m. a.; “ef eitthvað er þá snýst listin um… siðferði, um trú okkar á mannkynið. Án þess er einfaldlega engin list”
Sýningin fer fram í Bíósal Duus Safnahúsa og er opin til 21. nóvember.