Þegar komið er yfir Ölfusárbrú á leið austur blasir við autt svæði þar sem áður stóðu byggingar Kaupfélagsins Hafnar. Sveitarfélagið Árborg keypti þetta land árið 2011 fyrir 175 milljónir króna. Bæjarstjórnin rökstuddi kaupin meðal annars með því að þannig gæti sveitarfélagið haft fulla stjórn á því hvernig miðbæjarsvæðið byggðist upp. Sigtún Þróunarfélag hefur nú vilyrði fyrir lóðum á svæðinu og leggur fram tillögu að deiliskipulagi, sem unnin er af VSÓ-ráðgjöf og Batteríinu, arkitektum. Hún felur í sér byggingu húsa í eldri stíl sem eru mest 3 hæðir.
Söguhús rísa á ný
Öll eru þessi hús endurgerð eldri húsa, sem horfið hafa af sjónarsviðinu af ýmsum ástæðum. Um fimmtungur þessara húsa stóð á Selfossi, en hin í Reykjavík, Hafnarfirði‚ á Akureyri, Ísafirði, Eyrarbakka og víðar. Í forgrunni verður gamla Mjólkurbúið á Selfossi sem Sigtún Þróunarfélag og Mjólkursamsalan hafa sammælst um að endurbyggja. Talsmenn Batterísins arkitekta segja að með þessu sé ætlunin að gera þessum byggingum hátt undir höfði, stuðst verði við teikningar þar sem þær séu til, annars ljósmyndir og teikningar. Að innan verði svo húsin önnur en þau voru, í samræmi við nútíma kröfur um athafnarými, aðgengi, öryggi, eldvarnir og fleira.
Skjólgóður miðbær
Miðað er við að götur verði ekki breiðari en 10 metrar. Þannig verði til skjólgóður miðbær sem minni á miðbæi til dæmis í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri, Ísafirði og Seyðisfirði. Miðað er við bílastæði að húsabaki og að nokkru í götunum, en umferð verður takmörkuð að nokkru með einstefnuakstri. Í kynningu nú gefst öllum tækifæri til athugasemda við deiliskipulagið. Meirihluti bæjarstjórnar Árborgar er hlynntur tillögunum, en bíður þess hverjar viðtökur íbúa verða og hvort fjármögnun tekst. Minnihlutinn lagði fram bókun á síðasta sveitarstjórnarfundi, þar sem ýmsir fyrirvarar voru settir við málið. Meðal annars var þar spurt um hvernig sveitarfélagið næði aftur því fé sem lagt hefði verið í uppkaup landsins.
Lykilatriði í nýrri framtíð
Forystu sveitarfélagsins þykir hugmyndirnar falla vel að þeim breytingum sem framundan eru á næstu árum. Þá færist hringvegurinn norður fyrir Selfoss með nýrri brú yfir Ölfusá. Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar staðfestir þetta. „Jájá, við verðum auðvitað áfram með veg í gegnum bæinn. Við teljum að þetta og ýmislegt annað sem við höfum gert, geri það að verkum að fólk sjái áfram ástæðu til þess að koma við hjá okkur. Við fórum í miklar endurbætur á sundlauginni og sundlaugarsvæðinu og það er að skila mikilli traffík þar. Við horfum bara bjartsýn fram til sumarsins og bara framtíðarinnar“.