Heimili í nýju landi: Þýskar konur á Íslandi
Þriðjudaginn 28. mars kl. 12 flytur Nína Rós Ísberg mannfræðingur erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins. Nína Rós er með PhD í mannfræði frá University of London og starfar sem framhaldsskólakennari.
Árið 1949 komu um 300 Þjóðverjar til Íslands til að vinna við landbúnaðarstörf. Um helmingur þeirra, aðallega konur, settist hér að, giftist og stofnaði fjölskyldu. Koma þeirra tengist aðstæðum í Evrópu eftir seinna stríð og miklum breytingum í íslensku samfélagi. Ákvörðun þeirra um að setjast hér að vekur einnig upp spurningar um hvernig útlendingar verða hluti af íslensku samfélagi. Reynsla þeirra segir okkur töluvert um hugmyndir Íslendinga um sjálfa sig og hvað það er að vera íslenskur.
Fyrirlesturinn byggir á doktorsritgerð Nínu Rós í mannfræði við University of London um þýsku konurnar og minningar þeirra um að setjast að á Íslandi og stofna fjölskyldu.
Fyrirlesturinn er fimmti í röð hádegisfyrirlestra Þjóðminjasafnsins og er skipulagður í tengslum við sýninguna Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi.