Útgáfuhóf og bókakynning
Í tilefni af útgáfu bókarinnar Málarinn og menningarsköpun: Sigurður Guðmundsson og Kvöldfélagið 1858-1874 býður Þjóðminjasafn Íslands í útgáfuboð í Safnahúsinu við Hverfisgötu föstudaginn 1. desember kl. 15.
Í bókinni eru 17 ritrýndar greinar, hluti afrakstrar fimm ára rannsóknarverkefnis þar sem rýnt var í störf og áhrif Sigurðar Guðmundssonar málara og Kvöldfélagsins í Reykjavík. Bókin er rétt um 600 blaðsíður að lengd, í henni eru u.þ.b. 140 myndir, en auk þess geymir hún ítarlega heimildaskrá sem spannar rúmlega 30 blaðsíður. Þjóðminjasafn Íslands gefur bókina út (í samstarfi við bókaútgáfuna Opnu). Bókin fæst í safnbúðum Þjóðminjasafnsins og vefverslun .
Greinarnar í Málarinn og menningarsköpun bæta nýjum víddum í sýn á markvissar aðgerðir Sigurðar og Kvöldfélagsins í sköpun þjóðlegrar menningar á Íslandi sem skilgreinir ímynd þjóðarinnar enn í dag. Í henni má sjá samhengi við umræðu og pólitík í Kaupmannahöfn og eins endurómun og áhrif alþjóðlegra hreyfinga. Höfundarnir skoða áhrif þessa merkilega starfs á leikhús, þjóðsagna- og forngripasöfnun, hönnun, þjóðlega búninga, þjóðfélagslega umræðu og fleira.
Greinasafnið er fyrst og fremst framlag til sögu Sigurðar Guðmundssonar málara. Til hans má rekja upphaf Þjóðminjasafnsins, Þjóðleikhússins, skaut- og kyrtilbúninga íslenskra kvenna og fleira, svo ekki sé minnst á almennt framlag hans til sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og verndunar innlendrar menningar. En um þennan einstaka mann og áhrif hans á íslenska menningu hefur hins vegar ekki verið gefin út bók síðan stutt æviminning kom út 1954 og hefur helst til lítið sést á prenti um hann yfirleitt. Þessi bók er því vel tímabær og ætti að vekja áhuga allra sem vilja fræðast um málarann, íslenska menningu og erlend áhrif sem mótuðu þjóðina og listir hennar á seinni hluta nítjándu aldar.
Rannsóknarverkefnið var styrkt af RANNÍS og var unnið með stuðningi Þjóðminjasafns Íslands, Landsbókasafnsins-Háskólabókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Þjóðskjalasafns Íslands (sjá vefsíðu verkefnisins https://sigurdurmalari.hi.is/). Útgáfan naut stuðnings frá Miðstöð íslenskra bókmennta.
Höfundar: Arndís A. Árnadóttir, Edda Björnsdóttir, Eiríkur Valdimarsson, Elsa Ósk Alfreðsdóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Karl Aspelund, María Kristjánsdóttir, Olga Holownia, Ólafur Engilbertsson, Sigurjón Baldur Hafsteinsson, Sveinn Einarsson, Sveinn Yngvi Egilsson, Terry Gunnell.
Ritstjórar: Karl Aspelund, lektor í hönnun og textílfræðum í University of Rhode Island og gestakennari í þjóðfræði í Háskóla Íslands og Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði í Háskóla Íslands.
Þjóðminjasafn Íslands Suðurgata 41 101 Reykjavík Sími: 530-2200